141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Ég held að við þurfum ekki endilega að ná saman um safnliðina, en ég vil þó koma því á framfæri að ég er ekki viss um að meira jafnræði sé meðal allra landsmanna þó að þetta sé komið í það form sem menn ætluðu að koma því. Það er ekki sjálfgefið að starfsmenn sjóða eða ráðuneyta séu óhlutdrægari, ef ég má orða það þannig, en þingmenn, það er alls ekki sjálfgefið. Það er alltaf spurning hvaða mælikvarðar eru notaðir þegar verið er að útdeila þessu. En þetta er kannski ekki stærsta málið sem við þurfum að glíma við núna á Íslandi.

Í breytingartillögum sem fylgja með fjárlagafrumvarpinu kennir margra grasa, svo vægt sé til orða tekið. Meðal annars er talað um netríkið Ísland sem ég ætla nú ekki að spyrja út í, það er svolítið sérstakt, en það vakti bæði kátínu hjá mér og gleði að sjá hér 10 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrundvöll Jafnréttisstofu. Það er vel til fundið hjá ríkisstjórn sem hefur líklega sett met í að brjóta jafnréttislög að efla Jafnréttisstofu og tryggja að stofan geti starfað og gætt að því að ríkisstjórnin fari að lögum það sem eftir lifir kjörtímabils og að sjálfsögðu líka komandi ríkisstjórn. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé full ástæða til að ríkisstjórnin fari á einhvers konar námskeið í jafnréttismálum fyrst búið er að auka fjárveitingar til Jafnréttisstofu. Ég hygg, og vona að ég fari með rétt mál, að sjaldan hafi jafnoft verið bent á jafnréttismál og hjá þessari ríkisstjórn.