141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar.

[15:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þar sem ég var á fimmtudag og föstudag með fjarvistarleyfi en persóna mín dróst í þá umræðu sem hér var leyfi ég mér að koma með eftirfarandi yfirlýsingu:

Það var hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, sem óskaði eftir því að frestun yrði á fjárlagaumræðunni. Það kom fram í fjárlaganefnd og við því var orðið að frestunin yrði um eina viku. Ég vil hins vegar taka það fram vegna orða margra þingmanna, bæði á þingi og annars staðar, að hver þingmaður verður að bera ábyrgð á eigin gjörðum og eigin orðum innan þings sem utan, en það var aldrei — ég ítreka, það var aldrei samið um málsmeðferð 2. umr. fjárlaga. Það var samið um frestun í eina viku en um málsmeðferðina var aldrei samið. Þeir sem hafa farið fram og vænt meðal annars þá sem hér stendur, sem var starfandi forseti og fulltrúi í fjárlaganefnd, um að hafa rofið samkomulag fara með ósannindi innan þings sem utan.