141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga við 2. umr. Það verður að segjast eins og er að margt í því þarfnast verulegrar skoðunar. Það er í fyrsta lagi algjörlega ljóst að núverandi stjórnarflokkum hefur ekki tekist það markmið sitt — því miður, vil ég segja — að ná þeim frumjöfnuði og heildarjöfnuði sem þeir settu sér í upphafi. Það hefur því miður ekki tekist. Ég vildi að svo væri því að þá værum við betur í stakk búin til að mæta ýmsum vanda og gera ýmsa hluti sem þarfir væru á þessari stundu.

Það er líka ljóst, virðulegur forseti, að frumvarpið sem lagt var fram í september og við ræddum þá tekur miklum breytingum á milli 2. og 3. umr. Fram koma breytingartillögur frá hæstv. ríkisstjórn og líka frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar og síðan koma breytingartillögur frá Alþingi. Það sem er sérstakt í þessu þrennu er að meiri hluti fjárlaganefndar ákveður að gera breytingar ríkisstjórnarinnar að sínum og einnig að koma fram með eigin breytingartillögur. Það sem er mjög sérstakt er að fjárbeiðni og tillögum Alþingis sjálfs er vísað til 3. umr. Er mér tjáð að það sé afar sjaldgæft og hafi líklegast ekki komið fyrir að þannig sé með breytingartillögur Alþingis. Ég hef, ásamt minnihluta sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, gert athugasemdir við þetta verklag og það geri ég enn.

Ég verð hins vegar að viðurkenna það, virðulegur forseti, að ég held að við hljótum að vera komin að tímamótum hvað varðar vinnubrögð við fjárlagagerð og hvernig fjárlaganefnd, í samvinnu við ríkisstjórnir hverju sinni, á að koma að fjárlagagerð. Í mínum huga er algjörlega ljóst að breyta þarf hugsunarganginum við þá vinnu og gildir þá einu hvaða flokkar verða við stjórnvölinn á Alþingi eftir kosningarnar í vor. Við þurfum að endurskipuleggja rekstur ríkissjóðs frá upphafi til enda, það er einfaldlega þannig. Við þurfum að leita leiða til að stækka skattstofna og við þurfum að leita leiða til að greiða niður skuldir ríkissjóðs vegna þess að skuldir ríkissjóðs kalla, eins og allir vita, á gífurlegan vaxtakostnað fyrir ríkið. Þetta verður að vera svona meginhugmyndin.

Ég held að ríkið sjálft, Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnir, hverjar svo sem þær kunna að vera, þurfi að fara að svara þessum spurningum: Hvaða þjónustu á ríkið að veita? Hvers konar þjónustu á ríkið að veita? Og ég er ekki að ræða það hér að færa kerfið frá rekstri ríkisins yfir í einkarekstur. Ég spyr einfaldlega: Hvaða þjónustu á ríkið að veita? Mér sýnist að æði margt af því sem liggur fyrir í breytingartillögum ríkissjóðs, í svokallaðri fjárfestingaráætlun, séu einfaldlega verkefni sem ríkið á ekki að vera að sinna.

Virðulegi forseti. Í 2. umr. fjárlaga langar mig að gera að umræðuefni varnaðarorð Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn telur að aukinn útgjaldaþrýstingur sem meðal annars er tengdur komandi þingkosningum — og við skulum ekkert vera að fara í neinar grafgötur með að þetta fjárlagafrumvarp ber þann keim og er kannski ekkert skrýtið. Sumir segja: Þannig hefur það alltaf verið. Og væntanlega kemur þá setningin: Og þannig mun það alltaf vera. En það er jafnfáránlegt að svo skuli vera.

Þar að auki stöndum við frammi fyrir því að í janúarmánuði fer endurskoðun kjarasamninga fram. Ef það er meginlína Samtaka atvinnulífsins að forsendur séu brostnar fyrir gerðum kjarasamningum stöndum við einnig frammi fyrir töluverðri útgjaldaþörf á þeim vettvangi, geri ég ráð fyrir, jafnt ríkið sem hinn almenni markaður.

Í varnaðarorðum Seðlabankans er líka nefnt að nokkur óvissa sé ríkjandi um vissa tekjuliði og að hætta sé á því að lagt verði í útgjöld þó að forsendur og eyrnamerktar tekjur standist ekki. Þar er talað um eignasölu ríkisins. Þær eignir sem ríkið hyggst selja, og það sem ríkið á, eru hlutir í bönkum. Þegar tekist var á um það hvernig endurreisa ætti bankana við hrunið voru fjármunir teknir að veði, við fengum lánaða fjármuni til þess að gera það. Núna, þegar við stöndum frammi fyrir því að ríkið á peninga eða hugsanlega hlut í þessum bönkum, og þá sérstaklega í Landsbankanum, þá stendur til að selja eignir. Við tókum lán fyrir því sem við gerðum og nú ætlum við að nota þá peninga sem hugsanlega fást fyrir sölu bankanna. Við ætlum ekki að nota þá til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem meðal annars eru hluti af því ferli öllu. Nei, við ætlum að nota þá peninga í eitthvað sem menn kalla fjárfestingaráætlun en er bara, eins og við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd köllum þetta, skóflustungur kosningaloforða. Verið er að setja af stað ýmis verkefni sem mörg hver gera ekkert annað en að kalla á aukin útgjöld ríkissjóðs til lengri tíma litið.

Það hlýtur að þurfa að velta upp þeirri spurningu hvort sala ríkisins í bönkunum eigi að renna í þessa þætti — ef af henni verður og enginn veit hvað fæst fyrir hlutinn — í stað þess að láta þá fjármuni renna í að greiða niður skuldir svo að unnt sé að draga úr vaxtabótum sem nema, ef ég man rétt, allt að 15% af útgjöldum ríkisins. Það hlýtur að eiga að vera meginverkefni okkar til lengri tíma litið að vinna með þeim hætti.

Í varnaðarorðum Seðlabanka Íslands er einnig nefnt að í 2. umr. og í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar sé ekki gerð grein fyrir því hvernig fara eigi með nýjan Landspítala né heldur er um það rætt hver óvissan verður um þarfir Íbúðalánasjóðs. Það kom hins vegar fram þann 27. nóvember. Þá lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún hygðist setja 13 milljarða inn í Íbúðalánasjóð. 27. nóvember er dagurinn eftir að fjárlagafrumvarpið var tekið út úr fjárlaganefnd til 2. umr. Það er þá sem ríkisstjórnin ákveður að leggja þessa 13 milljarða inn í Íbúðalánasjóð. Menn getur greint á um það hvort tímasetning ríkisstjórnarinnar er rétt eða röng en það var fyrir löngu vitað að taka þyrfti á vanda Íbúðalánasjóðs. Við ræddum það til dæmis í maí í vor þegar lögum um Íbúðalánasjóð var breytt og hænuskref stigið í átt til þess að koma til móts við þær kröfur ESA að Íbúðalánasjóð, sem ber ríkisábyrgð, verði að reka með öðrum hætti en hingað til.

Einnig er komin greining á því að stærstur hluti þess vanda sem Íbúðalánasjóður á við að glíma er breytingin á Íbúðalánasjóði sem hér varð 2004. Menn skulu líka hafa það í huga að stefnu Íbúðalánasjóðs, útlánastefnu Íbúðalánasjóðs, má verulega gagnrýna. Á þeim tíma var ekki spurt: Hversu mikið þarftu? heldur: Hversu mikið viltu? Það er umhugsunarefni í útlánastefnu „banka“, Íbúðalánasjóðs, sem er með fulla ábyrgð, ríkisábyrgð á öllum lánum, að spyrja þann sem tekur lánið: Hvað mikið viltu? en ekki: Hvað þarftu? Þetta þekkja allir og vita og þeir sem tóku lán á þessum tíma geta flestir greint frá því að svo var. Ég held að þar þurfi að taka verulega á. Það er verkefni sem bíður væntanlega seinni tíma. En það segir okkur að við erum að sigla inn í verkefni fjárlaga næstu ára með Íbúðalánasjóð sem mun kalla á milljarða á milljarða ofan til að hægt sé að reka hann, í það minnsta í þeirri mynd sem hann er núna.

Ég legg áherslu á það, frú forseti, að sú stefna, sá þáttur, verður að taka grundvallarbreytingum frá A til Ö. Menn geta velt fyrir sér hvort þeir vilja aftur hverfa í húsbréf sem fólk fór síðan með og seldi með 10 eða 15% afföllum eða hvernig menn vilja fara í þær breytingar. Það er jú lengri tíma mál en það breytir því ekki að við höfum allt þetta kjörtímabil vitað hversu illa Íbúðalánasjóður stendur. Þegar hafa verið settir inn í hann 33 milljarðar og nú eru 13 milljarðar settir þar inn.

Ég man eftir því, virðulegur forseti, að ég fór fyrir fyrirspurn til þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, fyrir margt löngu og spurði hann að því hvernig fjármálaráðuneytið og þá ríkisstjórnin hygðist bregðast við því að Íbúðalánasjóður uppfyllti ekki lögbundið eiginfjárhlutfall. Það voru svo sem ekki svör við því en þessi umræða um lögbundið eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs hefur verið tekin í þessum sal, ekki bara af þeirri sem hér stendur heldur mörgum öðrum. Við erum því kannski að bregðast allt of seint við þeim vanda sem blasir við Íbúðalánasjóði.

Virðulegur forseti. Ég er ekkert sérstaklega að sakast við þessa ríkisstjórn hvað varðar þetta verkefni, en mig langar hins vegar að benda á að núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur setið í ríkisstjórn samfleytt frá 2007 til dagsins í dag. Hún hefur aldrei á þeim tíma komið með neinar hugmyndir eða breytingar um eitt eða neitt í veru Íbúðalánasjóðs, sem var þó hennar ær og kýr, ef við getum orðað það svo, í það minnsta á meðan hún sat í stjórnarandstöðu.

Það hlýtur að vera okkur stjórnmálamönnum umhugsunarefni ef við vörpum fyrir róða öllum þeim málum sem við ræðum um sem stjórnarandstöðuþingmenn þegar við komumst í þá stöðu að verða stjórnarþingmenn, að við skulum skipta um kúrs í öllum slíkum málum. Slík pólitík, og mér er slétt sama hvaðan hún kemur, kann aldrei góðri lukku að stýra. Þú talar ekki í grundvallarmálum öðruvísi sem stjórnarþingmaður en stjórnarandstöðuþingmaður. Það er bara ekki þannig, virðulegur forseti, og það getur ekki samræmst því hlutverki sem þú ert í þegar þú ert kjörinn þingmaður. Þú ert fulltrúi þess kjördæmis sem þú ert kjörinn inn fyrir og þér ber að hafa sömu skoðun eða áþekka í málum en ekki kúvenda eftir því hvort þú situr í ríkisstjórn eða utan.

Virðulegur forseti. Í þessu nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd er líka talað um skuldabréf Landsbankans, það er talað um vöruskiptajöfnuð og jöklabréfin margfrægu. Þetta skuldabréf Landsbankans var, þegar við ræddum hér Icesave, talið vera upp á 280 milljarða og hefur sjálfsagt tekið einhverjum breytingum á þeim tíma miðað við vexti og vaxtavexti og allan þann pakka eins og hann liggur. Það er því æðiundarlegt, svo að ekki sé meira sagt, að allt í einu núna, árið 2012, skuli það koma fram að hugsanlega geti greiðslubyrði þess verið of þung og geti ógnað stöðugleika.

Þá spyr maður sig: Af hverju kemur þetta fram akkúrat núna árið 2012 þegar verið er að horfa til og ræða fjárlögin fyrir 2013? Af hverju eru þá menn allt í einu farnir að átta sig á því að hugsanlega geti greiðslubyrði þessa margfræga skuldabréfs verið of þung og ógnað stöðugleika? Við ræddum þetta hér, æðimargir þingmenn, þegar við ræddum Icesave-samningana fyrr á þessu kjörtímabili. Maður veltir fyrir sér: Höfum við virkilega almennt í málum svona takmarkaða sýn á vandann sem við er að glíma? Er vandinn þá alltaf miklu verri eða meiri en við sjáum hann? Síðan kemur í ljós hægt og sígandi að svo er og þá þarf að fara að bregðast við með einhverjum öðrum hætti við þeim vanda af því að heildarsýnin var svo takmörkuð. Það kann að vera, virðulegur forseti, en þetta getur vissulega komið í bakið á okkur. Mér sýnist sem svo að Seðlabankinn, og þá væntanlega seðlabankastjóri, telji að greiðslubyrðin geti verið of þung og ógnað stöðugleika. Það er vont, það er verulega vont.

Það er annað, virðulegur forseti, sem er kannski hálfu verra, það er að vöruskiptaafgangur fyrstu níu mánuði ársins 2012 nemur tæplega 49 milljörðum og það er samdráttur um 40% frá því á sama tíma í fyrra. Sú niðurstaða hlýtur að vera öllum, ekki bara stjórnarandstöðu heldur öllum, verulegt áhyggjuefni. Ef fram fer sem horfir hvað þetta varðar fer geta þjóðarbúsins til að standa í skilum í erlendum gjaldeyri einfaldlega minnkandi. Þetta er eitt af því sem ég held að við hljótum að þurfa að horfa til í þessari umræðu allri og velta fyrir okkur sem þingmenn á löggjafarþinginu hvernig við getum sameiginlega glímt við þann vanda sem við er að etja í stað þess að standa alltaf hvert á móti öðru og telja að hinn hafi rangt fyrir sér o.s.frv.

Virðulegur forseti. Síðan er það sem kallast jöklabréf og ég viðurkenni einfaldlega að þau vefjast svolítið fyrir mér. Ég hef hins vegar velt því fyrir mér — af því að jöklabréfin eru að mestu í eigu vogunarsjóða og þeirra sem hafa grætt margfalt það sem þeir lögðu inn á þeim bréfum — af hverju þessi mikla kurteisi er sýnd vogunarsjóðunum. Af hverju er einfaldlega ekki tekin ákvörðun og þeim settur stóllinn fyrir dyrnar? Mér finnst stundum eins og þessir vogunarsjóðir, hverjir svo sem eiga þá, ráði töluvert miklu. Það virðist erfitt að stinga niður fæti og segja: Hingað og ekki lengra. Ég held að það hljóti að vera leið til þess, virðulegur forseti.

Eins og ég hef áður farið yfir er nokkuð ljóst, hvað svo sem hver segir um það, að íslenska hagkerfið líður fyrir skuldsettan ríkissjóð. Ég vildi óska þess að það væri ekki þannig, en það er þannig. Þess vegna finnst mér svo dapurt, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, hvernig fjarað hefur undan því meginmarkmiði ríkisstjórnarinnar að ná frumjöfnuði og heildarjöfnuði í ríkisfjármálum, hvernig hún hefur hægt og sígandi hvikað frá því mikilvæga markmiði sínu. Við stöndum verr en við hefðum þurft að gera ef ríkisstjórnin hefði virkilega staðið við þau jákvæðu markmið sem ég held að flest okkar ættu að geta tekið undir.

Virðulegur forseti. Ég sagði það áðan og ég segi það enn: Það hlýtur að vera grundvallaratriði fyrir okkur að leita leiða til að lækka skuldir ríkissjóðs. Eins og fram kemur í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna þá er það tvennt sem skiptir máli: Ríkissjóður þarf að skila afgangi til að svo sé hægt og nýta þarf söluvirði eigna ríkissjóðs til að greiða niður skuldir. Þá gerist tvennt sem er mikilvægast: Vaxtagjöldin lækka og við getum frekar nýtt þá fjármuni í önnur og kannski áhugaverðari verkefni en við þurfum að gera í dag.

Virðulegur forseti. Mér verður tíðrætt um skuldir ríkissjóðs. Það er annað sem ég tel nauðsynlegt að gera — og ég get sagt það sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður. Þar sem sveitarstjórnum er skylt að uppfæra og setja á móti í lífeyrisskuldbindingum hlýtur það að vera markmið ríkisstjórnar, hverrar svo sem situr, að taka á þeim vanda sem við blasir í báðum deilum LSR. Það er algjörlega ljóst að A-deildin, sem sett var á laggirnar 1997, þegar B-deildinni var lokað — að til stóð, virðulegur forseti, að A-deildin yrði sjálfbær og gæti þar af leiðandi staðið undir útgreiðslum þegar að því kæmi. Það er alveg ljóst að svo er ekki. Það er alveg ljóst að ekki hefur verið lögð fram nein hugmynd að lausn á framtíðarvanda, hvorki B-deildar LSR né A-deildar, og er þá kannski meira um vert að leggja fram endurskoðun á A-deildinni því að búið er að loka B-deildinni.

Lífeyrisskuldbindingar B-deildarinnar eru hins vegar um 373 milljarðar og það er ekki ljóst, virðulegur forseti, hvorki þessari ríkisstjórn né næstu ríkisstjórnum — að minnsta kosti hafa ekki komið fram neinar lausnir á því — hvernig við ætlum að fjármagna það og ekki heldur trúverðug áætlun um fjármögnun. Það verður að fara í þetta verkefni, það er ekki hægt að hafa það hangandi yfir ár eftir ár og taka ekki á því. Á nákvæmlega sama hátt verður skoða með hvaða hætti A-deild LSR geti orðið það sem henni var ætlað að vera í upphafi, sjálfbær. Við frestum þessum ákvörðunartökum og það verður eingöngu til þess að stækka vandann og það er ekki gott.

Virðulegur forseti. Við stöndum líka frammi fyrir því að að mati þriggja aðila, Seðlabankans, Hagstofunnar og Alþýðusambands Íslands, er töluverð óvissa í öllum hagvaxtarspám. Samt er alltaf talað um að hagvöxtur fari batnandi og því sé hægt að gera þetta og gera hitt. En það er ljóst að hagvöxtur, hafi hann verið, og hann hefur verið, er drifinn áfram af einkaneyslu. Það hefur líka komið í ljós að virði innstæðna í bönkum hefur lækkað úr 900 milljörðum í 600 milljarða. Það segir okkur að fjölskyldur í landinu eru að ganga á spariféð sitt og drífa þannig áfram einkaneyslu og hagvöxt. Það getur ekki verið, frú forseti, sú stefna sem við viljum að fólkið í landinu fari eftir, að við eyðum alltaf um efni fram í stað þess að hvetja til sparnaðar. Það er alveg ljóst að hagvöxturinn hefur verið drifinn áfram af einkaneyslunni, sem meðal annars er fólgin í þessu, en ekki af fjárfestingum undanfarinna ára.

Á bls. 5 í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, sem í eiga sæti Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson og sú sem hér stendur, segir að ýmislegt sem menn væntu að mundi gefa kraft inn í atvinnulífið og hagvöxtinn sé ekki að gerast.

Ég leyfi mér að vitna í það sem segir hér frá Hagstofunni, með leyfi forseta:

„Seinni hluti fjárfestingar í Straumsvík dreifist yfir lengra tímabil en áður var reiknað með, sem hefur áhrif til lækkunar fjárfestingar 2012 en hækkunar 2014.“

Jafnframt segir:

„Á árunum 2013 og 2014 er gert ráð fyrir frekari stóriðjuframkvæmdum (en í Straumsvík) en meiri óvissa ríkir um þau verkefni.“

Þá veltir maður því fyrir sér, virðulegur forseti: Hvað er það sem veldur því að þessir óvissuþættir eru allir fyrir hendi? Hér er sagt að þeir óvissuþættir sem séu í spánni og séu neikvæðir og hafi lítið breyst séu að:

„Stóriðjuframkvæmdir verði minni 2013 og síðar.

Bakslag í viðskiptalöndum skapi verri viðskiptakjör fyrir Ísland.

Skuldavandi heimila og fyrirtækja haldi aftur af eftirspurn á komandi missirum.

Bati á vinnumarkaði hægist.“

Seðlabankinn segir, með leyfi forseta:

„Alþjóðahorfur versna og útlit fyrir verri útflutningshorfur en í ágúst.“

Það er kannski það versta sem fram kemur í spá Seðlabankans.

Síðan segir:

„Sérstaklega eru horfur á evrusvæðinu, mikilvægasta útflutningsmarkaði Íslands, slæmar.“

Þetta eru verulega bág tíðindi fyrir okkur vegna þess að þetta þýðir minni erlendan gjaldeyri inn í þjóðarbúið. Það er því ljóst að hér er vandi fyrir höndum og verk að vinna.

Alþýðusamband Íslands segir, með leyfi forseta:

„Efnahagsbatinn er brothættur og blikur eru á lofti. Umheimurinn glímir við þrálátan efnahagsvanda sem ekki sér fyrir endann á.“

Áfram segir:

„Þá eru stór fjárfestingaráform, svo sem bygging álvers í Helguvík, ekki í hendi þó að líkur á þeim hafi aukist og því reiknað með þeim í spánni.“

Í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér við 2. umr. er ekki að sjá nauðsynlegar fjárveitingar sem styðja við uppbyggingu atvinnulífs í landinu og þá hagvaxtarspá sem frumvarpið byggir væntanlega á.

Við getum til dæmis bent á að fyrir liggur að sveitarfélög, þar sem áform eru uppi um fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, geta ekki skrifað undir samninga þar að lútandi fyrr en að í fjárlögum liggur fyrir ákvörðun um uppbyggingu innviða, sem eru meðal annars vegaframkvæmdir og hafnargerð. Á meðan ekki koma í fjárlögum fram tryggð framlög í innviði þessara samfélaga er þeim gjörsamlega ómögulegt að skrifa undir samninga við einn eða neinn um eitt eða neitt því að það er grunnurinn að því. Ég nefni framkvæmdir almennt á Bakka, þær byggjast á fjárveitingum í vega- og hafnargerð til þess að Norðurþing geti skrifað undir samninga við fyrirtæki um þá uppbyggingu sem þar er fyrirhuguð.

Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að ég hef aldrei verið nein sérstök áliðjukona. Mér hefur kannski ekki þótt það mest spennandi kosturinn að dreifa álverum um allt land. Ég sé hins vegar hvað slíkt álver hefur gert á Reyðarfirði, við vitum hvað það gerði í Straumsvík, það hefur mikið að segja á suðvesturhorninu. Ef menn segja A verða þeir að gera ráð fyrir því að þeir þurfi að segja B. Þarna skortir á trygg framlög í samgönguáætlun til að hægt sé að undirrita samninga um áframhaldið. Þannig er það bara og við getum endalaust rætt um það af hverju þetta er svona. Ég veit það ekki en þetta eru alla vega svona „tala-áform“ og þau hafa aldrei skilað neinu, það er nokkuð ljóst.

Ég ætla ekki að fara mikið út í það en vil engu að síður nefna að fram hefur komið að fyrirtækin í landinu, sem eiga að greiða skatta á raforku, eru sum hver ósátt við þá ákvörðun og telja það skýrt brot á fjárfestingarsamningum við fyrirtækið — ég er hér að tala um Norðurál — ef af þessu verður og að hugsanlega verði leitað leiða til að kanna hvort þetta stenst. Allt sem við gerum í þessa veru, sem veldur óróa í þessum stóru fyrirtækjum, sem mörg hver ef ekki flest eru í eigu erlendra aðila, er ekki til þess fallið undir nokkrum kringumstæðum að laða að erlenda fjárfestingu. Ef það er eitthvað sem slík fjárfesting þarf á að halda er það að stjórnvöld sendi skýr skilaboð um að stöðugleiki verði í skattumhverfinu, að því sé ekki breytt og ekki í því hrært frá degi til dags. Því miður hefur mér fundist að núverandi ríkisstjórn sé frekar hlynnt því að hræra í þessu skattumhverfi í stað þess að halda því stöðugu til þess að laða að fjárfestingu, hvort heldur hún er innlend eða erlend. Ef það er eitthvað sem við þurfum á að halda er það fjárfesting.

Virðulegur forseti. Ég ítrekaði það áðan að mér þykir afar sérkennileg sú ákvörðun meiri hluta fjárlaganefndar að láta breytingartillögur Alþingis sjálfs bíða til 3. umr. á meðan komið er fram með breytingartillögur meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar og þær settar í einn pott og lagðar hér inn til samþykktar eða synjunar. Það fæst engin skýring á því. Innt var eftir því í nefndinni en engin skýring fæst á því af hverju slíkt er gert. Það kannski kemur.

Ég nefndi hér í upphafi — eða í fyrri hluta ræðunnar, þar sem nú líður að seinni hluta — að við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd köllum fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar skóflustungu kosningaloforða. Af hverju? Jú, vegna þess að margar þeirra framkvæmda, þó að þær skili atvinnu akkúrat á meðan þær eru í byggingu, kalla á aukin útgjöld. Ég tek sem dæmi byggingu húss íslenskra fræða. Mér þykir það frekar fúlt að þurfa að nefna þetta þar sem ég er íslenskufræðingur og íslenskukennari til margra ára, en ég sé ekki að það sé forgangsverkefni okkar á næstu þremur árum að setja 800 milljónir á ári í byggingu þess. Það hlýtur að mega bíða betri tíma vegna þess að það kallar á aukin útgjöld hjá Háskóla Íslands, það er algjörlega klárt.

Ég sé heldur ekki — og mér þykir líka ferlega fúlt að þurfa að nefna það, þar sem ég hef áhuga á Náttúruminjasafni Íslands, stöðu þess til framtíðar — að búið sé að ráða nýjan forstöðumann fyrir safnið. Samt er ákveðið að leggja til 500 milljónir í sýningu fyrir Náttúruminjasafn Íslands í hugsanlegum samningi við Reykjavíkurborg um notkun á Perlunni.

Ég hefði allt eins getað horft á þessar 500 milljónir fjúka út um gluggann. Ég hefði frekar viljað að menn settu sér langtímastefnu með nýjum forstöðumanni Náttúruminjasafns um hvernig hann eða hún sæi Náttúruminjasafnið fyrir sér samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi. Síðan yrði því máli velt upp hvar og hvenær halda eigi sýningar og hvernig. En þetta er fyrirhugað á árinu 2013.

Virðulegur forseti. Þetta er með ólíkindum. Ágætt sveitarfélag í nágrenni höfuðborgarinnar óskar eftir fjárframlögum frá fjárlaganefnd til að setja á laggirnar hitaveitu — og þetta er Kjósarhreppur, vatn finnst í Kjósinni. Í fyrsta lagi er Kjósin líklegast of nálægt Reykjavík eða höfuðborgarsvæðinu til að horft sé á hana sem eitthvert tækifæri. Ég verð þó að taka það fram að hv. formaður fjárlaganefndar hefur sýnt málinu áhuga og spurst fyrir um það en innan úr kerfinu hefur sáralítið komið annað en að hugsanlega séu of fáir að baki þeirri áætlun. Ég minni á að leið sem heitir Sóknaráætlun 20/20 lét af hendi rakna fjármuni til sveitarfélags í Norðvesturkjördæmi til að byggja upp hitaveitu ekkert óáþekka þeirri sem hér er þó að kannski hafi fleiri staðið þar að baki.

Í lokin langar mig að nefna eitt af þeim kjánalegu ferlum sem við virðumst vera með hér og það tengist umboðsmanni skuldara. Embætti umboðsmanns skuldara tengist ekki persónunni sem gegnir því starfi, ég tek það skýrt fram, heldur embættinu. Það embætti er fjármagnað með gjaldtöku af fjármálastofnunum. Og hver er þá þáttur ríkisins?

Ég ætla að fá að lesa, með leyfi virðulegs forseta:

„Rétt þykir að benda á þátt ríkisins í þessu einkennilega ferli því skattgreiðendur greiða gjöld til ríkissjóðs, leggja fyrir lögskipaðan sparnað í lífeyrissjóði og taka sumir hverjir lán hjá Íbúðalánasjóði. Ríkið leggur gjald á Íbúðalánasjóð og LSR til þess að fjármagna embætti umboðsmanns skuldara en þarf jafnframt að leggja Íbúðalánasjóði og LSR til fjármuni frá skattgreiðendum til að fjármagna gjaldið.“

Virðulegur forseti. Þetta ferli er gjörsamlega glórulaust. Við hljótum að þurfa að taka það til endurskoðunar og velta því fyrir okkur hvaða hugsun búi að baki. Sett er á laggirnar embætti umboðsmanns skuldara og það eru skattgreiðendur í landinu og skuldararnir sem standa undir því. Það hefur verið fært í tal að setja á laggirnar embætti umboðsmanns eldri borgara. Hvað ætlum við að gera? Á að sækja þá fjármuni sem standa að baki embætti umboðsmanns eldri borgara til eldri borgara sjálfra og skattgreiðenda almennt? Ég held að við hljótum að þurfa að hugsa þá hringrás sem hér er.

Virðulegur forseti. Að mati okkar sem skipum 1. minni hluta fjárlaganefndar vantar tvö orð í þetta frumvarp, það eru orðin agi og festa. Eins og ég hef margoft sagt í þessari ræðu hefur fjarað undan markmiðum stjórnvalda um að ná frumjöfnuði og heildarjöfnuði. Mér þykir það mjög miður. Ég tel að við þurfum að horfa til þess að ekki megi vera viðvarandi halli á ríkissjóði, það á ekki að auka skuldir eins og hér er gert sem leiðir til hærri vaxtagreiðslna. Við vitum að það skaðar innviði samfélagsins, það rýrir almannaþjónustu, það dregur úr mætti atvinnulífsins til atvinnusköpunar og það skerðir kjör alls almennings. Það á aldrei að vera markmið í fjárlögum.