141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið með ríkisábyrgðirnar. Ég var búinn að ræða um Íbúðalánasjóð, ég var búinn að ræða um Landsvirkjun og hef nú aflað mér nýrri upplýsinga um skuldir og gjöld hjá því ágæta fyrirtæki sem er mjög sterkt og stendur vel, með mjög gott eigið fé en töluvert miklar skuldir sem eru með ríkisábyrgð. Það væri heilmikill akkur í því og mundi minnka mikið áhættu ríkissjóðs ef tækist að einkavæða skuldirnar og þessar ríkisábyrgðir. Eigið fé hjá Landsvirkjun er samtals um 207 milljarðar og nettóskuldir eru um 300 milljarðar, sem sagt eigið fé plús nettóskuldir eru 500 milljarðar sem ríkissjóður er með þarna undir. Ég held að það sé mjög brýnt að huga að þeirri áhættu sem er bundin þarna, ekki væri verra að ríkissjóður fengi þessa 500 milljarða í sinn vasa og hugsanlega eitthvað meira, 600–700 milljarða, í lækkun ábyrgða og greiðslu fyrir fyrirtækið til 40 ára, eins og ég talaði um áðan, og gæti þá lækkað skuldir og minnkað ábyrgðir ríkissjóðs. Þá mundi ríkissjóður kannski ekki verða alveg skuldlaus en það mundi létta verulega á honum.

Ég tek undir það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði hér áðan, að við þyrftum að róa að því öllum árum að ná niður skuldum ríkissjóðs til að minnka sívaxandi vaxtagjöld sem eru komin upp í 80 milljarða brúttó, um 60 milljarða nettó, og geta lent í ákveðnum spíral þannig að við komumst ekki út úr þeim vanda.

Það sem ég ætlaði að tala um núna er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, sem var endurskipulagður 1997. Þá varaði ég mikið við þeirri leið sem farin var, flutti breytingartillögu sem var kolfelld þar sem ég vildi að opinberir starfsmenn gætu valið sér að vera annaðhvort með góð laun og venjuleg lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna eða öðrum lífeyrissjóði að eigin vali, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda o.s.frv., eða vera með lakari laun og góð lífeyrisréttindi. Í reynd fengu þeir hvort tveggja í B-deildinni.

Svo var stofnaður nýr sjóður, A-deildin, sem átti að vera sjálfbær en varð ekki sjálfbærari en svo að um áramót vantaði í hann 47 milljarða sem hafa hækkað upp í 57 milljarða á einu ári, þ.e. skuldbindingarnar hafa hækkað upp í 57 milljarða miðað við síðustu áramót. Þessar skuldbindingar hlaupa ekkert frá okkur, þær munu lenda á okkur fyrr en seinna. Í stað þess að horfast í augu við vandann og hækka iðgjöld opinberra starfsmanna eða ríkissjóðs vegna opinberra starfsmanna um 4% af launum, eins og er nauðsynlegt að gera, þá gleyma menn þessu. Það er þess vegna sem ég segi að í þessum fjárlögum sé hugað vel að litlu möskvunum, að fara ekki mikið út í þetta og hitt. Eins og hér kom fram áðan er verið að skerða læknisþjónustu á Snæfellsnesi en á sama tíma er ekki einu sinni talað um mikið stærri möskva og risastór göt á netinu sem eru þessar lífeyrisskuldbindingar upp á 57 milljarða, svo ég tali ekki um aðalskuldbindinguna í B-deildinni sem er um 400 milljarðar á ríkissjóð einan. Svo koma sveitarfélögin með 25 eða 26 milljarða og nokkrir aðrir aðilar. Það nálgast 450 milljarða sem þarna er ógreitt. Ég held að menn þurfi að fara að vinda sér í að taka á þessu vandamáli. Það hleypur heldur ekki frá okkur, frú forseti. Þetta tikkar hægt og rólega.

Reyndar er búið að loka fyrir nýja sjóðfélaga en það tekur 30–40 ár að vinna úr þessu og ef ekkert er að gert verður þessi sjóður greiðsluþrota eftir 10 ár eða svo og þá þarf ríkissjóður að borga nauðugur viljugur. Svo kæmi til greina að skoða það hvort á þessu sé raunveruleg ríkisábyrgð. Menn eru núna að tala um ábyrgðina á Íbúðalánasjóði, hvort það sé raunveruleg ríkisábyrgð á þeim bréfum og hvernig henni sé háttað og hvernig hún verði þegar á reynir. Það er eins með þennan sjóð, B-deildina. Hvernig verður ríkisábyrgðin á B-deildinni þegar á reynir? Þegar fjármálaráðherra framtíðarinnar á ekki peninga frekar en endranær og segir: Það er enginn peningur til! — þá er spurning hvað gerist. Ég held að það sé rétt að fara að ræða við þessa aðila, opinbera starfsmenn, um þetta atriði.

Fyrrverandi formaður BSRB, hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, hefur verið að gæla við þá hugmynd að eignarrétturinn sé ekki alveg heilagastur í heimi. Ég er honum hjartanlega ósammála, en ef hans sjónarmið verður ofan á þá er heldur ekki eignarréttur varðandi B-deildina. Það gæti nýst í þeirri baráttu að vísa til fyrrverandi formanns BSRB þegar við ræðum um skuldbindingu vegna B-deildarinnar.

Ég veit ekki hvort ég á að tala mikið meira um B-deildina en inn í þá umræðu blandast Tryggingastofnun. Hún mildar skuldbindingu vegna B-deildarinnar því að þeir sem eru með mjög góðan lífeyri úr B-deildinni fá þá engan lífeyri úr Tryggingastofnun þannig að útgjöld ríkissjóðs til Tryggingastofnunar minnka fyrir vikið. En þá kemur spurningin um Tryggingastofnun: Hver er skuldbinding ríkissjóðs vegna Tryggingastofnunar? Tryggingastofnun borgar um 50 milljarða á ári í lífeyri og það er nýbúið að gera samkomulag um að bæta kjör aldraðra, þ.e. taka hina frægu framfærsluuppbót og láta hana deyja út á fjórum, fimm árum. Skrifað var undir þetta samkomulag. Það liggur reyndar enn þá fyrir hjá hæstv. velferðarráðherra. Hann ætlaði að koma með frumvarp um það. Aftur er talað um skuldbindingu til framtíðar, að enginn eigi að tapa neinu heldur eigi bara að auka skuldbindingarnar árin 2014, 2015 og 2016 þegar væntanlega er kominn nýr fjármálaráðherra sem þarf að glíma við nýjan vanda. Svona er endalaust verið að lofa upp í ermina á sér og inn í framtíðina.

Ég vil geta þess að aldurspíramídi Íslendinga er mjög merkilegur. Mín kynslóð og eldri kynslóðir, þ.e. 68 ára og eldri, eru tiltölulega fámennar, um það bil 1.800–2.000 manns, en svo verður gífurleg fjölgun á næstu 10–20 árum þannig að þeir sem eru núna 55 eða 58 ára eru um það bil 4 þúsund, þ.e. þeir árgangar. Það er rúmlega tvöföldun á árgöngunum og við þurfum að búa okkur undir að takast á við það á næstunni í gegnum Tryggingastofnun og lífeyrissjóðakerfið. Þessi stóraukna fjölgun aldraðra á næstu árum mun hafa mikil áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun, eins og ég gat um, en líka á heilbrigðiskerfið því að eldra fólk er mikið dýrara í heilbrigðisþjónustu en yngra fólk. Mér finnst að menn þurfi að horfa á þennan vanda í stað þess að vera endalaust að lofa auknum útgjöldum í framtíðinni.

Ég ætla að nota síðustu mínútuna til að ræða um tvær fréttir. Annars vegar er búið að tryggja 8,7 milljarða í Vaðlaheiðargöng. Þessi frétt kom 30. nóvember, þ.e. fyrir stuttu. Hæstv. fjármálaráðherra Katrín Júlíusdóttir undirritaði þann dag lánasamning upp á 8,7 milljarða. Þarna eru til peningar, frú forseti, en það vantar peninga í læknisþjónustuna á Snæfellsnesi. Hins vegar var fyrirspurn mín til hæstv. velferðarráðherra Guðbjarts Hannessonar um hönnun á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og hann sagði að í hana færu hundruð milljóna, ef ekki eitthvað yfir milljarð. Nú er spurningin: Eru þessar tölur inni í fjárlagafrumvarpinu? Ef ég þekki rétt þá vantar þessar tölur inn í fjárlagafrumvarpið en undanfarin ár hefur í sívaxandi mæli, og ég kemst bara ekki yfir það, vantað peninga inn í fjáraukalögin sem koma svo fram í ríkisreikningi.