141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar.

[15:38]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að skattyrðast við hæstv. 1. varaforseta Alþingis, Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Hún stýrði þinginu með miklum sóma og í góðu samkomulagi við alla þingflokksformenn þá daga sem forseti þingsins var í burtu og þing starfaði.

Fjárlaganefnd hafði í haust frumkvæði að því að breyta umræðuhefðinni sem hefur skapast hér á undanförnum allmörgum árum um fjárlög í þinginu og lagði upp með nýtt skipulag á umræðunni sem tók tvo daga í góðu samkomulagi við alla. Hún fór mjög vel fram að mati allra. Þess vegna var mjög vel í það tekið á fundi formanna með forseta þegar forseti kynnti tillögu um hvernig 2. umr. fjárlaga skyldi fara fram, að henni skyldi frestað um viku og öllu hnikað, þar á meðal 3. umr. um einn dag.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég hef aldrei sagt að hv. þm. (Forseti hringir.) Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi brotið samkomulag. Ég hef sagt að hv. þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks (Forseti hringir.) og Framsóknarflokks hafi ekki viljað kannast við verk sín. Við það stend ég.