141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sat niðri í þingflokksherbergi áðan og var að hlusta á ræðu hv. þingmanns þegar ég sá hvar hv. þm Lúðvík Geirsson gekk fyrir myndavélina með blað sem á stóð MÁLÞÓF. Ég veit að hv. þm Illugi Gunnarsson var í sinni annarri ræðu og í því ljósi fannst mér þetta mjög sérkennilegt, ekki síst af því að maður hefði haldið að þingmönnum Samfylkingarinnar væri annt um orðspor Alþingis. En þingmaðurinn gerði sig afar lítinn mann með þessu framferði sínu og ætti að sjálfsögðu að koma hingað og biðja hv. þm. Illuga Gunnarsson afsökunar á framferði sínu og biðja okkur samþingmenn sína líka afsökunar. (Gripið fram í: Okkur öll.) Það er akkúrat svona framferði sem setur Alþingi niður en ekki það að þingmenn virða þingsköp og tala eins og þingsköp leyfa. Ég skora á hv. þingmann að biðjast afsökunar á framferði sínu.