141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður getum verið sammála um að veiðigjaldið er verulega vanhugsað. Nú kemur í ljós að það hefur einmitt þau áhrif sem hv. þingmaður nefnir, nefnilega að margar minni útgerðir og meðalstórar ganga kaupum og sölum. Stærri fyrirtækin gleypa þá bita. Það kann að hafa verið einhvers konar dulið markmið með veiðigjaldinu að auka samþjöppun eignarhalds í íslenskum sjávarútvegi, en það hefur þá ekki komið fram opinberlega enn þá. En það eru greinilega fyrstu merkin sem við sjáum um afleiðingar þessa nýja kerfis.

Helsta vandamálið við auðlindagjaldið, veiðigjaldið, er að það hefur ekki tekist með þessu nýja kerfi að ná í hina raunverulega auðlindarentu. Það er helsti vandinn. Það er ekki mikill ágreiningur í þinginu, að minnsta kosti finnst mér hann ekki hafa verið greinilegur, um að það sé eðlilegt og sanngjarnt að útgerðin í landinu greiði auðlindarentu, þ.e. sérstakt gjald þegar umframhagnaður myndast, hagnaður sem er verulegur í útgerðinni. En tölur sem ég hef fengið til mín í haust sýna að margar útgerðir sem voru reknar með miklu tapi, t.d. árið 2010 sem hefur verið til viðmiðunar, borga mjög hátt veiðigjald. Það kemur til af því að það er kannski ágætisframlegð eins og þeir mundu kalla það hérna, frumjöfnuðurinn var í lagi í viðkomandi útgerðarfyrirtækjum, en vegna skuldsetningar, afskriftaþarfa og annarra slíkra liða er útgerðin rekin með tapi. Samt kemur milljónatuga og í sumum tilvikum yfir 100 milljóna veiðigjald á þær útgerðir sem þær hafa einfaldlega enga sjóði til að mæta.