141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar.

[15:42]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir heldur einkennilegt að við séum að taka þessa umræðu hér sem mér finnst að eigi heima á vettvangi þingflokksformanna eða forsætisnefndar. En fyrst umræðan er hafin get ég ekki orða bundist og sé mig knúinn til að taka þátt í henni.

Þar sem ég var starfandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar á þessum tíma get ég vottað að þáverandi forseti Alþingis, sem á einnig sæti í fjárlaganefnd, bar þau skilaboð inn á fund þingflokksformanna að umræðu um fjárlagafrumvarp yrði frestað um eina viku, yrði á tilteknum fimmtudegi og atkvæðagreiðsla yrði á föstudegi. Ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar við þá hugmynd og ber því að líta svo á, að sjálfsögðu, eins og venja er á fundi þingflokksformanna, að það plan sé samþykkt.