141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að því sé auðsvarað hvaða áhrif framkoma ríkisstjórnarinnar hefur á möguleika okkar til að skapa hagvöxt. Ég tel að stjórnvöld hafi með framkomu sinni á þessu kjörtímabili dregið mjög úr líkunum á hagvexti fyrir einstaka greinar, eins og þá grein sem hv. þingmaður nefnir, sjávarútveginn, og ég hef komið aðeins inn á í mínu máli, sem og aðrar greinar.

Við getum velt fyrir okkur hvernig ástandið á Íslandi blasir við þeim fjárfestum sem horfa til Íslands sem fjárfestingarkosts. Hvað segja samtök atvinnurekenda um stjórnvöld á Íslandi í dag? Hvað er ASÍ að segja um stjórnvöld á Íslandi í dag? Hvað er að gerast í Seðlabankanum? Hvernig hefur ríkissjóður verið rekinn? Hvernig hafa loforð staðið gagnvart öðrum atvinnurekendum sem hafa komið tiltölulega nýlega með nýja fjárfestingu, eins og inn í Straumsvík? Í öllum þessum mikilvægu þáttum fær viðkomandi fjárfestir upp neikvæða mynd af stöðunni á Íslandi. Því miður er það þannig. Það eru svikin loforð vegna fjárfestinga eins og þeirrar sem var í Straumsvík. Samkomulag við aðila vinnumarkaðarins er í uppnámi, það er sama við hvern menn tala þar. Fjárlög hafa ekki staðist ár eftir ár og ég er ekki með því að gera neitt lítið úr þeim vanda sem við blasir. Ég kalla hins vegar eftir því að sýnd sé miklu meiri ábyrgð í því að fylgja stefnunni eftir.

Áðan var minnst á að horft væri til okkar Íslendinga utan frá og að menn dásömuðu þann árangur sem hér hefur náðst. Bíðum við, ég er dálítið hræddur um að stór hluti þeirrar umræðu hafi einfaldlega verið á fölskum forsendum. Eitt er að leggja fram fjárlagafrumvarp eins og ríkisstjórnin gerði hér fyrir rúmu ári og talaði um að það væri búið að ná frumjöfnuði. Á fundi Samfylkingarinnar haustið 2011 var því sérstaklega fagnað að búið væri að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Það ár fórum við 90 milljarða fram úr, (Forseti hringir.) við vorum með yfir 5% halla af landsframleiðslu árið 2011 en Evrópusambandið hefur sett sér viðmið um að fara aldrei yfir 3% (Forseti hringir.) þannig að það er svo sem ekki mikið sem menn höfðu ástæðu til að dásama.