141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

uppbygging iðnaðar við Húsavík.

[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil bera undir hæstv. umhverfisráðherra mál sem snúa að uppbyggingu iðnaðar við Húsavík og á Bakka. Síðast þegar uppi voru áform um að reisa þar álver sendi umhverfisráðuneytið málið í sérstakt umhverfismat, sameiginlegt umhverfismat. Síðan leið og beið og á endanum vildi ríkisstjórnin ekki framlengja viljayfirlýsingu við þá sem þar áttu í hlut og málið datt út af borðinu við talsverðan fögnuð margra stjórnarliða á Alþingi.

Nú eru uppi hugmyndir um að inn á svæðið komi nokkur minni iðnfyrirtæki. Kannski er þetta það sem menn áttu við þegar talað var um að „eitthvað annað“ þyrfti að koma en nýtt álver við Bakka, eins og fyrirtæki sem ætla að starfa í kísiliðnaði við kísilbræðslu. Vitað er að slík fyrirtæki eru með starfsemi þar sem hvert framleitt tonn mengar meira en álver sem þó var ekki hugnanlegt stjórnvöldum á þeim tíma.

Ég vil bera það upp við umhverfisráðherra hvort það sé einhver andstaða í ríkisstjórninni við þessi áform og þá tegund af starfsemi sem fyrirhuguð er á þessu svæði vegna þess að við tökum eftir því að það skortir í fjárlögin rúma 2 milljarða til að styðja við uppbyggingu innviða svæðisins svo að þau geti haldið áfram á eðlilegum dampi. Það vantar peninga inn á fjárlög í vegagerð og hafnarmannvirki til að tímaáætlanir um uppbyggingu þessarar starfsemi standist. Þar fyrir utan finnst mér bara sanngjarnt og eðlilegt að menn segi í tíma ef þeir hafa eitthvað á móti eðli starfseminnar sem þarna er um að ræða og þess vegna kalla ég eftir því frá hæstv. umhverfisráðherra að slík sjónarmið, ef þau eiga á annað borð við, komi fram nú þegar.