141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

undirbúningur olíuleitar.

[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég er algerlega sammála honum um að það er jákvætt að fá norska aðila og sérþekkingu að þessu máli. En ég verð samt að ítreka þær spurningar sem ég bar fram áðan: Hvað hefur nákvæmlega verið gert í stjórnsýslunni? Hvað hefur verið gert til að fara eftir umsögn umhverfisráðuneytisins frá því í október? Menn hljóta að hafa lagt mikla vinnu í það fyrst verið er að fara út í rannsóknarleyfi núna.

Ég er sammála hæstv. ráðherra hvað það varðar að við þurfum að nýta tímann vel. Auðvitað hefur þetta verið lengi í undirbúningi en við þurfum ekki síst að taka tillit til umhverfisins og auðlindarinnar sem er ekki endurnýtanleg auðlind.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra þessara spurninga aftur: Hvað hefur nákvæmlega verið gert? Ég vil einnig inna hann eftir því tímaplani sem fram undan er. Getur hann brugðið upp mynd af því fyrir okkur hvernig hann sér þetta þróast á næstu vikum og mánuðum?