141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka sérstaklega hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á íþrótta- og æskulýðsmálunum og ég vil taka undir með honum að þetta eru málaflokkar sem skipta okkur gríðarlega miklu máli. Það er verið að auka núna fjárframlög til íþrótta- og æskulýðsmála, þetta eru útgjöld til viðbótar.

Mér finnst það verra þegar ríkisstjórnin gerir þetta með því að sjúga allan kraft eða mjög mikið af þeim krafti sem er í sjávarútveginum með því að skattleggja hann alveg út í hið endalausa. Þar er ríkisstjórnin að lofa upp í ermina á sér með því að ganga að sjávarútveginum, að ferðaþjónustunni, stóriðjunni og iðnaðinum almennt. Það er ósköp auðvelt að lofa útgjöldum þegar menn herja á grunnatvinnuvegina með þessum hætti. Ég held að þetta sé röng aðferðafræði.

Hins vegar verðum við að sýna íþrótta- og æskulýðsmálum skilning. Ég tek undir með hv. þingmanni að ungmennamótin hjá UMFÍ á hverju ári, m.a. í tengslum við verslunarmannahelgina, eru hreint stórkostleg. Ég held líka, svo að það sé sagt, að við verðum að forgangsraða fjármunum í þessum efnum. Ég held að ríkisvaldið geti ekki kostað uppbyggingu mannvirkja úti um allt, ég held að sveitarfélögin og UMFÍ verði líka í samvinnu að forgangsraða. Það má kannski gera þetta á svipaðan hátt og Landssamband hestamannafélaga hefur reynt að gera. Ég hefði helst kosið að mótin væru aðallega á Suðurlandi og fyrir norðan í Skagafirði, en það verður að segjast eins og er að mótið í Reykjavík heppnaðist vel. En það er ekki hægt að dreifa landsmótum, hvort sem það er á sviði hesta eða ungmenna eða annarra, um allt. Við verðum hins vegar að byggja þau upp þannig að þau verði jafnöflug og þau eru núna af því að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að æska landsins hafi aðgengi að svona viðburðum, að keppni (Forseti hringir.) eins og Ungmennafélagið hefur staðið fyrir á umliðnum árum með frábærum árangri.