141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:31]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Ja, fyrirætlanirnar eru svipaðar því þegar frumvörp eru lögð fram á Alþingi að menn binda vonir við að þau verði afgreidd. Það er almennt þannig. Varðandi spurningar hv. þingmanns að öðru leyti hefur að sjálfsögðu allt verið skoðað og haft undir sem nýtt er í þessu máli frá því að það var hér á dagskrá í fyrravetur, fyrravor og fram á sumar, þar á meðal mikill fjöldi umsagna. Vinnan í þinginu og eftir þingið var hluti af samkomulagi um þinglokin. Síðan hafa komið fram gögn á haustdögum eins og niðurstaða auðlindastefnunefndar og fleira mætti nefna. Tekið hefur verið tillit til ýmissa hluta sem fram hafa komið og frumvarpið mun bera það með sér að það hefur verið skoðað rækilega í ljósi þess sem nú liggur fyrir. Það byggir að stofni til á eldri nálgunum í þessu máli, allt aftur til sáttanefndar sem starfaði á annað ár undir forustu núverandi hæstv. velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar.

Það verða engar óskir um að þetta frumvarp verði afgreitt fyrir jól svo að ég rói hv. þingmann mjög mikið í þeim efnum. Auðvitað væri gott frá þingtæknilegum sjónarmiðum og venjum að málið kæmist til 1. umr. og til nefndar. Stjórnarandstaðan greiðir mjög gjarnan götu þess að mál fái vandaða þinglega meðferð þannig að ég á von á að því verði vel tekið að við reynum að smeygja þessu inn á dagskrá þingsins í desember og koma því til nefndar fyrir jól. Það væri æskilegt.