141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er afar ósammála honum um hluta af því sem þar kom fram og verð að segja að það risu á mér hárin þegar hann nefndi einkavæðingu Landsvirkjunar. Ég held að sá dagur muni aldrei koma að við verðum sammála um að fara þá leið.

Úr því að hv. þingmaður fór út á þá braut að ræða einkavæðingu Landsvirkjunar langar mig að spyrja hann hvaða augum hann líti það að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í orkuframkvæmdum. Hvað finnst hv. þingmanni t.d. um ef við stofnum fyrirtæki um ákveðna framkvæmd, ákveðna virkjun, að lífeyrissjóðirnir eigi 30–40% í því og Landsvirkjun þá restina eða eitthvað þess háttar? Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þeirrar hugmyndar.

Hv. þingmaður nefndi áðan að það væri greiðsluvandi hjá íslenskum heimilum. Ég held að það sé rétt, en þar er líka skuldavandi, í það minnsta hafa skuldirnar hækkað það mikið hjá mörgum að tekjurnar duga ekki fyrir þeim. Það kann þá að vera að það þurfi bara að hækka tekjurnar til að greiða hærri skuldir. Er þá ekki einhvers konar hringrás komin af stað? Ég hugsa að það sé jafnvel erfiðara að auka tekjurnar en ef menn hefðu nú gripið tækifærið, sem var hér fyrir nokkrum árum síðan, til að lækka skuldirnar.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að menn geti aukið tekjurnar? Ég hugsa að flestir séu nú að vinna myrkranna á milli í dag þannig að þeir geta illa bætt mörgum tímum við sólarhringinn, en hugsanlega mætti skapa verðmætari störf sem eru betur launuð, með því að koma hjólum atvinnulífsins af stað.

Síðan hlakka ég mikið til að heyra ræðu hv. þingmanns á eftir um Íbúðalánasjóð.