141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég þarf kannski aðeins lengri tíma til að átta mig á bitasöluhugsuninni, en það er eitt að hugsa um það og annað að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Það væri líka ágætt að heyra hver ætti þá að kaupa fyrirtækið Landsvirkjun ef það yrði selt og hverjir mundu þá reka fyrirtækið o.s.frv. Ég lít hins vegar svo á, þannig að því sé haldið til haga, að Landsvirkjun sé ein af grunnstoðum samfélagsins, ekkert ólíkt heilbrigðiskerfinu. Ég er ekki sáttur við að setja allt raforkukerfið í hendur á einkaaðilum ef það er hugmyndin, það líst mér ekki á. Við gerðum mikil mistök þegar við einkavæddum grunnnet Símans, það voru hrikaleg mistök, við áttum aldrei að gera það og við eigum að reyna að ná því aftur til ríkisins ef mögulegt er.

Varðandi Íbúðalánasjóð ætlar þingmaðurinn væntanlega að fara yfir það mál í ræðu síðar í kvöld og verður áhugavert að hlýða á það. Ég var búinn að spyrja hv. þingmann um lífeyrissjóðina og fjárfestingar í virkjunum og hann getur þá geymt að svara spurningunni varðandi Íbúðalánasjóð sem ég ætla að bera fram núna. Við höfum reynslu af því að einkaaðilar á íbúðalánamarkaði lána helst ekki út á land nema kannski á einn, tvo staði. Hvernig sér þá hv. þingmaður fyrir sér að byggingar á Hofsósi eða Sauðárkróki yrðu fjármagnaðar ef Íbúðalánasjóðs nyti ekki við eða eitthvað slíkt? Værum við þá samt sem áður með einhvers konar apparat sem tæki að sér að fjármagna slíkar byggingar?

Hv. þingmaður má geyma að svara ef hann kýs svo þangað til hann er búinn með Íbúðalánasjóðsræðu sína, en mig langar að heyra aðeins meira um lífeyrissjóðina og bitasölu Landsvirkjunar.