141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og að hann sé tilbúinn að fara aðrar leiðir en nú er gert.

Svo það komi alveg skýrt fram, svo það misskiljist ekki þá geri ég mér fulla grein fyrir þeim umsvifum sem fylgja þeim verkefnum þegar menn fara í þessar framkvæmdir eða framleiðslu á kvikmyndum. Það kallar á fullt af fólki til vinnu og kallar á þjónustukaup og þannig mætti lengi telja. Það sem ég hef gagnrýnt í þessu er að þetta er í raun og veru opinn tékki sem gerir það að verkum að ekki er hægt að stjórna útflæðinu úr ríkissjóði. Það er mikilvægt.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um eitt, hann kom inn á það í ræðu sinni, þ.e. skuldsetningin á ríkissjóði. Nú er skuldsetningin á ríkissjóði gríðarlega há og við greiðum mikla vexti. Það eru engar pólitískar deilur um það að menn vilja auðvitað ná niður vaxtagreiðslum til að geta byggt upp velferðarkerfið og svo margt annað sem vantar fjármuni í. Svo verðum við líka að huga að því að við erum í skjóli gjaldeyrishafta og vextir á erlendum mörkuðum eru mjög lágir, þó svo að kannski hafi verið heldur háir vextir á því skuldabréfi sem var boðið út í bandaríkjadölum á þessu ári.

Bara örlítil breyting á vaxtaprósentu hefur gríðarleg áhrif á stöðu ríkissjóðs og getur hlaupið mjög snögglega á milljörðum og jafnvel tugum milljarða. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji skynsamlegt að fara í fjárfestingaráætlanir eins og þær, ef við nefnum til dæmis hús íslenskra fræða upp á 3,5 milljarða, 3,4 eða 3,7 milljarða, hvort ekki væri nær að stíga aðeins mildilegar til jarðar og nota frekar þá peninga til að fara í frekari fjárfestingar sem mundu styðja við hagvöxtinn, eða þá að greiða niður skuldir til að draga úr vaxtakostnaði.