141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við erum auðvitað algjörlega sammála um það hvers konar skilaboð það eru til samfélags eins og Snæfellsbæjar að loka þurfi heilsugæslustöðinni aðra hverja helgi. Það er auðvitað algjörlega óþolandi og ólíðandi. Á sama tíma státar stjórnarmeirihlutinn sig af því að nú sé verið að fara í miklar uppbyggingar, byggja hús íslenskra fræða fyrir 3,5 milljarða eða svo, en það er ekki hægt að standa að grunnþjónustunni í þessum samfélögum. Það er auðvitað mjög dapurlegt eins og í því tilfelli þar sem þetta er nú svokölluð H2 heilsugæslustöð og þar eiga að vera tveir starfandi læknar. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem allir skynsamir menn skilja ekki. Það er nú uppbyggingin og viðspyrnan sem stjórnvöld eru að boða. Það segir okkur auðvitað að þegar búið er að skera niður eins og í tilfelli Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, því það eru mjög, mjög, mjög lágar upphæðir, hlýtur að vera búið að leita í öllum skúffum og öllum skúmaskotum áður en menn þurfa fara í svona aðgerðir. Það er auðvitað gersamlega óþolandi og ólíðandi og það er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að fólk fari að líta á sig sem ákveðin vinnudýr.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem hann kom reyndar ágætlega inn á í ræðu sinni, að það þurfi að forgangsraða betur inni í fjárlögunum. Auðvitað er það með þau fjárlög eins og önnur, það er ekkert allt slæmt í þeim eða allt gott, við getum deilt um það. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir vandanum og séu meðvitaðir um þær aðgerðir sem þarf að fara í en státi sig ekki af því að vera að fara að byggja einhverja loftkastala þar sem auðvitað á eftir að taka tillit til kostnaðar við reksturinn. Það sýnir skilningsleysi stjórnvalda gagnvart íbúum landsbyggðarinnar, sérstaklega á þeim svæðum þar sem svona harkalega er gengið fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki algjörlega sammála mér um að auðvitað þurfi að breyta forgangsröðun og tryggja grunnþjónustuna? Því ef ekki er grunnþjónusta í þessum samfélögum þurfa þau enga þjónustu.