141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst þetta með hagvöxtinn. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað árið 2008 og dregin var upp efnahagsáætlun fyrir komandi ár var því spáð að við gætum komist á braut nýs hagvaxtarskeiðs á tiltölulega skömmum tíma þannig að á árunum 2012, 2013 og 2014 værum við með í kringum 4% hagvöxt. Markmiðið með stöðugleikasáttmálanum var líka að fara yfir 4% hagvöxt og nú hefur stöðugleikasáttmálanum í rauninni verið sagt upp eða hann sprakk í loft upp vegna þess að öll áform um meiri háttar fjárfestingar stóðust ekki. Þeir aðilar sem að þeim samningi komu vildu fyrst og fremst kenna stjórnvöldum um að hafa brugðist. Það er rétt út af fyrir sig að hagvöxtur hefur mælst hér öðrum hvorum megin við 2% en það er einfaldlega allt of lítið og það er það sem ég kom inn á í ræðu minni.

Hvers vegna hef ég áhyggjur af því og hvers vegna dugar ekki að vísa til viðskiptalanda okkar í þessu sambandi? Vegna þess að útflutningstekjur okkar af helstu stoðum efnahagslífsins hafa verið meiri síðustu ár en áður í raun og veru. Til dæmis höfum við búið við góðar aðstæður í sjávarútvegi, góð skilyrði í hafinu og hátt verð erlendis. Hátt verð hefur verið greitt fyrir raforkuna í landinu og álverð hefur verið í tiltölulega háum hæðum. Allt hefur þetta skilað sér í mjög miklum útflutningstekjum. Við höfum líka metfjölda ferðamanna til landsins og samt verða ekki til ný störf á Íslandi. Auðvitað er fjárfesting á Íslandi með því allra minnsta sem hefur verið hin seinni ár. Við höfum verið eða erum langt undir því sem hefur verið meðaltal undanfarinna áratuga og í sjávarútveginum fór fjárfestingin niður í 4 milljarða en hafði að jafnaði verið um 20 milljarðar. Það er vegna þeirrar óvissu sem sköpuð hefur verið í greininni.