141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina sjónum að þessu atriði. Ég hélt reyndar ræðu fyrir nokkrum mánuðum þar sem ég talaði um að það varðaði þjóðaröryggi að ráða við þessa snjóhengju. Og ég tel að ákveðin samstaða sé að myndast meðal þingmanna allra flokka um að taka höndum saman um að leysa það mál. Ef það tekst erum við búin að leysa þennan krónuvanda og þá er hægt að afnema gjaldeyrishöftin daginn eftir og við getum tekið upp eðlileg viðskipti við útlönd. Gjaldeyrishöftin kosta þjóðarbúið óhemjumikið, milljarðatugi á ári, og það mundi hleypa lífi í allt atvinnulífið ef hægt yrði að afnema gjaldeyrishöftin.

Hin spurningin varðandi nýja mynt, ég tel að við þurfum að búa til traust á íslenska krónu áður en við getum aflagt hana, vegna þess að það þarf að vera traust á fjármálastefnunni, það þarf að vera traust á gjaldmiðilsstefnunni o.s.frv. Ef við tækjum upp erlenda mynt og værum ekki með gjaldeyrishöft mundi sú mynt bara sigla til útlanda. Þá þyrftum við að eiga fyrir henni gjaldeyri. Það þýðir að við getum ekki tekið upp erlenda mynt nema við eigum fyrir henni, annaðhvort traust, að menn vilji ekkert fara til útlanda af því að þeir treysti íslensku atvinnulífi svo vel, eða hreinlega að við séum með innstæður í útlöndum sem svara því sem hugsanlega gæti siglt út. Það gæti því orðið nokkur tími í það að slík ný mynt yrði tekin upp en ný mynt krefst mikils aga, aga sem ég hef ekki séð hér á landi í miklum mæli hingað til.