141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

lögmæti verðtryggingar.

[15:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að hafa ýmsar efasemdir um ESA yfirleitt sem ég tel að hafi einmitt þrengt um of að skuldugu fólki á Íslandi. Þá er ég að tala um þær skorður sem ESA hefur viljað setja Íbúðalánasjóði sem ég tel jaðra við að vera tilræði við fullveldi okkar, hvernig við rekum okkar stofnanir þar á meðal Íbúðalánasjóð.

Ég hef hreinlega ekki gert það upp við mig, eða reyndar velt því fyrir mér af neinni alvöru, hvort ég telji að þetta mál eigi yfirleitt heima hjá ESA. Ég hef ekki sannfærst um það. Ég er tilbúinn að hlusta á þau rök sem fram kunna að vera reidd hvað þetta snertir en þegar á heildina er litið þá tel ég að ESA og úrskurðaraðilar innan hins Evrópska efnahagssvæðis hafi iðulega seilst fulllangt inn í fullveldi okkar með sínum dómum.