141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég gat um þarf fyrst að byggja upp fjármálalegan aga hjá einstaklingum, fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkissjóði sérstaklega, áður en við getum farið að taka upp nýja mynt. Ef við hefðum haft evruna fyrir hrun hugsa ég að staðan væri mjög döpur hjá íslenskum heimilum og íslenskum fyrirtækjum og ríkissjóði og sveitarfélögunum, vegna þess að við hefðum ekki getað lækkað skuldir og innstæður allra landsmanna með því að fella gengið. Þá sætu menn uppi með allar skuldirnar sem menn voru búnir að mynda, allar, og hefðu engar afskriftir og ekki neitt og ekkert ógilt og ekkert ólöglegt eða neitt slíkt. Ég er því ansi hræddur um að staðan hefði orðið ömurleg ef við hefðum haft evru fyrir hrun.

Ef okkur tekst að semja með góðum hætti við kröfuhafana um að minnka þennan krónustabba, þessa snjóhengju, þannig að hún verði viðráðanleg og ef menn leyfðu sér að hugsa þá hugsun sem ég nefndi áðan um Landsvirkjun — ef menn leyfðu sér að hugsa það, ég orða það þannig, af því að sumt má ekki hugsa — gætum við losað um skuldbindingar ríkissjóðs sennilega upp á 400 milljarða. Við mundum fá eitthvað greitt fyrir það í kassann, sennilega 400 milljarða, þannig að staða ríkissjóðs mundi batna heil lifandis ósköp. Og ég hugsa að traust manna á íslenskri efnahagsstjórn mundi breytast mjög mikið við það. Íslenski ríkissjóðurinn er kannski ekki alveg skuldlaus en orðinn með þeim betri í Evrópu. Og þegar í ljós kemur hvað Íslendingar eru óskaplega ríkir með orkuna sína, sjávarútveginn — og við þurfum að sjálfsögðu að hætta að ráðast á sjávarútveginn, frú forseti, það ættu menn náttúrlega að reyna að læra.

Ef tækist að ná þessu samkomulagi við kröfuhafana, ef það tækist að ná þessu fram með svona stefnu, sérstaklega ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist að, frú forseti, þá held ég að þetta líti nokkuð bjart út.