141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vekja upp spurningar þegar dregin er upp svo skýr mynd af ósamræminu milli peningamálastefnu og ríkisfjármálastefnu, eins og hv. þingmaður gerði. Maður veltir því fyrir sér hvernig á því geti staðið að sambandið á milli hæstv. forsætisráðherra og yfirmanns seðlabanka landsins, sem handvalinn var og ráðinn af forsætisráðherra, sé jafnlélegt og það virðist vera. Ég held þó reyndar að sambandið sé miklu meira en menn vilja vera láta.

Ég hef að sjálfsögðu tekið eftir áhyggjum aðila vinnumarkaðarins líkt og aðrir sem eru augljóslega áhyggjufullir yfir því að hér muni allt fara á hliðina líkt og hv. þingmaður nefndi. Það hlýtur þá að vera ákall til þeirra þingmanna í stjórnarliðinu sem sjá hlutina með sömu augum, að reyna að sporna við og berjast á móti þessu. Ekki er á það bætandi ef fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er verðbólguhvetjandi og ljóst er af þeim aðgerðum sem við sjáum í tillögum þeirra að ekki á að standa við stóru orðin varðandi tryggingagjald eða annað heldur á þvert á móti að bæta í, sýnist mér. Þær krónutöluhækkanir sem þingmaðurinn nefndi réttilega munu að sjálfsögðu fara út í verðlagið. Hvort sem það er nú brennivín eða olíugjald eða annað mun það á endanum koma við lánin okkar.

Það er áhyggjuefni að ríkisstjórn sem setið hefur í fjögur ár skuli vera jafnhugmyndasnauð og raun ber vitni þegar kemur að því að auka tekjur ríkissjóðs, hún hækkar nær eingöngu skatta. Ekki er reynt að breikka skattstofninn eða fjölga þeim sem greiða skatta heldur er hoggið áfram í sama knérunn. Þeir sem borga skatt í dag eiga einfaldlega að borga meira og þar með talið heimilin og kannski ekki síst þau. Þetta eru þeir flokkar sem kenndu sig við velferð einhvern tíma en það er algjört öfugmæli þegar kemur að þessari ríkisstjórn.