141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

álkaplaverksmiðja á Seyðisfirði.

[15:15]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Því er fljótsvarað af minni hálfu. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að Framtakssjóðurinn skyldi ekki treysta sér til að vera með í þessu verkefni. Menn báru meðal annars fyrir sig staðsetninguna, að veð í húsnæði og annað því um líkt yrði þarna veikara en jafnvel bara í nálægum fjörðum. Þarna var um að ræða álitlegt verkefni úti á landsbyggðinni á stað sem hefur átt á brattann að sækja í atvinnulegu og byggðalegu tilliti. Mér fannst þetta kjörið tækifæri fyrir Framtakssjóðinn til að afsanna það sem margir hafa óttast að hann yrði ekki mjög viljugur til fjárfestinga úti um landið sem leiddi á sínum tíma til þess að vissir lífeyrissjóðir á landsbyggðinni eru ekki einu sinni þátttakendur í sjóðnum. Þeir höfðu áhyggjur af þessu sama eins og mér finnst því miður hafa komið á daginn að fjárfestingar sjóðsins hafi verið bundnar meira við starfandi stórfyrirtæki eða fyrirtæki í fjárhagslegri endurskipulagningu hér á höfuðborgarsvæðinu.

En þetta fór eins og þetta fór. Það var ljóst að það þurfti allsterkan aðila með umtalsverða getu inn í hópinn til að ná þessu meginfjármagni sem þarna voru gerðar kröfur um af bönkum og öðrum slíkum aðilum og menn höfðu ekki afl til að klára dæmið þegar Framtakssjóðurinn heltist úr lestinni.