141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég er sammála hv. þingmanni í því sem hann tekur úr ræðu minni að við ættum kannski oftar að ræða hvaða þjónustu ríkið á að veita og hvað hún má kosta, vegna þess að oftar en ekki fer það saman.

Ég er þeirrar skoðunar og ítreka enn að það sem ríkið á að halda utan um eru velferðarmál, menntamálin og löggæslumálin, og í velferðarmálum tek ég heilbrigðismálin inn undir. Þetta eru þeir grunnþættir sem ríkið á að sjá um.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar — mér er eiginlega alveg sama hvort það er ráðherra sjálfstæðismanna, framsóknarmanna, Samfylkingar eða Vinstri grænna sem kemur því á — að fara þurfi í gegnum allt menntakerfið eins og það leggur sig. Við þurfum að fækka háskólum, það er mín skoðun. Við eigum ekki frekar en nokkur önnur þjóð, 320 þús. manns, að vera með sjö starfandi háskóla. Það segir sig sjálft í mínum huga. Ég er ekki að lasta neinn skóla en yfirbyggingin og umsýslan er bara allt of mikil og það þarf að skoða.

Sömuleiðis þarf að taka á Landbúnaðarháskólanum á Hólum annars vegar og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, það þarf bara að taka á þeim málum. Það er örugglega voðalega vont að segja þetta og vera þingmaður, en ég held að það þurfi samt að skoða þetta. Og ég ítreka enn styttingu náms til stúdentsprófs, samfellan í því skilar ríkissjóði mörgum milljörðum. Ég hef flutt um það þingsályktunartillögu sem hefur verið afgreidd úr nefnd en menn hafa ekki klárað hana í þinginu, um flutning heilsugæslunnar heim í hérað samhliða málefnum fatlaðra og málefnum aldraðra, félagsþjónustunni og heilsugæslunni verði á höndum sveitarfélaga. Það mundi samþætta þjónustu og ekki er spurning í mínum huga að það yrði betri þjónusta fyrir minna verð.