141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það í upphafi ræðu minnar að ég vona að hv. þingmenn stjórnarliðsins sem eru að þvælast frammi komi hingað í andsvör við ræðu mína. Þeir hafa ekki séð ástæðu til að taka þátt í umræðunni fyrir utan einn, hv. þm. Jón Bjarnason, sem rifjaði upp kannski eitt af síðustu kosningasvikunum sem ætti eftir að framkvæma, niðurgreiðslu á húshitun. Sumir þeirra hv. þingmanna sem hafa ekki séð ástæðu til að koma í ræðustól og fjalla um fjárlögin ættu að gefa sér tíma til að koma í eitt eða tvö andsvör, einkum í ljósi þeirra aðstæðna sem okkar svæði býr við. Ég ætla að nefna sérstaklega tvö dæmi, lokun Heilsugæslustöðvarinnar í Snæfellsbæ aðra hverja helgi og því til viðbótar misskiptinguna á fjármagni sem veitt er til uppbyggingar við þjóðgarða. Þeir eru þrír en Snæfellsnesþjóðgarður er algerlega út undan í skiptingu á fjármagni.

Sömu hv. þingmenn hafa haldið því fram að hér sé mikil viðspyrna og ekkert nema uppbygging fram undan þannig að þeir hljóta að eiga auðvelt með að koma hingað, þótt ekki væri nema í tvær, þrjár mínútur, til að verja hvernig þeir geta forsvarað það.

Ég vil byrja á því að gera athugasemdir, og þær mjög alvarlegar, við að ekki hefur enn þá verið mælt fyrir svokölluðum bandormi eða kyrkislöngu, eins og ég hef kallað hann í umræðunni vegna áhrifanna sem verða af skattkerfisbreytingum ríkisstjórnarinnar. Það er búið að leggja málið fram í lok þess frests sem gildir um framlagningu mála en það er ekki búið að mæla fyrir því enn þá, þ.e. tekjuhlið frumvarpsins sem snýr að breytingum sem þar á að gera. Því til upprifjunar, af því að alltaf er verið að tala um bætt og faglegri vinnubrögð á Alþingi, lét ég skoða sérstaklega hvernig það hefur verið undanfarin þrjú þing eftir að hæstv. ríkisstjórn tók við. Fyrir fjárlögin ársins 2012 var bandormurinn lagður fram 1. nóvember, mælt fyrir honum 3. nóv. og 2. umr. fjárlaga fór fram 29. nóvember.

Árið á undan, þ.e. fyrir fjárlög ársins 2011, var bandormur lagður fram 16. nóvember, mælt fyrir honum 18. nóvember en 2. umr. fjárlaga var 8. desember. Meira að segja á því ári sem gerðar voru hvað mestar breytingarnar hjá hæstv. ríkisstjórn, og er í raun og veru stærsta kyrkislangan, þ.e. árið 2009 fyrir fjárlög ársins 2010, var hann þó lagður fram 24. nóvember, mælt fyrir honum 5. desember og 2. umr. fjárlaga var 14. desember. Við sjáum auðvitað hvert þetta stefnir. Það hefur komið upp í umræðunni á undanförnum árum að markmiðið og stefnan sé alltaf að leggja fram tekjuhlið frumvarpsins, eða þær breytingar sem á að gera á skattkerfinu, fyrr heldur en hefur verið gert, þ.e. bæta vinnubrögðin.

Það er ástæða til að vekja athygli á þeim vinnubrögðum og líka í ljósi þess að nú virðist jafnvel vera svo að ekki sé meiri hluti fyrir þeim 1,5 milljörðum sem á að fara að leggja í virðisaukaskattsbreytingarnar á ferðaþjónustunni. Meira að segja þau varahjól sem eru hörðust skrúfuð undir hæstv. ríkisstjórn, það eru farnir að losna þar boltar og hafa verið gerðar athugasemdir við það. Auðvitað er ekkert spáð í að það skuli gert þannig.

Þá ætla ég aðeins að fara yfir örfá atriði sem snúa að þeim hlutum sem hér eru og kannski renna yfir stóru myndina. Skuldsetning ríkissjóðs er gríðarlega mikil, 1.950 milljarðar með skuldbindingum og þar vantar inn í til viðbótar. Síðan auðvitað þær vaxtagreiðslur sem verða á næsta ári og eru um 84 milljarðar. Á næstu fjórum árum þarf ríkissjóður að greiða 370 milljarða í vexti. Samt erum við í skjóli gjaldeyrishafta og vextir á erlendum fjármagnsmörkuðum mjög lágir.

Við erum búin að heyra marga hv. þingmenn og hæstv. ráðherra tala um mikilvægi þess að breyta vöxtum í velferð, eins og sagt er. Það eru kannski ekki miklar deilur um það en auðvitað dæma verkin sig sjálf hjá hæstv. ríkisstjórn því ef við skoðum vaxtajöfnuðinn er auðvitað mjög sláandi að hann skuli hafa aukist um tæpa 20 milljarða kr. á tveimur árum. Það segir til um hvernig hefur gengið hjá hæstv. ríkisstjórn að ná tökum á vaxtagjöldum ríkissjóðs. Það gefur okkur tilefni til að skoða þau mál mjög vandlega og líka hversu mikilvægt er að byrja að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Sú umræða hér inni er allt of lítil og að mínu viti er alger forsenda fyrir því að ná einhverri vitrænni niðurstöðu í rekstri ríkissjóðs að fara að greiða niður skuldir.

Síðan langar mig örstutt að fara yfir það sem snýr að svokallaðri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem er auðvitað staðfesting á því hversu mikilvægt er að setja fjármálareglur fyrir þingið. Ég held að það þyrfti helst að setja þær í stjórnarskrá, algerlega bundnar. Meðan verið væri að greiða niður skuldirnar þyrfti ramminn auðvitað að vera miklu þrengri og síðan gæti verið stillt þannig upp að þegar betur áraði og ný ríkisstjórn vonandi tæki við væri auðvitað hægt að auka svigrúmið. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er talandi dæmi um að það á að baða sig í sviðsljósinu rétt fyrir kosningar, láta taka myndir af sér að klippa borða og taka skóflustungur sem aðrir eiga auðvitað sjá um að framkvæma eða að slá vitleysuna af. Það gefur augaleið. Það er alveg sama hvort fjárfestingaráætlunin er tekin sem slík eða líka það sem snýr að útgjaldaaukningunni, sem verið er að skrifa upp á núna og ráðherrarnir baða sig í í fjölmiðlum, það er alltaf þannig að þær tikka af fullum krafti inn á næsta kjörtímabil. Það undirstrikar hversu mikilvægt er að setja ákveðnar fjármálareglur.

Virðulegi forseti. Ég spyr mig að því þegar á að fara í framkvæmdir eins og byggingu húss íslenskra fræða sem á að kosta um 3,7 milljarða, hverju það breyti þótt því yrði frestað í einhvern ákveðinn tíma. Hvað mundi gerast? Mundi eitthvað gerast? Nei, ég held að ekkert mundi gerast, akkúrat ekki neitt. Það er skynsemi í að fresta þeirri vitleysu. Á sama tíma, — og ég sé að þeir hv. þm. Norðvesturkjördæmis sem eru að þvælast frammi sjá sér ugglaust ekki fært að koma í andsvör — eins og ég sagði í upphafi máls míns, er akkúrat verið að loka Heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ aðra hverja helgi sem sparar bakvaktalaun eins læknis. Það er búið að skera niður hjá heilbrigðisstofnunum Vesturlands svo það verður að grípa til þeirra aðgerða en á sama tíma verður að fara að byggja hús íslenskra fræða. Við skulum setja það í samhengi: Hvað gæti gerst við svona aðstæður? Það gætu gerst skelfilegir hlutir sem maður vonar að sjálfsögðu að gerist ekki. Það er hinn blákaldi veruleiki sem blasir við. Það er einhvern veginn litið á fólkið sem býr á þessum stöðum og svona er komið fyrir sem einhvers konar vinnudýr til að skaffa ríkissjóði gjaldeyri. Svo skulu misvitrir stjórnmálamenn skammta úr sínum hnefa til að vita hvaða þjónustu fólkið á að fá. Það gefur augaleið að þegar fólk fær ekki einu sinni grunnþjónustuna í þeim sveitarfélögum þarf það auðvitað ekki neina aðra þjónustu. Það er mjög sláandi.

Mig langar líka að nefna sýningu fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Það á að setja 500 millj. kr. í að setja upp einhverja sýningu. Það liggur ekkert fyrir um skiptinguna milli ríkis og sveitarfélagsins Reykjavíkurborgar. Engar upplýsingar liggja fyrir um það. Það eina sem stendur í textanum er: Það á að setja sýninguna af stað og svo á aðgangseyririnn að standa fyrir rekstri hennar. Trúlegt, eða hitt þó heldur.

Á sama tíma í sömu breytingartillögum hjá hv. meiri hluta í fjárlaganefnd er verið að færa til rúmar 400 millj. kr. vegna þess að rekstur Hörpu stendur ekki undir sér. Síðan er tillagan við hliðina að fara út í aðra eins vitleysu og ætlast til að aðgangseyririnn standi undir henni. Fyrir utan það er búið að veita aukið fjármagn til stofnana eins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands til að hækka húsaleiguna til að standa undir rekstrinum. Það er í raun og veru tvöfalt sem verið er að gera. Það er auðvitað fullvissa um að verið er að baða sig í eintómri vitleysu. Síðast en ekki síst á að byggja upp þekkingarsetur, enn eina þjóðgarðsmiðstöðina fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, sem á að kosta 900 millj. kr. Það eru 290 millj. kr. sem fara í það á næsta ári þannig að það eru auðvitað aðrir sem eiga að gera það, þetta er þriggja ára áætlun, en svona er þetta allt.

Ég sé núna að þeir hv. þingmenn stjórnarliðsins sem eru í þessu kjördæmi sjá sér auðvitað ekki fært að taka rökræðuna og koma hingað í andsvör. Ég vænti þess að þeir geri það seinna í kvöld eða í nótt þegar ég tek aðra ræðu um svipuð mál. Ég kalla eftir þeirri afstöðu, sem þeir telja nú að sé auðvelt að verja, til þess hvernig fjárlögin eru sett upp.