141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt um safnliðina við minn góða vin, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Ég ætla ekki að orðlengja það mikið nema að ég hefði gjarnan viljað sjá þessa tilraun verða að veruleika, að við hefðum haft úthald og unnið þetta betur en ekki bakkað strax á fyrsta ári af því að menn verða eitthvað taugaveiklaðir, hvort sem það er heima í héraði eða á suðvesturhorninu. Mér leiðist þessi aðgreining í höfuðborg, suðvesturhornið og landsbyggðina. Ég hef margoft dregið fram hversu mikið hallar á höfuðborgarsvæðið varðandi samgöngur, en ég hef hins vegar mikinn skilning á því að það er mikil þörf á samgöngubótum á landsbyggðinni, þó að ég vilji líka að tekið sé tillit til þeirrar þarfar sem er á suðvesturhorninu. Þetta eru allt sameiginlegir hagsmunir. Það eru mínir hagsmunir að það séu til dæmis sterkar og góðar tengingar við Vestmannaeyjar, að þar sé öflug ferja og gott hafnarlægi til þess að geta komist þangað, á sama hátt og ég vil komast vestur á firði á sæmilegum vegum. Það eru mínir hagsmunir alveg eins og hagsmunir þeirra sem búa á landsbyggðinni.

Aðeins um Jafnréttisstofu. Mér finnst þetta ágætur punktur, 10 millj. kr. til Jafnréttisstofu. Ég held að þetta sé kannski fyrsta merkið um raunsæi af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum málum því að hún veit — ég ætla alls ekki að segja að hún sé síbrotamaður á sviði jafnréttismála en það er engu að síður þannig að þessi ríkisstjórn hefur brotið ekki bara einu sinni heldur margoft jafnréttislög. Það er kannski þess vegna sem Jafnréttisstofa fær þessa fjármuni, til að byrgja brunninn. Það er því ekkert óeðlilegt að sjá þessa fjármuni hér í ljósi þess hvernig ríkisstjórn Íslands hagar sér. Ég hefði hins vegar viljað sjá þessum fjármunum varið til raunverulegrar útrýmingar á kynbundnum launamun hjá ríkinu.

Það er merkilegt að sjá að forsætisráðherra, sem hefur haft áhuga á jafnréttismálum og haft metnað í þeim málum í gegnum árin, ég ætla ekki að taka það frá henni, og segir að það sé afar erfitt að útrýma launamun innan stjórnsýslunnar. Við erum með dæmi suður með sjó í Reykjanesbæ þar sem Árni Sigfússon bæjarstjóri hefur markvisst ásamt öllum öðrum sem vinna í stjórnkerfinu þar dregið úr launamun þannig að í dag er enginn kynbundinn launamunur. Ég hefði gjarnan viljað sjá þessum 10 millj. kr. varið í það, en það þarf væntanlega að halda ráðherrunum við efnið og til þess þarf Jafnréttisstofa að sjálfsögðu fjármuni.