141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar.

[15:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Kannast við verk sín eða ekki, þá get ég upplýst hæstv. forseta og þingflokksformann Vinstri grænna að ég er afar stoltur af mínum verkum á Alþingi. Ég hafna því hins vegar algjörlega að einhvers konar dularfullt samkomulag hafi orðið milli þingflokksformanna um þessa umræðu. Það sem rétt er kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þ.e. umræðunni var frestað um eina viku. Um það var samkomulag. Stjórnarandstaðan tók vel undir það að fresta umræðunni þar sem stjórnarmeirihlutinn var einfaldlega ekki tilbúinn með fjárlagafrumvarpið í samræmi við starfsáætlun og þær dagsetningar sem hann hafði sjálfur ákveðið. Það er hægt að vísa þessu máli öllu beint til föðurhúsanna.

Málið er einfaldlega að það var ekkert samkomulag. Umræðunni varð að fresta vegna vandræðagangs innan stjórnarmeirihlutans og þar erum við stödd í dag.