141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að áhyggjuefnið sé kannski einna helst að fjárlög þessi virðast að miklu leyti byggð á sandi. Það er erfitt að sjá að það standi steinn yfir steini í forsendum sem eru lagðar til grundvallar þessum fjárlögum. Ég ætla að leyfa mér að rökstyðja þetta með einu dæmi.

Menn gera ráð fyrir að fjárfestingar í sjávarútvegi verði auknar. Það er búið að leggja á sjávarútveginn nýtt gjald, þetta sérstaka veiðigjald sem ég nefndi aðeins áðan, en síðan horfum við fram á að allir helstu markaðir Íslands á sjávarafurðum eru að gefa eftir. Það er spáð lækkandi verði og á sama tíma auka Norðmenn og Rússar sína framleiðslu. Þeir eru meira að segja farnir að keppa við okkur í gæðum með ákveðnar vörur en þegar þrengir að okkar helstu atvinnugrein á sama tíma eru heima fyrir lagðar á hana auknar álögur og henni gert samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, eða það má skilja þetta þannig, að fjárfesta og standa undir auknum hagvexti.

Ég fæ þetta ekki alveg til að ganga upp, ekki nema að það sé enn eftir í sjávarútvegskerfinu svo mikill möguleiki á hagræðingu að menn muni ná því fram með einhverjum slíkum aðgerðum. Ég velti þá líka fyrir mér hvort eitt af markmiðunum með veiðigjaldinu sé að knýja fram aukna hagræðingu. Við vitum að sumir sem eru með lítil og meðalstór fyrirtæki í dag eru farnir að falbjóða fyrirtæki sín þeim sem eru með betur rekin fyrirtæki og geta yfirtekið þau.

Herra forseti. Mér sýnist þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar byggt á mjög veikum forsendum og að það komi í hlut þeirra sem hér munu taka við eftir næstu kosningar að byrja á því að endurskoða og koma fram með hið sanna í þessu máli. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að byggja næsta ár á sandi.