141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér eiginlega alveg grein fyrir því hvað er frumjöfnuður og hvað er heildarjöfnuður, og ég geri mér líka grein fyrir því að í fjárlagafrumvarpinu, eins og það er lagt fram, er gert ráð fyrir þeim tölum í frumjöfnuði og heildarjöfnuði sem hv. þingmaður ræðir um. En ég bendi hv. þingmanni á að fjáraukalögin voru afgreidd fyrir stuttu og síðan er eftir svokallaður ríkisreikningur og svokölluð lokafjárlög, en það hefur sýnt sig á undanförnum árum að þau markmið hafa ekki náðst sem sett hafa verið.

Ég tel og það er mín skoðun að slíkt hið sama sé að gerast í þeim fjárlögum sem liggja fyrir núna að hvorki frumjöfnuður né heildarjöfnuður, eins og gert er ráð fyrir, muni nást miðað við það sem við sjáum að er óafgreitt, eins og lífeyrisskuldbindingarnar, nýr Landspítali o.s.frv. Líka það, virðulegur forseti, að í fjárfestingaráætluninni eins og hún kemur fram þá er ég alfarið á móti því og þá segi ég það bara hér og nú að sala eigna, eins og í bönkunum, fyrir fjármuni sem við tókum að láni til þess að geta gert það sem við gerðum þá sé nýtt í aðra fjárfestingu, hún á í mínum huga að fara til þess að greiða niður skuldir og lækka þar með vaxtaútgjöld ríkisins.

Ég tiltók, virðulegur forseti, í svari mínu til hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar hvað ég teldi að mætti falla á brott í fjárfestingaráætluninni, sem er nefnt á bls. 10, vegna þess að að mínu mati kallar það á aukin rekstrarútgjöld ríkisins síðar meir. Ég kalla það ekki fjárfestingu sem kallar á aukin útgjöld síðar meir.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þingmanni að eins og samgönguáætlunin segir til um, að bora á Austfjörðum og þegar talað er um viðhald og endurbætur á Landeyjahöfn, þá er það vissulega fjárfesting í sjálfu sér og skilar sér væntanlega til margra ára.