141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því og ég er sammála hv. þingmanni um það, og ég held að við öll hérna inni séum sammála um það að skuldirnar eru of miklar og vextirnir of háir sem við erum að borga. Það eru líka mikil verkefni fram undan varðandi það hvernig og hvenær við afléttum höftunum, hvað við gerum við þær miklu eignir erlendra aðila sem eru hér lokaðar inni o.s.frv.

Ég er í grunninn sammála því að ef við erum að taka áhættu og eyða fjármunum með þessum hætti, ég segi taka áhættu vegna þess að það er rétt að ef vextirnir hreyfast örlítið getur það haft gríðarleg áhrif, þá held ég að skynsamlegra hefði verið að nota þá til að reyna að skapa meiri tekjur. Ég held að við komumst ekki hjá því. Þó svo að við þurfum að sjálfsögðu að greiða niður skuldir okkar verðum við líka að setja einhverja fjármuni eða alla vega stuðla að því að tekjur vaxi og þar af leiðandi aukist hagvöxtur.

Ég get ekki séð að tekjur aukist eða hagvöxtur með því að ráðast í margar af þeim framkvæmdum sem eru í fjárfestingaráætlun eins og hv. þingmaður nefndi. En ég veit að við erum sammála um að það segir ekkert til um hvort verkefnin eru góð eða slæm, þetta er bara spurning um hvort við höfum efni á að fara í þau núna eða ekki, og það á við svo margt að sjálfsögðu. Það kann vel að vera að eitthvað muni gerast á næsta ári sem geri það að verkum að hægt verði að standa við þetta allt saman, ég veit það ekki, ég sé það ekki, ég sé ekki að þær forsendur séu fyrir hendi, en ef svo er þá er það bara vel.