141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða fjárlagafrumvarp ársins 2013 sem er hið síðasta sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur leggur fyrir þingið fyrir kosningar. Í þessu fjárlagafrumvarpi má segja að birtist saga kjörtímabilsins, en eins og venjulega má líka lesa út úr fjárlagafrumvarpinu heilmikið um stöðu þjóðarbúsins.

Á þessu kjörtímabili hefur mjög ákveðið verið stefnt að því, þvert á alla flokka, að ná niður fjárlagahallanum, loka fjárlagagatinu og koma í veg fyrir skuldasöfnun ríkissjóðs. Niðurstaðan sem blasir við okkur í þessu fjárlagafrumvarpi er hins vegar mun verri en lagt var upp með í upphafi, í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við sjáum á einstaka útgjaldaliðum í frumvarpinu að vegna mikillar skuldastöðu ríkissjóðs fara alveg óheyrilegar fjárhæðir í vaxtagreiðslur.

Heildarmyndin er að sjálfsögðu sú að á þessu kjörtímabili hefur mistekist að skapa hagvöxt, ný störf, ný tækifæri, og auka arðsemi í atvinnulífinu þannig að ríkissjóður og allt samfélagið mundu um leið njóta góðs af. Hagvaxtarspár allt þetta kjörtímabil hafa aftur og aftur verið endurskoðaðar til lækkunar. Að þessu sinni er byggt á hagvaxtarspá sem er mun lægri heldur en við vonuðumst til að við sæjum á árinu 2013, þó ekki væri horft nema eitt til tvö ár aftur í tímann.

Ég ætla að gera að umtalsefni nokkrar breytingartillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar sem koma við þessa 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. Ég vil vekja sérstaka athygli á nefndaráliti frá 1. minni hluta fjárlaganefndar, þar sem helstu atriðin sem hafa þarf í huga þegar þessi stóra mynd er skoðuð eru tekin saman. Það á við um nýja útgjaldaliði, það á við um ýmsa liði sem ástæða er til að staldra við og spyrja sig hvers vegna eru ekki inni í fjárlagafrumvarpinu. Þar má nefna t.d. skuldbindingar sem ríkisendurskoðandi hefur mjög nýlega bent á að væru áfallnar vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ríkisendurskoðandi benti á það fyrir nokkrum dögum síðan að það væru u.þ.b. 10 milljarðar sem væru áfallnar skuldbindingar LSR, en þær er ekki að finna í fjárlagafrumvarpinu sem að sjálfsögðu hefur gríðarlega mikil áhrif. Það dugar skammt að slá sér á brjóst og leggja fram frumvarp þar sem heildarhallinn er tiltölulega lítill þegar jafn stórir liðir eins og þessi eini eru þar undanskildir.

Sama má auðvitað segja um þætti eins og Landspítalann, en nú er boðað að það standi til að fara í framkvæmdir eða uppbyggingu vegna nýs Landspítala. Við söknum þess að sjálfsögðu, sérstaklega þegar málið er komið hingað til annarrar umræðu af þremur í þinginu, að það sé ekki gerð grein fyrir því í frumvarpinu hversu stór gjaldaliður Landspítalinn mun verða fyrir árið 2013. Þegar við bætum síðan Íbúðalánasjóði við — ríkisstjórnin ákvað nýlega að setja 13 milljarða inn í Íbúðalánasjóð til þess að laga eiginfjárstöðu hans, en greiningaraðilar hafa talað um að það þyrfti 20 milljarða ef vel ætti að vera. Við vitum um leið að uppgreiðsluvandi Íbúðalánasjóðs er mikill og getur kallað enn frekari skuldbindingar yfir ríkið. Þegar allir þessir liðir eru ekki í fjárlagafrumvarpinu verður maður að gjalda varhuga við þeirri heildarniðurstöðu að hér verði ríkissjóður rekinn með tiltölulega litlum halla.

Við sjáum það líka hvernig fór fyrir árinu 2011, þegar stefnt hafði verið að því að ríkissjóður yrði rekinn með frumjöfnuði, eða svona u.þ.b. á núllinu þegar horft er fram hjá vaxtagjöldum og öðrum fjármagnsliðum. Niðurstaðan í fyrra var auðvitað miklu, miklu verri. Frumjöfnuðurinn var einhvers staðar á bilinu 30–40 milljarða neikvæður, svo bættist hitt við og tók afkomu ríkissjóðs niður í um tæpan 90 milljarða halla.

Þetta ætti allt að vera okkur mjög mikið umhugsunarefni vegna þess að stóra myndin í íslensku efnahagslífi í dag er sú að það er of lítill hagvöxtur, það er spenna á vinnumarkaðnum, áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum hafa ekki gengið eftir og við erum með gjaldeyrishöft. Við erum með gjaldeyrishöft.

Á fyrri hluta þessa árs kom í ljós að vöruskiptajöfnuður við útlönd hafði dregist saman um 40% borið saman við fyrra ár. Ríflegur vöruskiptajöfnuður er að sjálfsögðu forsenda þess að við getum haldið úti stöðugum, sterkum gjaldmiðli og aukið við útflutningstekjur okkar, þannig rennt stoðum undir áætlun um að greiða niður erlendar skuldir. Þess vegna er það alveg sérstakt áhyggjuefni að vöruskiptajöfnuður fyrstu níu mánuði ársins, það voru ekki fyrstu sex mánuðir ársins, skyldi nema tæplega 50 milljörðum og hafa dregist jafnmikið saman og raun ber vitni. Þá hef ég ekki getið þess að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd, þ.e. þegar vöruviðskiptin og fjármagnshreyfingarnar eru teknar saman, hefur verið neikvæður, sem heldur áfram að valda þrýstingi á krónuna.

Hvers vegna er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu? Jú, ég hef nefnt höftin, en það er líka fleira sem er ástæða til þess að vekja athygli á í þessu sambandi. Hér er ég t.d. með frétt úr Morgunblaðinu, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Forsendurnar brostnar. Forseti ASÍ krefst meiri launahækkana en boðaðar eru í kjarasamningum. Framkvæmdastjóri SA segir að ef samningar opnist verði krafist minni hækkunar.“

Nú er það svo að það er ákvæði í kjarasamningum um að þá sé hægt að opna núna snemma á næsta ári. Þegar við sjáum Seðlabankann hækka vexti og Samtök atvinnulífsins annars vegar og ASÍ hins vegar tala í sína áttina hvor um það hvaða staða sé að koma upp á vinnumarkaðnum, er ástæða til þess að staldra við og spyrja: Hvert erum við í raun og veru að stefna? Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var fyrr á þessu kjörtímabili er fyrir löngu sprunginn í loft upp og þetta samstarf á milli aðila vinnumarkaðarins hefur í raun og veru hangið á bláþræði í langan tíma. Hér erum við undir lok nóvember með þá stöðu að eftir einungis nokkrar vikur segir annar aðili kjarasamninganna að hann telji þörf fyrir launahækkanir, á meðan hinn aðilinn segir: Stjórnvöld hafa svikið gerða samninga, hafa ekki staðið við gefin loforð og við teljum að það þurfi að draga úr þeim hækkunum sem áður hefur verið rætt um.

Einmitt þegar þessi umræða er að eiga sér stað er Seðlabankinn að gera hvað? Hann er að hækka vexti. Kannast einhver við svona ástand á Íslandi frá því fyrir nokkrum árum síðan eða kannski eins og rúmum tveimur áratugum? Er það ekki þannig að meira eða minna allan níunda áratuginn vorum við í þessari glímu, þar sem væntingar voru um launahækkanir vegna þess að áætlanir um hagvöxt og uppbyggingu, fjárfestingu í landinu, höfðu ekki staðist sem síðan kallaði fram verðbólgu sem aftur kallaði á launahækkanir og verðbólgan hélt áfram og vextirnir fóru upp.

Það sem þarf að gerast á Íslandi, frú forseti, er að við þurfum að koma á nýrri sátt við aðila vinnumarkaðarins. Það þarf að komast á nýr stöðugleikasáttmáli og hann þarf líka að vera um vöxt, um stöðugleika í efnahagslífinu og um vöxt inn í framtíðina í gegnum nýja fjárfestingu.

Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er komið inn á hversu veikur grunnur er þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað, jafnvel með þeim breytingum sem hér eru kynntar. Til þess að renna styrkari stoðum undir gjaldmiðilinn og auka líkurnar á því að létta höftunum þurfum við t.d. að greiða niður opinberar skuldir. Hér er það hins vegar lagt til af hálfu meiri hlutans að taka arð t.d. út úr bönkunum, ýmsar vaxtatekjur frá Seðlabankanum, Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins, ÁTVR og Orkubúi Vestfjarða, Íslandspósti og fleiri stöðum og nota í útgjöld. Alls eru þessir liðir upp á tæpa 8 milljarða, arður tekinn út úr eignum ríkissjóðs og notaður í næsta árs útgjöld. Ekki í verkefni sem munu skapa nýjar tekjur og ekki til þess að lækka skuldir. Það er einmitt það sem við verðum að gera vegna þess að vaxtagreiðslur ríkissjóðs, eins og lesa má um hér í sama nefndaráliti, hafa verið að vaxa ár frá ári. Nú er svo komið að á næsta ári er gert ráð fyrir því að vaxtagjöld ríkissjóðs verði 84 milljarðar og þegar tekið hefur verið tillit til vaxtatekna er vaxtajöfnuðurinn, þ.e. vaxtagjöld okkar umfram vaxtatekjur, 63 milljarðar. Hvernig hefur þessi tala þróast undanfarin ár? Árið 2009 var hún 40 milljarðar, hún var tæpir 40 milljarðar árið 2010, fór upp í 46 milljarða árið 2011 og 55,7 milljarða árið 2012. Á næsta ári er gert ráð fyrir að vaxtajöfnuðurinn verði neikvæður um 63 milljarða — 63 milljarða.

Það var eitt af helstu afrekum þeirrar ríkisstjórnar sem hér tók við völdum árið 1991 og þeirra sem stýrðu landinu í kjölfarið, 1995, 1999 og 2003, að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs og aðrar skuldir. Það var gengið svo langt eftir þeirri braut á sama tíma og greiddar voru niður lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs að það kom tímabil þar sem ríkið hafði jákvæðan vaxtajöfnuð. Ríkið hafði á tímabili meiri vaxtatekjur en vaxtagjöld. Nú er hægt að segja sem svo að að hluta til hafi það verið byggt á of sterku gengi krónunnar, en þegar við skoðum hlutfall opinberra skulda af landsframleiðslunni er augljóst að á þessu tímabili tókst að lækka svo mjög erlendar skuldir ríkisins að við vorum farin að vera meðal skuldminnstu og -léttustu ríkissjóða innan OECD. Hvers vegna skiptir það máli? Jú, við vitum það öll að þessa fjármuni er skynsamlegra að nota í að byggja upp innviði samfélagsins.

Samkvæmt langtímaspánni sem fylgir þessu fjárlagafrumvarpi er augljóst að það verður afskaplega lítið svigrúm til þess að gera betur í velferðarmálum, samgöngumálum, menntamálum og heilbrigðismálum á næstu árum, með því að auka við fjármagn til þessara málaflokka. Það er vegna þess að það verður einfaldlega ekki til fjármagn til þessara málaflokka. Það verður verkefni stjórnmálamanna næstu árin að finna leiðir til þess að nýta fjármagnið sem við þó höfum úr að spila betur heldur en er gert í dag.

Ég vil í þessu samhengi segja að það veldur mér talsvert miklum áhyggjum hvernig sumir stjórnarliðar eru farnir að tala um að þeir sem vilja ná fram aukinni hagræðingu í opinberum rekstri séu að gera einhvers konar aðför að velferðarkerfinu. Ég lít þannig á að þessu sé þveröfugt farið. Þeir sem koma í veg fyrir aukinn hagvöxt í landinu, þeir sem hafa hér spyrnt við fótum þegar hugmyndir hafa risið um að koma með nýja fjárfestingu og þeir sem hafa staðið með ríkisstjórninni í atlögu að grunnatvinnuvegunum eins og sjávarútveginum, sem hefur verið í óvissu allt þetta kjörtímabil, þeir eru að gera atlögu að velferðarkerfinu. Það er atlaga að velferðarkerfinu þegar menn koma í veg fyrir að tækifærin sem við Íslendingar búum yfir verði nýtt. Það er atlaga að velferðarkerfinu. Þegar menn taka arð út úr fjármálakerfinu og nota í næsta árs rekstur eru menn ekki með langtímahagsmuni okkar, að draga úr vaxtagjöldum, í huga. Og vaxtagjöld geta verið slík byrði á ríkissjóði næstu árin að við höfum ekki efni á því að halda úti þeirri þjónustu sem við höfum vanist og höfum haft metnað til þess að byggja upp yfir langan tíma og getum verið stolt af. Þess vegna er þetta mikilvægt. Þess vegna verður að snúa af þeirri braut sem ríkisstjórnin hefur verið á og fara nýja braut vaxtar og stöðugleika.

Það vekur athygli að aðrar ríkisstjórnir virðast sjá þetta afskaplega skýrt og hafa víða í Evrópu nú þegar gripið til aðgerða þar sem þær skuldbinda sig langt inn í framtíðina til þess að koma á meiri aga í opinberum fjármálum og tryggja þannig aukna velferð. Nærtækt er að benda á stöðugleika- og vaxtarsáttmála Evrópusambandsins þar sem flest öll ríki Evrópusambandsins komu saman og gerðu með sér sáttmála og hafa síðan verið að hnýta eða sauma við hann viðbótarskuldbindingum sem allar ganga út á það að ná auknum árangri í opinberum fjármálum. Þessar aðgerðir hafa gengið undir ýmsum nöfnum. Ég hef nefnt hér stöðugleika- og vaxtarsáttmálann. Svo er til nokkuð sem á enskunni hefur verið kallað „six-pack“, sem eru sex ólíkar reglugerðir sem taka til hinna ýmsu sviða. Í mjög grófum dráttum eru þarna á ferðinni úrræði sem knýja á um að menn standi við þær skuldbindingar sem þeir hafa undirgengist í opinberum fjármálum í hverju og einu þjóðríki.

Hvað eru menn að gera þarna í Evrópusambandinu og af hvaða tilefni? Tilefnið ætti að vera öllum ljóst. Tilefnið er það að gjaldmiðillinn á evrusvæðinu hefur verið í krísu, miklu uppnámi. Svo miklu uppnámi að það hefur valdið uppþotum og jafnvel kosningum, valdaskiptum í einstökum löndum eins og t.d. í Grikklandi, sem hefur þurft að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Evrukrísan hefur ekki farið fram hjá neinum. Evruríkin hafa reynt að grípa til aðgerða og þær felast í því að halda áfram eftir einstefnugötunni til meiri samruna innan Evrópusambandsins og knýja þannig fram aukna einsleitni í opinberum fjármálum. Að þessu sinni hefur ekki verið gengið svo langt að vera með sameiginleg fjárlög eða neitt slíkt, en menn eru samt að fikra sig niður eftir þeirri braut.

Í aðgerðunum sem ég hef verið að nefna sérstaklega er t.d. kveðið á um það að nái menn ekki því markmiði að hafa hallann innan við 3% af vergri landsframleiðslu sé hægt að beita menn sérstökum agaviðurlögum. Þannig t.d. væri hægt að krefja einstök ríki um að leggja til 0,2% af vergri landsframleiðslu inn á sérstakan reikning sem eins konar aðvörun, ef þau eru fyrir utan viðmiðin. Bregðist menn ekki enn við er hægt að breyta þeirri greiðslu í sekt. Þannig getur Evrópusambandið sektað þau ríki innan evrusamstarfsins sem ekki standast hin samþykktu viðmið um aga í ríkisfjármálum. Svo þekkjum við auðvitað dæmi þess að einstök Evrópusambandsríki hafi sett sér sínar eigin mjög svo ströngu reglur í þessum efnum, samanber t.d. það sem Þjóðverjar hafa gert.

Við höfum ekki hagað okkur með þessum ábyrga hætti hér á Íslandi. Við höfum kastað frá okkur tækifærum til þess að vaxa og skapa nýjar tekjur, kastað þeim frá okkur. Grunnatvinnuvegirnir hafa verið í uppnámi. Þeir atvinnuvegir sem hafa skilað okkur og þjóðarbúinu í heild langmestum virðisauka og tekjum og eru að skapa störf og útflutningstekjur. Svo hafa menn haft lausatök á opinberum fjármálum þannig að áætlun um jöfnuð í opinberum fjármálum hefur verið frestað á kolröngum og fölskum forsendum, samanber það þegar áætlun um að ná jöfnuði á næsta ári var frestað um heilt ár. Hvers vegna? Jú, það var sagt vera vegna þess að staða ríkissjóðs væri betri en menn hefðu þorað að vona. Svo kom í ljós þegar reikningurinn vegna ársins 2011 kom fram að það vantaði mikið upp á að innstæða væri fyrir þeim orðum.

Það er í þessu samhengi sem ég tel að við eigum að horfa til efnahagsmála og þessa fjárlagafrumvarps, virðulegi forseti. Ég tel að við verðum að fara að taka af miklu meiri þunga og meiri alvöru umræðuna um það hvaða langtímamarkmið við ætlum að hafa, t.d. um niðurgreiðslu skulda og hvaða lykilþættir muni varða þá leið. Við getum horft t.d. til þess að 1% hagvöxtur á ári mundi tvöfalda landsframleiðsluna á 70 árum, á meðan 3% hagvöxtur á ári mundi tvöfalda landsframleiðslu á 25 árum, en 4% hagvöxtur mundi tvöfalda landsframleiðslu á einungis 18 árum. Það getur þess vegna skipt sköpum fyrir lífskjörin í framtíðinni, um getu okkar til þess að standa undir velferðarkerfinu og öðrum þeim verkefnum sem við viljum sinna vel fyrir fólkið í þessu landi, til að auka samkeppnishæfni Íslands sem er að sjálfsögðu í samkeppni um fólk við löndin allt í kringum okkur og reyndar í auknum mæli jafnvel við önnur heimssvæði. Það getur skipt sköpum fyrir árangur okkar í þessum efnum að ná hagvextinum upp. Hann hefur verið óviðunandi. Hann þarf að vera rúm 2% bara til þess að taka við nýju fólki sem er að koma inn á vinnumarkaðinn út úr skólum, fólki sem er að komast á fullorðinsaldur. Þá er ekki búið að leysa vanda þeirra sem hafa þurft að hverfa af vinnumarkaði, hafa flutt af landi brott eða eru einfaldlega án atvinnu.

Í mjög grófum dráttum þurfum við að stefna að því á næstu árum að hér verði til í kringum 15 þúsund störf. Ætli hafi ekki tapast í kringum 20 þúsund störf hér í hruninu. Þau viljum við endurheimta. Við eigum að setja okkur markmið um að á allra næstu árum verði til í landinu allt að 15 þúsund störf. Það er um þetta sem efnahagsstefna okkar sjálfstæðismanna hefur snúist, að grípa til aðgerða sem eru í fyrsta lagi ábyrgar þegar horft er inn í framtíðina hvað snertir opinberu fjármálin og við drögum úr vaxtagreiðslum og öðrum byrðum sem hvíla á ríkissjóði, léttum af honum þeim skuldbindingum sem hann hefur þurft að taka á sig í gegnum efnahagshrunið hér, setjum okkur áætlun sem menn eru tilbúnir til þess að fylgja, þvert á alla flokka, um að greiða niður skuldir. Það gerist ekki nema ríkissjóður verði rekinn með afgangi. Þegar menn hafa sett sér það markmið þá sjá menn hversu mikilvægt það er að styðja við atvinnulífið í landinu og draga fram nýja fjárfestingu, ný störf.

Það eru vissulega mörg krefjandi verkefni sem bíða okkar á því sviði. Ég get nefnt sem dæmi að í tæknigreinum útskrifum við allt of fáa einstaklinga samanborið við Norðurlöndin. Ætli við séum ekki að útskrifa úr verk- og tölvufræðigreinum u.þ.b. 25% miðað við höfðatölu samanborið við Norðurlöndin, fjórðung af því sem þau gera. Það er í slíkum greinum sem við eigum að fjárfesta, þ.e. við eigum að leggja allt kapp á að útskrifa nemendur, vel menntað fólk, í slíkum greinum vegna þess að það eru slíkar greinar sem auka framleiðni í landinu og í tengslum við þær munu okkar næstu fyrirtæki verða, sem í dag heita Marel og Össur og önnur útflutningsfyrirtæki í hugbúnaðargeiranum, Mannvit og hvað þau öll heita. Slík fyrirtæki þurfa að halda áfram að dafna á Íslandi. Við viljum líka að til verði ný. Við viljum fá ný fyrirtæki til að koma til landsins og við vonumst til þess að ný verði til á Íslandi. Það gerist ekki nema það sé mannafli til staðar sem er tilbúinn til þess að mennta sig í viðkomandi greinum og að stjórnvöld skapi þannig umhverfi fyrir slíka starfsemi að það sé líklegt að hún skjóti hér rótum og geti dafnað.

Ég tel líka að í hefðbundnu greinunum séu mikil sóknarfæri. Það er enn hægt að auka verðmætasköpun í sjávarútveginum, en til þess þarf að vera traust og öflug umgjörð um þá atvinnugrein. Það er ekki hægt að halda því fram með nokkrum einustu rökum að slík skilyrði hafi verið sköpuð hér undanfarin fjögur ár. Einfaldast er að benda á að nú er boðað að enn einu sinni komi fram frumvarp frá ríkisstjórninni á þessu kjörtímabili þar sem breyta á öllum grundvelli útgerðarinnar í landinu. Við höfum boðið fram sátt um það, höfum kallað eftir því að flokkar ynnu þvert á flokkslínur að því að skapa sátt og þann nauðsynlega umbúnað um starfsemina sem þarf að vera til staðar og tryggir langtímaöryggi atvinnugreinarinnar, en það hefur verið slegið á þá sáttarhönd. Það hefur verið gert oftar en einu sinni og nú er boðað að frumvarp verði lagt fram án þess að það hafi verið nokkurt einasta samtal við stjórnarandstöðuflokkana í haust. Þá geri ég ekki lítið úr því samtali sem átti sér stað á vettvangi atvinnuveganefndar í sumar, en það var greinilegt að fyrst ekki náðist sátt um alla hluti átti ekki að vera nein sátt. Þetta er eitt lítið dæmi sem er óumdeilanlega ekki til þess fallið að auka virðisaukann í íslenskum sjávarútvegi.

Eða geta menn nefnt eitt mál frá ríkisstjórninni sem snert hefur sjávarútveginn, sem hefur verið til þess fallið að auka framlegð og afkomu fyrirtækjanna í þeirri atvinnugrein? Er hægt að nefna eitthvert eitt mál? Því þau hafa verið mörg sem hafa verið lögð fram á þessu kjörtímabili. En er eitthvert eitt þeirra sérstaklega til þess fallið að auka afkomu útgerðarinnar í landinu og þar með arðinn til þjóðarinnar í heild sinni? Ég held að slíkt mál sé ekki til. Ég held að hvert einasta mál sem lagt hefur verið fram og snert hefur sjávarútveginn hafi verið á hinn veginn, að draga úr arðsemi í útgerð, auka óvissuna, draga úr fjárfestingu, þar með fækka störfum og um leið eru hagsmunir heildarinnar, arðurinn til heildarinnar, að skreppa saman. Þetta er óskaplega dapurlegt.

Ég nefndi það áðan að ég teldi að við þyrftum ekki bara að vaxa inn á ný svið heldur ættum við líka að gera kröfu til þess að fá meira út úr hefðbundnu greinunum, sjávarútvegi til dæmis. Ég hef heyrt þær hugmyndir frá sjávarútvegsklasanum á Íslandi að ef mönnum tækist að auka verðmæti hvers landaðs kílós af sjávarfangi um 100 kr. gætu orðið til um 100 milljarðar fyrir þjóðarbúið. Þetta eru gríðarlega háar tölur og eflaust mjög metnaðarfullt markmið að sækja 100 nýjar kr. pr. landað kíló. Það er há tala, sérstaklega hlutfallslega og nú eru verð að lækka. Hún segir okkur samt mikla sögu, því ef okkur tækist að auka við þó ekki nema um 25 kr. pr. kíló eða 30 kr. pr. kíló gætu verið þar undir 25–30 milljarðar fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Þetta sýnir hvað einstakar atvinnugreinar geta verið mikilvægar fyrir heildarhagsmunina. Þetta skiptir máli í samhengi við fjárlög vegna þess að tekjur ríkisins hanga saman við og eru í beinu samhengi við það hvernig okkur gengur í atvinnulífinu á Íslandi.

Ég verð að segja að hið sama gildir um orkugeirann og uppbyggingu iðnaðar í landinu. Um það hefur verið viðvarandi óvissa allt þetta kjörtímabil. Ég verð að harma það einu sinni enn hvernig haldið hefur verið á t.d. rammaáætluninni, við höfum tekið sérstaka umræðu um það, en í fjárlagafrumvörpunum, sem koma að jafnaði fram á haustin, hefur aftur og aftur verið gert ráð fyrir því að það væri að fara af stað einhvers konar stóriðjuuppbygging, en það bregst alltaf. Ég ætla ekki að segja að þar sé ríkisstjórninni um að kenna í öllum atriðum, en hún hefur ekki lagt neitt af mörkum til þess að auka líkur á slíkri iðnaðaruppbyggingu í landinu.

Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er til dæmis rifjað upp hvernig menn hafa farið með sérstaka raforkuskattinn. Fyrir nokkrum vikum síðan bar ég það upp við hæstv. atvinnuvegaráðherra hvernig á því stæði að það væri ekki staðið við gefin loforð til stóriðjunnar um að hann væri tímabundinn skattur. Með þessu fjárlagafrumvarpi er verið að framlengja sérstakan skatt af seldri raforku. Þetta er í raun og veru skattur sem átti einungis að gilda tímabundið og er fyrst og fremst greiddur af stóriðjufyrirtækjunum. Svikin loforð á borð við þetta eru, ásamt öðru, til þess fallin að fæla menn frá því að koma með fjármagn til Íslands. Það er bara staðreynd, enda kemur það ekki á óvart að til dæmis Norðurál hafi komið á framfæri athugasemdum við fjárlaganefnd vegna þessa máls. Af samskiptum fjármálaráðuneytisins við Ísal verður ekkert annað ráðið en að Ísal hafi endanlega tekið ákvörðun um að ráðast í fjárfestingu, stækkun álversins í Straumsvík, eftir að hafa fengið sérstakt skriflegt loforð um að skatturinn yrði ekki framlengdur. Því var lofað að þess væri ekki að vænta að það yrðu neinar breytingar á skattumhverfi þessarar starfsemi.

Þetta tvennt, framkoman gagnvart iðnaðinum í landinu og óvissan vegna fjárfestinga fyrir norðan á Bakka — það vantar í þetta fjárlagafrumvarp 2,5 milljarða ef það á að verða eitthvað af framkvæmdum við Húsavík, það liggur fyrir. Hvers vegna eru ekki 2,5 milljarðar hér til þess að klára vegaframkvæmdir og ganga frá mannvirkjagerð, t.d. í tengslum við höfnina þar, til þess að styðja við áform sem þar eru uppi á vegum þriggja eða fjögurra fyrirtækja? Hvers vegna ekki? Er þetta ekki bara yfirlýsing um að ríkisstjórnin styðji ekki þau áform, eða eru menn að reyna að sópa undir teppið útgjöldum sem þeir ætla að ráðast í á næsta ári en vilja ekki birta hér í reikningunum, til þess að fá út betri niðurstöðu? Getur verið að þeir 2,5 milljarðar falli bara í sama flokkinn og skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og augljós útgjöld sem þurfa að koma til vegna Íbúðalánasjóðs eða útgjöld sem ekki er gert ráð fyrir vegna löggæslumála í landinu o.s.frv.? Er þetta bara gert til þess að birta fegurri heildarniðurstöðu? Maður spyr sig að því.

Ég trúi því að ástæðan sé fyrst og fremst sú að það sé enginn raunverulegur stuðningur við að það verði iðnaðaruppbygging við Húsavík, því miður, enda hefur enginn ráðherra tekið almennilega af skarið um að það sé skuldbinding af ríkisins hálfu um að koma þar til aðstoðar. Það er óskaplega dapurleg niðurstaða, mjög dapurleg staðreynd.

Í þessu fjárlagafrumvarpi þegar það kemur inn til 2. umr. er farið sérstaklega yfir það sem kallað hefur verið fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Um hana er í fyrsta lagi að segja að það er mjög mikilvægt að menn geri greinarmun á því sem heitir með réttu fjárfesting og mun skila einhverjum þjóðhagslegum ávinningi til lengri tíma og hins vegar bara beinum stofnkostnaði. Fjárfestingu annars vegar sem skapar ný störf og tekjur til framtíðar og hins vegar viðhaldi mannvirkja og öðru slíku. Það er ekki augljóst af þeim verkefnum sem fylgja þessari fjárfestingaráætlun, sem svo er nefnd, hvort menn hafi gert sér grein fyrir muninum á þessu tvennu. Ég nefni t.d. öryggisfangelsið á Hólmsheiði og byggingu húss íslenskra fræða. Öryggisfangelsið á Hólmsheiði upp á 1 milljarð, mun þegar upp er staðið kosta 2,5 milljarða og bygging húss íslenskra fræða sem 800 milljónir fara í í þessu fjárlagafrumvarpi mun á endanum kosta 3,4 milljarða. Svo mun falla til rekstrarkostnaður í framhaldinu. Hvort tveggja eru þetta mikilvæg mál sem hafa verið lengi á dagskrá, en við hljótum hins vegar að spyrja okkur í dag hvort þetta sé skynsamleg ráðstöfun, í ljósi skuldastöðu ríkissjóðs, í ljósi vaxtabyrðarinnar sem ég hef farið yfir, í ljósi þess að það brenna víða eldar í opinbera rekstrinum.

Í því sambandi vil ég tiltaka það alveg sérstaklega, af því að menn hafa komið fram með þessa fjárfestingaráætlun með pomp og prakt og boðað til blaðamannafundar og slegið sér á brjóst fyrir það að hafa tryggt fjármagn í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, að þessi fjárfestingaráætlun ber með sér opinberar fjárfestingar sem eru þær minnstu í 70 ár, sem hlutfall af landsframleiðslu. Þannig að það er ekki mjög mikil innstæða fyrir stórum blaðamannafundum eða digrum yfirlýsingum um að hér séu að verða einhver tímamót með nýrri fjárfestingaráætlun.

Þetta segi ég þrátt fyrir að ég telji opinberar fjárfestingar algerlega nauðsynlegar. Þær eru nauðsynlegar til þess að viðhalda innviðum samfélagsins svo þeir drabbist ekki niður og við drögumst ekki aftur úr í samanburði við aðrar þjóðir.

Vandinn er miklu frekar sá að það er verið að gera mikið úr litlu. (Gripið fram í.) Svo er það hitt að þegar við skoðum aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar yfir þetta kjörtímabil sjáum við, þegar borin eru saman árin 2013 og 2009, að ríkisstjórnin hefur sótt í nýjar tekjur með skattahækkunum og nýjum sköttum upp á tæpa 90 milljarða. Það hefur verið gripið til ýmiss konar aðhaldsaðgerða sem hafa sparað einhvers staðar í kringum 30 milljarða og svo hefur einfaldlega verið dregið úr fjárfestingu fyrir aðra 30 milljarða. Raunverulegar aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í þessu samhengi óskaplega takmarkaðar. Þá er ég að tala um aðhaldsaðgerðir sem skila sér ár eftir ár. Ef menn draga til dæmis úr rekstrarkostnaði vegna minni umsvifa einhverrar stofnunar mun það ekki bara skila sér á því ári sem gripið er til þeirra ráðstafana, heldur líka árið þar á eftir og um alla framtíð ef menn missa ekki aftur tök á viðkomandi stofnun.

Svona sparnaður eins og hefur verið kreistur fram í gegnum miklu lægra fjárfestingarstig, er ekki slíkur sparnaður. Þetta eru einskiptisaðgerðir. Þetta er kostnaður sem kemur til með að falla á okkur í framtíðinni ef menn sinna honum ekki. Eins og t.d. að fara í vegaframkvæmdir og annað slíkt, brúarsmíð, auka öryggi í umferðinni og klára mannvirkjagerð sem mikilvæg er. Slíkir liðir elta okkur uppi. Þess vegna er mikilvægt að ríkið sýni meiri metnað í því að ná fram raunverulegum sparnaði og auknu hagræði í opinbera rekstrinum. Við höfum í seinni tíð ekki haft fleiri opinbera starfsmenn í hlutfalli við þá sem starfa í einkageiranum. (Gripið fram í.) Það eru færri og færri að starfa í einkageiranum á móti hverjum þeim sem starfar í opinbera geiranum. Það er mikið áhyggjuefni.

Við þurfum að grípa til aðgerða sem fyrst og fremst fjölga störfum í einkageiranum. Það er þar sem við þurfum að búa til ný störf og við eigum að leggja áherslu á það að vaxa með auknum útflutningstekjum. Það er eina leiðin fyrir okkur Íslendinga til þess að taka á þeim vanda, sem ég kom inn á í upphafi míns máls, sem birtist í háum vaxtakostnaði, auknum skuldum ríkisins og gjaldeyrishöftum, þeirri skuldbindingu sem enn er óafgreidd inni í LSR, vanda Íbúðalánasjóðs o.s.frv.

Við eigum að setja okkur markmið, virðulegi forseti, um að ná þessum skuldum niður með gerð stöðugleikasáttmála við aðila vinnumarkaðarins þar sem þeir sem ráða ríkjum á vinnumarkaðnum koma saman hönd í hönd með stjórnvöldum og byggja á plani sem tekur jafnvel til fleiri en eins kjörtímabils. Þar sem við Íslendingar tökum höndum saman um að borga niður þessar skuldir og breyta, eins og oft er sagt, vöxtum í velferð, að skapa svigrúm til að leggja fjármagn inn í velferðarkerfið en ekki í vaxtagreiðslur og losa um leið um höftin.

Ég vil líka nefna eitt sem ég hef ekki enn komið inn á, það þarf auðvitað að lækka vexti í þessu landi. Það er mikið talað um verðtryggingu, skuldir heimilanna, stöðu Íbúðalánasjóðs. Nú eru margir að taka óverðtryggð lán og fá þau á lægri kjörum heldur en lengi hefur þekkst. Við verðum að lækka vexti. Eina leiðin til þess að gera það, vegna þess að það mun bæði koma heimilum og atvinnulífi til góða, er að vera með ábyrgan rekstur hjá hinu opinbera. Að samþætting sé í aðgerðum hjá Seðlabanka og stjórnvöldum og að sveitarfélögin séu með í þessari vegferð. Slíkan sáttmála þarf að gera við aðila vinnumarkaðarins. Ég tel að öll efni og allar aðstæður séu til þess að gera slíka sáttmála. Ég tel að aðilar vinnumarkaðarins sjái þennan vanda með sömu augum og ég hef lýst, þess vegna er ég bjartsýnn á að við náum að brjótast út úr honum, en það gerist ekki með lausnum á borð við þær sem kynntar eru í þessu frumvarpi.