141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

undirbúningur olíuleitar.

[15:21]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eðli málsins samkvæmt hafa náttúrlega engin ósköp gerst síðan í október frá því að umsögn umhverfisráðuneytisins kom. Það sem gerist væntanlega næst er að beðið verður eftir því að norska Stórþingið taki fyrir niðurstöðu ríkisolíufélagsins um að heimila því þátttöku í verkefnunum og sérleyfin síðan gefin út í framhaldi af því einhvern tíma snemma á næsta ári. En norska Stórþingið þarf sem sagt að taka þessa norsku þátttöku í verkefninu fyrir.

Það hefur verið fylgst mjög vel með framþróun þessara mála af Íslands hálfu og við höfum átt, eins og ég segi, verulegt samstarf við Noreg þar um. Það hafa verið fundir, bæði milli ráðuneyta og sérfræðistofnana. Menn hafa fylgst með þessu og kannski af auknum áhuga eftir óhappið í Mexíkóflóa sem hefur sett ýmislegt í endurskoðun í sambandi við öryggiskröfur og öryggisreglur í þessum efnum. Þar held ég að hægt sé að treysta því að Norðmenn gera ríkari kröfur til öryggis- og umhverfismála við olíuvinnslu á hafi en sennilega nokkurt annað ríki. Við erum því í sæmilegum félagsskap með það að leita stuðnings frá þeim.