141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:59]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt svar. Hann varpaði því fram, sem ég held að ágæt samstaða sé um, að áður en til þess kemur að við annaðhvort tengjumst stærra myntsvæði eða tökum upp annan gjaldmiðil þurfum við fyrst að vinna okkur út úr vanda dagsins í dag. Hv. þingmaður nefndi það hér áðan að líkast til væri að myndast ágæt samstaða á vettvangi stjórnmálanna um hvernig því verður best fyrir komið. Ég efast ekki um það og trúi því að þverpólitísk samstaða myndist um lausnir á þeirri miklu þjóðarvá, eins og þingmaðurinn kallaði það, á næstu mánuðum og missirum. Þegar við höfum siglt út úr því er hægt að horfa skarpar til framtíðar og það er það sem ég var meðal annars að spyrja hv. þingmann um. Hvaða valkosti, hvaða möguleika sér hann þegar við erum búin að vinna okkur út úr því sem við erum að gera núna og siglum í gegnum það ástand, hvaða valkosti til framtíðar sér hann helsta og raunhæfasta?

Talað er um alls konar hluti, upptökur á hinum og þessum myntum annarra þjóða sem vilja ekkert við það kannast og hafa engan áhuga á að koma að slíku. Við vitum að við tökum aldrei einhliða upp mynt í andstöðu við þjóðríkið eða þjóðabandalögin sem eiga þá mynt og halda henni úti. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvað hann sjái fyrir sér til framtíðar þegar við erum komin út úr þessu ástandi, hvaða valkostir okkur Íslendingum standi raunverulega til boða þegar upp er staðið, þegar við erum komin út úr þeim brimsköflum sem við siglum í gegnum núna og höfum tóm og yfirvegun til að meta hvaða valkostir eru á borðinu eða hvort best sé að búa áfram við það fyrirkomulag sem við höfum gert, jafnhörmulega og það hefur reynst.