141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt vandinn. Þær krónutöluhækkanir sem rætt er um og aðrar hækkanir fara út í verðlagið. Þær valda hækkun á verðbólgu. Þar með hækka lán almennings í beinu hlutfalli við það og kaupmátturinn skerðist. Það er vandinn við frumvarpið.

Hugsunin í frumvarpinu markast að mínu mati allt of mikið af kosningum sem standa fyrir dyrum en ekki af því sem gera þarf í fjármálum ríkisins. Það sem þarf að gera er að samrýma peningamálastefnuna og ríkisfjármálastefnuna. Létta þarf á verðbólguþrýstingnum vegna þess að verðbólgan hækkar lánin okkar og dregur úr kaupmætti. Það er mat forustumanna Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins að ekki sé möguleiki fyrir fyrirtækin að mæta kröfum um kauphækkanir sem augljóslega munu rísa vegna verðbólguþróunar vegna þess hvernig fjárlagafrumvarpið er sett upp. Þar er m.a. bent á hvernig svikið hefur verið að lækka tryggingagjaldið, sem var ein af forsendum þess að síðustu kjarasamningar voru með þeim hætti sem þeir voru.

Þess vegna segi ég: Ég vona að í þingliði meiri hlutans séu alvörugefnir hv. þingmenn sem hlusta á það sem sagt er og bent hefur verið á og noti tímann núna (Forseti hringir.) til að bregðast við því þannig að við keyrum ekki inn í svona vitleysu eina ferðina enn.