141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það gengur margt á suma daga í þinginu og sérstaklega þegar dregur nær því að fyrir verði teknar atkvæðagreiðslur í stórum málum líkt og hér er um að ræða, fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013. Ég verð að segja, herra forseti, að á þeim stutta tíma sem ég hef setið á þingi hefur margt gengið á en háttsemi hv. þm. Lúðvíks Geirssonar hér áðan er að því er ég tel það versta sem ég hef séð, sérstaklega þegar menn eru að reyna að ræða málefnalega um þetta stóra mál.

Ég beini enn og aftur þeirri hvatningu til þess hv. þingmanns að biðjast hér afsökunar. Það er fullt frelsi til að gera efnislegar athugasemdir um einhverja nefndafundi í fjárlaganefnd en það verður að gerast í ræðustól, ekki með einhverjum handskrifuðum mótmælaskiltum sem borin eru um þingsalinn til að reyna að ná athygli fjölmiðla. Þetta er ekki sniðugt, þetta er niðurlægjandi fyrir okkur öll og ég er afskaplega döpur yfir því að sjá þetta hér.

Herra forseti. Við erum að ræða um fjárlagafrumvarpið 2013 og hér fer fram 2. umr. Mér reyndari þingmenn hafa sagt mér að það sé til siðs að tala við 2. umr. en halda sig til hlés í 1. umr. Þess vegna er ég hér nú að halda mína fyrstu ræðu um þetta mikilvæga mál og tel afskaplega eðlilegt að þannig sé framgangur málsins.

Það er margt sem hægt er að tala um og erfitt að afmarka sig þegar öll fjárlög ríkisins eru undir. Engu að síður ætla ég að byrja á stóru dráttunum, fara svo aðeins yfir í málefni lögreglunnar og fara þannig í gegnum þann tíma sem ég hef hér til umráða.

Í nefndaráliti 1. minni hluta með þessu máli er mikil gagnrýni á að ekki hafi tekist að koma böndum á ríkisútgjöldin. Enginn hefur verið öfundsverður af því hlutverki að þurfa að skipuleggja ríkisfjármálin undanfarin ár í kjölfar falls íslensku bankanna en engu að síður verða menn að sýna vönduð vinnubrögð og fara í verkefnin með opin augu og með öll spilin á borðum.

Enn er hallarekstur ríkissjóðs of mikill. Áætlanir hafa ekki staðist og hér erum við með í höndunum viðamiklar breytingartillögur á frumvarpinu sem upphaflega var lagt fram í haust. Að sjálfsögðu er um mörg góð mál að ræða en það vekur spurningar hvers vegna, ef þetta hefur allt legið fyrir, þetta var ekki í frumvarpinu þegar það var lagt fram og hvort það sé eðlilegt að hér séu, eins og lítur út fyrir að vera, samþykktar beint allar útgjaldatillögur ríkisstjórnarinnar. Útgjaldatillögur Alþingis eru hins vegar settar í einhverja biðstöðu.

Á undanförnum árum höfum við séð mikinn niðurskurð á fjárlögum sem er í sjálfu sér eðlilegt þegar staða ríkissjóðs er jafnslæm og hún hefur verið undanfarin ár, en þess vegna er skrýtið að sjá núna frumvarp með tillögum um mikil aukin útgjöld. Ég held að það hafi verið þáverandi fjármálaráðherra sem sagði það þegar frumvarpið var kynnt, hv. þingmaður og þáverandi hæstv. ráðherra, Oddný Harðardóttir, að þetta væri vissulega kosningafrumvarp. Það er rétt, hér er verið að setja fé í verkefni sem á að hefja fyrir kosningar en næstkomandi þing og þing næstu ára mun þurfa að leita fjármagns til að fjármagna og klára þær framkvæmdir sem ætlunin er að byrja á samkvæmt þessu frumvarpi.

Miðað við stöðu ríkissjóðs held ég að hér sé of bratt farið í málin. Ég held að við þurfum að setjast aðeins betur yfir þetta. Það er full ástæða til að ræða þetta aðeins betur í þingsalnum. Það eru ýmis verkefni sem ekki hefur tekist að útskýra fullnægjandi hvernig á að fara í. Eitt dæmið er Íbúðalánasjóður, annað er nýi landspítalinn sem til stendur að byggja, málefni Hörpu, löggæslan og margt fleira. Ég ætla að staldra aðallega við málefni löggæslunnar og fara síðan í málefni Íbúðalánasjóðs ef tími gefst til.

Á tímum niðurskurðar verður maður að forgangsraða og það mikilvægasta sem maður þarf að líta til að mínu viti er að það sé alveg ljóst að farið sé eftir einhverri almennri stefnu varðandi niðurskurð og að menn sjái ljóslega fram á það hvenær niðurskurðartímabili ljúki þegar lagt er af stað, þ.e. að það sé eitthvert ljós við enda ganganna. Ég held að það hafi ekki verið lagt þannig af stað í þennan leiðangur og ég tel að við verðum að læra af því og gera betur ef við þurfum að halda áfram að skera niður í rekstri ríkissjóðs á næstu árum sem ég tel nauðsynlegt.

Eitt atriði sem verður að vera til staðar til að samfélagið virki er öryggi borgaranna. Þar horfum við á sterka lögreglu sem við þurfum að byggja upp og gæta að því að ekki sé gengið of nærri lögregluembættunum. Það eru nokkur embætti þar sem ég þekki betur til en annars staðar, t.d. hjá lögreglustjóranum á Ísafirði og síðan í mínu kjördæmi. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur náð gríðarlegum árangri í því að snúa við rekstri þess embættis og hafa miklar umbyltingar átt sér stað varðandi yfirstjórn og skipulag embættisins. Er algjörlega til fyrirmyndar hvernig haldið hefur verið á spilunum þar. Það embætti er sérstakt að mörgu leyti vegna þess að lögreglustjórinn á Suðurnesjum sér ekki eingöngu um umdæmið sjálft, þ.e. íbúana á Suðurnesjum sem eru rúmlega 20 þús. talsins, heldur einnig um alþjóðaflugvöll þar sem farþegum hefur fjölgað gríðarlega eins og við sjáum á tölfræði sem lögð er fram.

Þegar flugumferð eykst og farþegum fjölgar mjög mikið á Keflavíkurflugvelli er ljóst að verkefni lögreglunnar í tengslum við einstaklinga sem fara um á röngum skilríkjum aukast og stórum fíkniefnamálum fjölgar. Þá þarf að bæta í. Sú staðreynd að farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgar má ekki valda því að öryggi og þjónusta við borgarana á Suðurnesjum minnki.

Við verðum að horfa á þetta með opnum augum. Samkvæmt farþegaspá er gert ráð fyrir áframhaldandi auknum farþegafjölda og viðbót frá löndum sem getur hækkað vástig á flugvellinum með auknum kröfum og kostnaði lögreglunnar. Árið 2012 var frekari aukning um 4,4% um ytri landamæri og 11,8% um innri landamæri. Þetta verðum við að hafa í huga ef við erum að skoða með hvaða hætti við ætlum að veita fé til þessa embættis. Ef við ætlum að fjölga eggjum í körfunni og gera ferðaþjónustu að atvinnugrein sem verður ein af undirstöðunum hér á landi verða þessir hlutir líka að vera í lagi.

Sum flugfélög gera út á það að Ísland sé millilendingarstaður milli heimsálfa enda liggur landið þannig landfræðilega að það er eðlilegt að við getum markað okkur stóran sess á þessum markaði. Þá er lykilatriði að stoppið taki sem skemmstan tíma. Skilvirk þjónusta er forsenda þess að hægt sé að standa við þennan 35 mínútna tengitíma sem er skilgreindur fyrir Keflavíkurflugvöll og er forsenda leiðakerfis stærsta notanda flugvallarins. Við þurfum að horfa á þetta og átta okkur á að þetta er forsenda fyrir því að þessi verkefni hverfi ekki af landi brott.

Mannaflaþörf miðað við farþegaspár Isavia fyrir Keflavíkurflugvöll er áætluð 29 ársverk fyrir árið 2013 en áætluð ársverk fyrir yfirstandandi ár eru 25. Áætluð þörf fyrir fjölgun starfsmanna í flugstöðvardeild er því 2–2,7 ársverk. Verkefni flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum eru mjög mörg, t.d. landamæraeftirlit, greining og rannsóknir á ferðaskilríkjum, farþegagreining, umsjón og eftirlit vegna farþegalistakerfis, sértækt lögreglueftirlit, almenn löggæsluverkefni, stuðningur við flugvernd, verkefni tengd Almannavörnum, verkefni tengd IBM og verkefni tengd komu og brottför þjóðhöfðingja sem og erlent samstarf. Þetta eru viðamikil verkefni og ef við ætlum okkur að marka okkur sess á þessum stóra markaði þurfum við, eins og ég segi, að leggja það fé fram sem gerir okkur kleift að nýta flugvöllinn og afla tekna af þeirri fjárfestingu sem lagt hefur verið í.

Það vantar aðstöðu til að hýsa fólk sem er til skoðunar á landamærum. Þar færi fram flokkun í áhættuhópa, heilbrigðisskoðun og þar væru fjölbreyttari vistunarúrræði en eru núna á Fit. Það er þörf á endurnýjun á tækjakosti skjalarannsakara. Þetta er staðan varðandi lögreglustjórann á Suðurnesjum en það hefur verið mikil umræða í nefndum þingsins um stöðu lögreglunnar og með hvaða hætti við sjáum hana fyrir okkur í framtíðinni. Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktunartillaga frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um gerð löggæsluáætlunar og á grunni hennar verður hægt að meta mannaflaþörfina út frá því hver verkefnin eiga að vera. Verkefnin verða skilgreind og þá er hægt að meta fjárþörfina.

Við þingmenn höfum jafnframt fengið orðsendingu frá Lögreglufélagi Suðurlands en þar innan borðs eru lögreglumenn í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Það er alveg ljóst að gerðar hafa verið miklar hagræðingar- og sparnaðarkröfur á þessi embætti. Við þekkjum öll hér umræðuna um að það er ekki lengur lögregluþjónn í Vík. Hafa heimamenn þar bent á þá staðreynd og óskað eftir því að úr því verði bætt. Ég taldi í fyrra að fram kæmi tillaga frá innanríkisráðherra um að úr þessu yrði bætt. Það eru nokkur ár síðan byrjað var að laga þetta.

Bæði í Árnessýslu og Rangárvallasýslu er íbúafjöldinn ekki það eina sem telur. Það er gríðarlega mikil sumarhúsabyggð á þessum svæðum og á sumarhelgum tvöfaldast fjöldi fólks í umdæminu. Að sjálfsögðu eykst þjónustuþörfin að sama skapi og útköllin miða við það. Sú staðreynd að þessi mannfjöldi dreifist um gríðarlega mikið landflæmi veldur því að það þarf mikinn akstur og miklu meiri mannskap. Ef það er útkall á sama tíma í Þorlákshöfn og uppi í Bláskógabyggð og síðan eitt enn á Rangárvöllum um nótt eða síðla kvölds er deginum ljósara að mikill tími fer í það eitt að koma sér á staðinn og til baka.

Flestallir ferðamenn sem koma til landsins fara hinn svokallaða Gullhring og það hefur færst í vöxt á undanförnum árum, frá því að ég var starfandi í ferðaþjónustunni, að ferðamenn eru meira á bílaleigubílum sem þýðir miklu meiri umferð og þá er augljós þörf á frekara umferðareftirliti og þjónustu við þá sem eru til dæmis ekki vanir að keyra í vegakerfinu okkar.

Upphaflega hélt ég að það kæmi einhver heildstæð mynd í fjárlagafrumvarpinu sjálfu en síðan hélt ég að við 2. umr. kæmu einhverjar tillögur um það hvernig ætti að taka á málefnum lögreglunnar. Nú er mér ljóst að svo er ekki. Ég hef ekki heyrt í umræðunni neinar skýringar á því hvers vegna svo er ekki. Hafi tillögurnar farið fram hjá mér óska ég eftir því að einhver komi hér upp og fari yfir það hvenær og hvernig meiri hlutinn ætlar að taka á málefnum lögreglunnar. Hér var ágæt sérstök umræða um málefni löggæslunnar fyrir um það bil hálfum mánuði og ég gat ekki heyrt betur, herra forseti, en að fulltrúar allra flokka væru sammála um að það þyrfti að taka á í þessum málum og að ekki gengi það mikla álag sem er á þá starfsmenn sem sinna þessum mikilvægu störfum fyrir okkar hönd.

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna nýs landspítala og í raun er algjörlega óljóst hvort til standi að byggja hann eða ekki. Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt hér innan dyra neinar boðaðar fjárlagatillögur út af því máli. Fyrst umræðan virðist vera komin svona langt í fjölmiðlum skil ég ekki alveg hvers vegna þess sér ekki stað í frumvarpinu.

Annað mál sem ég ætlaði að fara yfir í stuttu máli er staða Íbúðalánasjóðs. Við áttum hér í vor ágætisumræður um framtíðarskipulag og hugmyndir flokkanna um það með hvaða hætti Íbúðalánasjóður yrði rekinn í framtíðinni. Samkvæmt lögunum á Íbúðalánasjóður að vera félagslegur sjóður til að aðstoða þá sem þurfa að koma sér upp húsnæði en geta af einhverjum sökum ekki fjármagnað það öðruvísi en með aðstoð hins opinbera. Hins vegar hefur Íbúðalánasjóður ekki verið þannig sjóður, hann hefur verið í samkeppni við einkaaðila og var um langan tíma ráðandi á þeim markaði. Sú staðreynd að ríkisábyrgð er á þeim lánum og skuldbindingum sjóðsins gerir það að verkum að þegar jafnstór hluti húsnæðiskaupenda er í viðskiptum við þann sjóð hefur þetta fyrirkomulag áhrif á efnahag þjóðarinnar.

Viljum við hafa þetta svona til framtíðar? Ég tel að við þurfum að breyta sjóðnum og ég tel að við þurfum að fara í umfangsmiklar breytingar. Eftirlitsaðilar hafa bent á það að þetta fyrirkomulag sé ekki í lagi, það sé ekki í lagi að Íbúðalánasjóður starfi á samkeppnismarkaði. Frumvarpið sem varð að lögum með breytingum á húsnæðislögunum í vor sneri að því að reyna að koma lítillega til móts við þessar athugasemdir. Ég gerði athugasemd við það að það væri allt of skammt gengið, við ættum frekar að setjast yfir það hvernig við vildum sjá starfsemi sjóðsins til framtíðar en að fara í einhverjar minni háttar lagfæringar. Ég geri ráð fyrir að þessir sömu eftirlitsaðilar geri fyrr en seinna athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Við ættum að ræða það hvers vegna þessi sjóður sem upphaflega átti að vera félagslegur sjóður sinnir núna allt öðru hlutverki. Ef hann á yfirleitt að vera til tel ég að hann eigi að vera félagslegur og ekki að sinna öðru hlutverki. Hvernig sjá menn hlutina fyrir sér til framtíðar? Í umræðunni í vor kom fram að menn vildu setjast yfir þetta en þeir voru ekki tilbúnir að fara að taka ákvarðanir. En hvenær eru menn tilbúnir að taka einhverjar ákvarðanir?

Það verður erfitt, það er erfitt að taka stórar ákvarðanir. Það er erfitt að breyta Íbúðalánasjóði. Það er erfitt að standa á móti þeim, t.d. á landsbyggðinni, sem munu segja að það verði erfitt fyrir landsbyggðina að fara í gegnum einhverjar breytingar á Íbúðalánasjóði.

Þegar við lítum til heildarhagsmuna, af því að það fyrirkomulag að Íbúðalánasjóður sé starfræktur með þessum hætti er slæmt fyrir alla Íslendinga og hefur áhrif á efnahag allrar þjóðarinnar, hljótum við að ætla að taka okkur á og endurskoða þessa starfsemi. Það hlýtur að vera. Ég kalla eftir því að menn fari að tala um það hér hvernig þeir sjá þessa starfsemi fyrir sér í framtíðinni. Það er ekki eftir neinu að bíða. Auðvitað er alveg ljóst að þeir 13 milljarðar sem á að bæta inn í sjóðinn núna eru brot af því sem þarf. Það er ekki búið að skrúfa fyrir þennan leka, það verður framhald í því efni á næstu árum og þeim mun lengur sem menn draga það að horfast í augu við vandann sem blasir við og fara að taka á honum til framtíðar, þeim mun verra verður málið. Ég hvet því menn til dáða, af því að menn sögðu það í umræðunni um húsnæðismálin í fyrra að þeir ætluðu eitthvað að breyta þessu, og bið þá þess lengstra orða að fara að drífa sig í það.

Herra forseti. Í hinu ágæta nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er lítillega fjallað um Íbúðalánasjóð og þar er talað um þá 13 milljarða sem lagðir eru til hér. Daginn eftir að fjárlagafrumvarpið var tekið út úr fjárlaganefnd ákvað ríkisstjórnin að leggja þessa 13 milljarða í Íbúðalánasjóð. Umræða um fjárlög fer fram í þinginu og þess vegna er athyglivert að ekki hafi verið reynt að vinna þetta þannig að breytingin kæmi inn í frumvarpið fyrir 2. umr. Árið 2010 voru settir 33 milljarðar inn í sjóðinn og það er algjörlega ljóst af þeim tölum sem menn eru að reyna að sjá út úr þeim upplýsingum sem liggja fyrir að þessi nýjasta tillaga frá ríkisstjórninni dugar hvergi til og það verður að fara í aðgerðir til að taka á þessu til lengri tíma litið.

Félagar mínir í fjárlaganefnd fara jafnframt yfir málefni Hörpu sem er eitt málið þar sem ekki liggur fyrir með hvaða hætti á að taka á stóru verkefni og stórum vanda. Ég skil ekki vinnubrögðin í nefndinni. Ef afstaðan og hugarfarið er eitthvað líkt hegðun þingmanna hér í salnum í kvöld skil ég kannski betur af hverju menn horfast ekki að í augu við vandamálin heldur eru með einhvers konar — ég veit ekki hvað ég á að kalla það, ég vil eiginlega ekki kalla þetta barnaskólaleiki vegna þess að þetta er eiginlega á miklu lægra plani. Ég ætla bara rétt að vona, herra forseti, að þetta sé hvorki hugarfarið í fjárlaganefnd né vinnubrögðin almennt í þeirri mikilvægu nefnd við vinnslu á þessu mikilvæga máli.

Herra forseti. Það kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að það markmið sem stjórnvöld settu sér, sem var ágætt markmið, að við yrðum með hallalausan ríkissjóð árið 2014, næst ekki. Það hefur skort á festu og aga í ríkisfjármálunum. Hvernig hefðum við séð fyrir okkur þetta fjárlagafrumvarp ef menn hefðu haldið sig við það plan sem þessi ríkisstjórn hefur fylgt undanfarin þrjú ár í staðinn fyrir að hlaupa til á kosningavetri og bæta í og hefja framkvæmdir á fjölda verkefna með loforðum upp á stóraukin ríkisútgjöld til næstkomandi ára til að klára þau verkefni sem var byrjað á rétt fyrir kosningar? Hvernig væru þessi fjárlög þá? Sæjum við þá fram á að ná markmiði um hallalausan ríkissjóð 2014? Nei, ég held að við hefðum varla náð því, en það hefði þó verið örlítið meiri festa og agi í slíkum fjárlögum.

Miðað við þetta frumvarp og sérstaklega þær fjölmörgu viðbætur sem koma fram hérna við 2. umr. er búið að gerbreyta um stefnu. Hér er ekki reynt að fylgja einhverri festu heldur er verið að auka útgjöld ríkissjóðs. Þetta eru ekki slæm verkefni en við getum tekið dæmi af húsi íslenskra fræða sem mun kosta 3,4 milljarða á þremur árum. Þar er verið að taka ákvörðun ekki bara fyrir næsta ár heldur næstu tvö ár. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór ágætlega yfir það í sinni ræðu að ekki hafa verið lagðar fram neinar upplýsingar um hvað muni svo kosta að reka húsið. Hvað mun það kosta? Hefði ekki verið ágætt að læra svolítið af reynslunni með Hörpu? Þar gleymdu menn aðeins að reikna út hvað kostaði að reka húsið, að því er mér skilst miðað við umræður í fjölmiðlum á undanförnum vikum og mánuðum. Það er einhvern veginn eins og menn hafi ekki lært neitt af reynslunni. Það er alveg sérstaklega undarlegt.

Jafnframt vekur athygli í þessu fjárlagafrumvarpi að ekki á að standa við þá forsendu kjarasamninga að lækka tryggingagjaldið. Stjórnarliðar voru stóryrtir rétt áðan og sögðu að menn ættu að virða gildandi samninga en það eru áhöld um hvort það hafi verið eitthvert samkomulag í hv. fjárlaganefnd um einhvern ræðutíma. Menn eru eitthvað ósammála um það, gott og vel, en hér erum við með undirritaða kjarasamninga, m.a. af fulltrúum þeirra sömu aðila og töluðu hér um að menn ættu standa við samninga. Þá spyr ég bara beint á móti: Hvers vegna standa ríkisstjórnarflokkarnir ekki við þá forsendu kjarasamninga að lækka tryggingagjaldið?

Hvar er nú hv. þm. Lúðvík Geirsson? Ætlar hann að taka þátt í málefnalegri umræðu og svara þessari spurningu minni, þingmaðurinn sem telur að menn eigi að standa við gerða samninga? Hvert er svarið við þessari spurningu? Ég held að það væri betra að eyða tíma okkar í að tala um það en að dreifa einhverjum skiltum eða miðum um þingsalinn.

Herra forseti. Í nefndaráliti 1. minni hluta er vitnað til afstöðu Alþýðusambands Íslands út af óvissu í hagvaxtarspá. Þar kemur fram að Alþýðusambandið telur efnahagsbatann brothættan og að ekki sjái fyrir endann á þeim vanda sem umheimurinn glímir við í efnahagsmálum. Alþýðusamband Íslands telur að ef efnahagsmálin þróist á verri veg en spár gera ráð fyrir erlendis muni það koma sér illa fyrir okkur. Þetta er rétt og af þessu eigum við öll að hafa áhyggjur. Jafnframt lýsir Alþýðusambandið enn einu sinni yfir áhyggjum af því að stór fjárfestingaráform, eins og álver í Helguvík, séu ekki komin í höfn þó að það sé reiknað með því verkefni í spánni og hafi verið reiknað með því undanfarin ár í þessari spá. Ef álver í Helguvík fer ekki af stað dregur úr hagvexti og það mun hafa áhrif á þessa niðurstöðu. Verðmætasköpun okkar verður ekki jafnmikil og gert er ráð fyrir í þessari spá.

Það gengur ekki að við veðjum alltaf á það að hagvöxtur verði endalaust drifinn áfram af aukinni einkaneyslu. Það verða að koma til fjárfestingar og aukin framleiðni. Þegar við erum að tala um það er svo sorglegt að hugsa til þess að við höfum ekki haft vit á því í þessum sal að reyna að koma þeim tækjum og tólum í virkni sem geta hjálpað okkur til þess að fá upp aukinn hagvöxt. Hér er ég sérstaklega að tala um þær auðlindir sem við eigum sem hljóta að vera þau vopn og sá grundvöllur sem við ætlum að byggja á til framtíðar.

Við eigum miklar auðlindir, við erum rík þjóð. Við eigum mikil tækifæri í virkjun vatnsafls sem og jarðvarma en sú staðreynd að ekki hefur tekist að klára rammaáætlun á faglegum forsendum hefur gert það að verkum að verkefni tengd orkunni eru ekki komin af stað. Það tekur tíma að byggja þau upp, það tekur tíma að virkja, það tekur tíma að klára umhverfismat o.s.frv. Ef við drögum lappirnar hér — og við höfum verið að því, málið var fast í þingflokkum stjórnarflokkanna í nokkra mánuði í fyrravetur — hefur það slæm áhrif.

Síðan eigum við fleiri auðlindir, m.a. fiskinn í sjónum. Við Íslendingar erum mikil fiskveiðiþjóð og eigum eitt best fiskveiðistjórnarkerfi í heimi, ef ekki það besta, þar sem ekki þurfa að koma til ríkisstyrkir. Við erum stolt af því. Við hefðum getað byggt enn frekar undir þessa öflugu undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga á þessum mikilvæga tíma sem felur í sér fullt af tækifærum. Þó að ástandið hafi verið erfitt á þessu kjörtímabili er fullt af tækifærum sem lágu fyrir okkur og hefðum við getað staðið saman um að byggja upp sjávarútveginn, standa með honum í stað þess að umbylta því kerfi sem hefur gefist okkur vel, skapað okkur mikil verðmæti og þjóðarbúinu öllu gríðarlegar tekjur, værum við kannski í sterkari stöðu en við erum í í dag. Ég tel það algjörlega ljóst. Hefðum við staðið okkur í þessum tveim mikilvægu málum værum við í miklu betri stöðu en við erum í í dag.

Það þýðir ekki að væla yfir því, eins og maðurinn sagði, það er of seint að grípa í þann spotta. Við verðum að horfa á stöðuna eins og hún er í dag og reyna að vinna út frá henni. Þá voru menn að tala um ferðaþjónustuna, að hún ætti að vera framtíðin, þar ætti að byggja upp og þar mættu menn aldeilis að halda áfram. Þá kemur til hin mikla boðaða hækkun á virðisaukaskatti sem hv. þm. Oddný Harðardóttir, þáverandi fjármálaráðherra, boðaði í ágúst. Við sáum öll sem heyrðum í þeim ferðaþjónustuaðilum sem þá þegar voru búnir að gefa út verð á þjónustu sinni fyrir næstu ár hversu mikil og ömurlega slæm áhrif þessar yfirlýsingar og þessi áform ríkisstjórnarinnar höfðu á þann iðnað. Öll þessi hækkun hefði lent á þeim sem reka ferðaþjónustufyrirtæki vegna þess að menn voru einfaldlega búnir að gefa út verðskrá og selja ferðir fyrir næsta ár og sumir hverjir fyrir næstu tvö ár.

Maður hefði getað haldið að ríkisstjórn sem ætlaði sér, eftir því sem mér skilst, að veðja á að aukin ferðaþjónusta mundi skila auknum hagvexti fyrir landið hefði hugsað um það áður en áform sem þessi voru sett af stað og áætla hvaða áhrif slík breyting mundi hafa á fjölda ferðamanna og stöðu greinarinnar í heild, að menn hefðu reynt að átta sig á þessu fyrir fram. Svo var ekki og ég hef skellt því fram að menn hafi í þessu máli hent fram hinni sígildu skattahækkunaraðferð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að setja fram brjálaðar skattahækkunarhugmyndir, taka svo upp eitthvert samráð eftir á og lækka tillögurnar um á að giska helming og láta þetta allt saman koma út sem gríðarlegar skattalækkanir. Þetta er aðferðafræðin, maður hefur séð hana margoft hérna, a.m.k. árlega síðan ég kom inn á þing.

Niðurstaðan virðist verða sú að aftur verði tekið upp milliskattþrep, sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna, og mig langar að upplýsa hér og nú að þegar þetta mál kom fyrst fram í fjölmiðlum, að það ætti að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna upp í hærra þrepið, átti ég samtöl við mjög áhyggjufulla og í rauninni skelfingu lostna ferðaþjónustuaðila sem hringdu í mig þann dag og ég sagði: Já, vittu til, það verður tekið upp aftur hérna 14%-þrepið, þetta er aðferðafræðin. Þetta var allt saman frekar fyrirsjáanlegt.

Herra forseti. Það er eitt mál sem mig langar að leyfa mér að fjalla aðeins um, málefni Íslenskrar ættleiðingar. Ég hef lagt fram í þinginu nokkrar fyrirspurnir og reynt að fá fram upplýsingar um með hvaða hætti staðið er að þessu máli af hálfu innanríkisráðuneytisins og hef svo sem fengið ágætissvör frá hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni um að ætlunin sé að reyna að koma á blað og skrifa undir samning við félagið Íslenska ættleiðingu þannig að það verði einhver festa í þeim mikilvægu málum er varða fjölda Íslendinga sem eiga enga æðri ósk en þá að verða foreldrar, að það sé þannig haldið utan um þessi mál að menn viti frá ári til árs að félagið sé starfhæft og menn viti að það séu til fjárveitingar til að sinna bæði því starfi sem þarf að vinna áður en ættleiðing á sér stað og einnig eftirfylgninni. Félagið ber skyldur samkvæmt lögum. Það þarf að ganga frá samningi á milli ríkisins og Íslenskrar ættleiðingar. Ég átta mig alveg á því að það er fullur vilji til þess hjá hæstv. ráðherra að gera slíkan samning, ég get ekki skilið svör ráðherrans og samræður mína við hann hér öðruvísi en að það standi til og ég sé að það stendur meira að segja í breytingartillögunni þar sem gert er ráð fyrir auknu fé í þennan málaflokk. Það er reyndar ekki nægjanlegt til að standa undir þeim hugmyndum sem félagið hefur um það hvernig starfseminni á að vera háttað þannig að það sé hægt að sinna þeim lagaskyldum sem á félagið eru lagðar. Þetta hefur tekið afskaplega langan tíma. Drög að samningi liggja fyrir og mig langar enn og aftur að hvetja ráðherrann til að taka málið fyrir bara strax á morgun, eða kannski á mánudaginn, gefum honum frí á morgun af því að það er 1. desember, og klára þetta mál. (Forseti hringir.) Það eru komin nokkur ár sem samningar hafa verið lausir.