141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í mörgum trúarbrögðum eru tabú, þ.e. ekki má nefna vissa hluti. Ég man eftir því að í sveitinni í gamla daga var þjóðtrú þar sem ekki mátti ganga á vissa bletti og ekki mátti hafa hátt sums staðar af því að þá mundu álfarnir truflast eða eitthvað svoleiðis. Ég hef nú samt sem áður leyft mér að hugsa þá hugsun að selja Landsvirkjun. Ég held nefnilega að ef menn fara að hugleiða hana til enda fullnægi hún því skilyrði að auðlindin haldist í eigu þjóðarinnar, miklu frekar en að selja Landsvirkjun varanlega til lífeyrissjóðanna.

Rökin fyrir því að selja Landsvirkjun voru þau að minnka áhættu ríkissjóðs af ábyrgðunum. Þá legg ég að sjálfsögðu ekki til að lífeyrissjóðirnir kaupi þar hlut því að ekki vil ég fá áhættu þangað inn — kannski einhvern lítinn hluta, en ég mundi ekki vilja sjá það að lífeyrissjóðirnir ættu fyrirtækið að fullu.

Hv. þingmaður spurði hverjir mundu kaupa. Það er skemmtileg pæling. Stór alþjóðleg álfyrirtæki reka verksmiðjurnar á Reyðarfirði og í nágrenni Reykjavíkur, hvort sínum megin við Reykjavík. Það kynni nú að vera að þau hefðu áhuga á að kaupa uppsprettu orkunnar. Það kynni nú að vera að samkeppnisaðilar hefðu áhuga á því að kaupa uppsprettu orkunnar hjá þeim. Ég hugsa því að það gæti vel verið að stórir erlendir aðilar mundu kaupa þarna til 40 ára, kæmu inn með gjaldeyri, fjárfestu, sem mundi gera okkur léttara að borga erlendar skuldir. (GBS: Hverjum gætu þeir selt?) Þeir selja álverum sem eru þarna og þeir samningar eru til, enda hækka þeir verðið. Svo koma kolefnislosunarsamningarnir í Evrópu sem eiga eftir að hækka orkuverð á Íslandi sennilega um 20–30%. Það er svo merkilegt að meira að segja Kínverjar og Indverjar eru farnir að tala um kolefnislosunarkvótann.