141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar.

[15:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í starfsáætlun þingsins 22. og 23. nóvember stóð 2. umr. fjárlaga og seinni daginn 2. umr. fjárlaga, atkvæðagreiðsla. Þær dagsetningar voru færðar yfir á 29. og 30. nóvember, þ.e. 2. umr. fjárlaga á fimmtudegi og 2. umr. fjárlaga, atkvæðagreiðsla, á föstudegi. Þetta var dagskrá þingsins. Það var hins vegar aldrei samið um málsmeðferð og hvenær þingmenn ætluðu sér að hætta að tala eða ekki tala. Það er algjörlega kristaltært. Við 2. umr. fjárlaga er lengdur ræðutími, 40 mínútur í fyrra sinn, 20 mínútur í seinna sinn og síðan tíu mínútur. Um þá málsmeðferð, hvað sem menn vilja segja, var aldrei samið.