141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt annað við upphaf þessarar fyrstu ræðu minnar um fjárlög ársins 2013 en að gera athugasemdir við þá umræðu sem stjórnarliðar margir hverjir hafa sett af stað mjög skipulega og jafnvel með óhefðbundnum og óviðeigandi hætti um málþóf. Það er reyndar ekki fyrst núna í umræðu um fjárlögin sem slík umræða er sett af stað. Þetta er greinilega taktík sem menn hafa sammælst um að beita stjórnarandstöðuna til að draga sem allra mest úr umræðu um stærstu mál ríkisstjórnarinnar enda ljóst að ríkisstjórnin er langt á eftir áætlun, oft mörgum árum, með sín helstu mál og þarf því að koma þeim í gegn á miklu meiri hraða en forsvaranlegt er. En þær aðferðir sem beitt hefur verið til að reyna að koma í veg fyrir að umræða eigi sér stað um mikilvæg mál eru algerlega óásættanlegar.

Í raun hafa verið gerðar tilraunir til að hræða þingmenn stjórnarandstöðunnar eða bara þá þingmenn sem hafa einhverjar athugasemdir við mál ríkisstjórnarinnar frá því að tjá sig um málið með ásökunum um málþóf, bæði í þinginu og í fjölmiðlum. Þessar ásakanir birtast jafnvel á fyrsta degi umræðu um risavaxin mál. Ég nefni sem dæmi að þegar menn voru að hefja umræðu um ekki bara breytingar á stjórnarskrá Íslands heldur nýja stjórnarskrá, á fyrsta degi umræðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá, hófust ásakanir um að menn væru komnir í málþóf. Þetta endurtók sig þegar við fórum að ræða fjárlög ársins 2013 við 2. umr., aðalumræðu fjárlaga. Menn voru rétt komnir af stað með að gera í mörgum tilvikum mjög mikilvægar og alvarlegar athugasemdir við frumvarpið þegar farið var að saka þingmenn um málþóf. Ég ætla ekki að eyða tíma í að rifja upp þá uppákomu sem hér varð, sem var náttúrlega fyrir neðan allar hellur, þegar þingmenn gengu með skilti fyrir framan ræðustól. Sú nálgun almennt að reyna að hræða þingmenn frá því að ræða mikilvæg mál er algerlega óásættanleg og ólýðræðisleg. Það er mikilvægt að menn láti það ekki slá sig út af laginu hvort heldur sem er þingmenn stjórnar eða stjórnarandstöðu. Þingmenn stjórnarliðsins hljóta að vilja gera einhverjar athugasemdir líka við fjárlögin. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum margir hverjir ekki tekið til máls enn. Ég er að flytja mína fyrstu ræðu um þessi fjárlög og því er algerlega óþolandi að sitja undir slíkum ásökum. Ég læt þetta nægja af athugasemdum að sinni en taldi mikilvægt að koma inn á þetta í byrjun vegna þess að það er mikilvægt að þingmenn séu ekki hræddir frá því að tjá sig um stór mál eins og fjárlögin.

Ég ætla að byrja á því að rifja aðeins upp fyrri fjárlög þessarar ríkisstjórnar og hvernig þau hafa gengið eftir. Ástæðan fyrir því að ég byrja á þessu er að við höfum séð á undanförnum árum að það sem lagt hefur verið upp með í fjárlögum hefur engan veginn gengið eftir. Þetta er ekki bara eitt tilvik heldur virðist vera regla hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Þar sem þetta er regla þurfum við að taka tillit til þess við umræðu um nýjustu fjárlögin. Við getum ekki annað en lagt mat á þau með hliðsjón af því hvernig fyrri fjárlög ríkisstjórnarinnar hafa gengið eftir. Þar vantaði vægast sagt mikið upp á að forsendur stæðust.

Auðvitað var ríkjandi óvissa í upphafi og ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um það hvernig forsendur ársins 2009 fóru, en ég ætla að fara stuttlega yfir fjárlögin 2010 og 2011. Samkvæmt fjárlögum ársins 2011 stóð til að ríkið yrði rekið með 36,4 milljarða kr. halla. Í lok ársins 2011 fóru menn yfir árið, upplýsingar lágu þá fyrir um útgjöld að langmestu leyti og sú yfirferð leiddi í ljós að hallinn var 10 milljörðum kr. meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir, var 46,4 milljarðar. En þar með var ekki öll sagan sögð vegna þess að við nánari yfirferð kom á daginn að raunverulegur halli ársins 2011 var 89,4 milljarðar. Með öðrum orðum, hinn raunverulegi halli var 173% umfram áætlun á árinu 2011. Við vitum ekki enn þá hver niðurstaðan verður eftir endanlega yfirferð ársins 2012, eðli málsins samkvæmt, en ef þetta er einhver vísbending er ástæða til að hafa áhyggjur af því. Fjárlög ársins á undan, 2010, gerðu ráð fyrir töluvert meiri halla, 87,4 milljarða kr. halla. Að loknu því ári sagði hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra frá því, nokkuð sáttur við eigin frammistöðu, að hallinn yrði að öllum líkindum nokkru minni en gert var ráð fyrir í fjárlögum eða 74,5 milljarðar. Það var það einkum vegna svokallaðs Avens-samnings sem ríkið reiknaði sér hagnað af, samningsins við Seðlabankann í Lúxemborg. Því miður gekk þetta ekki eftir því að skömmu síðar var hallinn færður upp í 82 milljarða og var þá farinn að nálgast þá rúmu 87 milljarða sem fjárlög ársins 2010 gerðu ráð fyrir. En hver var svo niðurstaðan eftir ítarlegri yfirferð? Hallinn nam 123,3 milljörðum.

Reynslan sýnir okkur því að lítið hefur verið að marka þau fjárlög sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, því miður. Þess vegna tek ég því með talsverðum fyrirvara þegar því er haldið fram við umræðu um þessi fjárlög að þau sýni verulegan árangur í rekstri ríkisins, vegna þess að nákvæmlega það sama höfum við fengið að heyra á hverju einasta ári þegar ríkisstjórnin hefur kynnt fjárlög og það hefur aldrei gengið eftir.

Reyndar sjá menn nú þegar að ýmsa liði vantar í fjárlagafrumvarpið sem fela í sér fyrirsjáanleg útgjöld. Það vekur spurningar um vinnubrögðin sem notuð eru og hafa verið notuð á undanförnum árum við gerð fjárlaga. Það eru ýmsir stórir óvissuþættir sem á eftir að taka tillit til. Íbúðalánasjóður er náttúrlega mjög stór liður og hefur verið mikið ræddur að undanförnu en fleira bætist við svo sem útgjöld vegna tónlistarhússins Hörpu og svo er mikil óvissa um fyrirhugaðan Landspítala, en ég ætla að koma aðeins betur inn á það síðar.

Fjárlagafrumvarpið sem við ræðum nú tekur ekki tillit til ýmissa fyrirsjáanlegra atriða en eitt er þó mjög áhugavert og ég verð eiginlega að segja sérkennilegt, jafnvel mjög óheppilegt, við þá óreglulegu liði eða óvissuliði sem þar er fjallað um. Nú dúkka allt í einu upp hugsanleg útgjöld vegna Icesave-samninga í fjárlögum. Þegar búið er að fella Icesave-samningana í þjóðaratkvæðagreiðslu þá fyrst gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að Icesave kunni að fela í sér einhver útgjöld. En þegar ríkisstjórnin var sjálf búin að undirrita samninga, eða fulltrúar hennar, og stjórnarliðið búið að berjast fyrir því að ná þeim í gegnum þingið og setja í lög var ekkert minnst á útgjöldin í fjárlögunum. Þó hafði verið sýnt við fyrri Icesave-samningana að útgjöld vegna þeirra, bara vegna vaxtakostnaðar, mundu nema yfir 40 milljörðum kr. á ári í erlendri mynt sem yrði greidd út úr landinu. 40 milljarðar á ári. Það var bara litið fram hjá því í fjárlögunum. Búið var að undirrita samninga, skuldbinda ríkið eða svo gott sem, þangað til gripið var inn í það. Áform ríkisstjórnarinnar voru að skuldbinda ríkið til að greiða meira en 40 milljarða í vexti út úr landinu á ári, en það var litið fram hjá því í fjárlögum. Nú þegar þessir samningar ríkisstjórnarinnar hafa verið felldir, slegnir út af borðinu, dúkkar hins vegar Icesave allt í einu upp í kafla sem kallast „Ríkisábyrgðir og áhættuskuldbindingar.“ Ég vil gera alvarlegar athugasemdir við það að fjallað sé um Icesave í þessum kafla. Ég gríp niður í upphaf þessa 8. kafla þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fjárhagsáhætta ríkissjóðs felst í því að ýmsir þættir geta leitt til þess að rekstrarniðurstaða ríkissjóðs og skuldastaða verði frábrugðin því sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Flokka má skuldbindingar ríkissjóðs sem beinar og óbeinar skuldbindingar.“

Svo er dálítil útskýring á því og sagt frá því hverjar helstu beinu skuldbindingarnar séu, en svo er bætt við:

„Aðrar óbeinar skuldbindingar sem vert er að nefna eru til að mynda áhættuskuldbindingar sem kunna að leiða af niðurstöðu EFTA-dómstólsins í máli sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur höfðað gegn íslenskum stjórnvöldum vegna Icesave-reikninga Landsbankans.“

Það er vægast sagt óheppilegt að hafa þetta orðalag í fjárlögum vegna þess að með því er gefið í skyn að niðurstaða EFTA-dómstólsins kunni að leiða til einhverra skuldbindinga af hálfu íslenska ríkisins. Það er bara alls ekki svo. En það að ríkisstjórnin skuli setja slíkt orðalag í fjárlögin hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni og áhyggjuefni vegna þess að það bendir til þess að hún geri sér ekki grein fyrir því að sama hvað líður niðurstöðu EFTA-dómstólsins dæmir hann okkur ekki til að greiða vexti eða bætur vegna Icesave. Reyndar er farið aðeins nánar í þetta aftar í kaflanum og málið skýrt aðeins betur. Ég held að ástæða sé til að lesa það vegna þess að ég vil halda því til haga að óeðlilegt sé að hafa þessar athugasemdir í fjárlögunum. Með leyfi forseta, þá segir á bls. 470:

„Rétt þykir að halda því til haga að Icesave-málið svokallaða, sem rekið er fyrir EFTA-dómstólnum í kjölfar kæru Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á hendur íslenskum stjórnvöldum, kann að hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Dómur í málinu skapar ekki beina greiðsluskyldu fyrir ríkissjóð og er ekki aðfararhæfur sem slíkur.“

Þetta er rétt. Þarna er þessu sem betur fer haldið til haga. En svo höldum við áfram:

„Málið fjallar eingöngu um það hvort stjórnvöld hafi gerst brotleg við skuldbindingar sínar á grundvelli EES-samningsins. Dómsniðurstaðan kann engu að síður að hafa verulega þýðingu fyrir það hverjar endanlegar lyktir þessa deilumáls kunna að verða og þar með fyrir mögulegan kostnað ríkissjóðs. Málshöfðun ESA lýtur að tveimur atriðum: annars vegar því hvort stjórnvöldum beri skylda til að tryggja að innstæðutryggingarsjóðir geti staðið við skuldbindingar um tryggingu innstæðna að tilteknu lágmarki, og hins vegar að því hvort jafnræðis hafi verið gætt milli innstæðueigenda á Íslandi og annars staðar.

Gæti virðulegur forseti beðið þingmenn í hliðarsal að hafa ekki svona hátt? Ég heyri varla sjálfan mig lesa. En ég held áfram:

„Óvíst er um dómsniðurstöðuna og hvaða þýðingu hún kann að hafa í fjárhagslegu tilliti.“

Þetta er setning sem ég geri athugasemd við. Dómsniðurstaðan sem slík í EFTA-dómstólnum hefur ekki fjárhagslega þýðingu. Hugsanleg dómsniðurstaða fyrir íslenskum dómstólum síðar kynni að hafa fjárhagslega þýðingu. Ég held áfram:

„Ef dómsniðurstaðan verður hagstæð gæti kostnaður af málinu orðið lítill eða enginn. Verði niðurstaðan hins vegar íslenskum stjórnvöldum í óhag mun endanlegur kostnaður ríkissjóðs væntanlega einkum ráðast af (a) endurheimtum úr búi Landsbanka Íslands hf., (b) hvaða gengisviðmið munu verða lögð til grundvallar við uppgjör forgangskrafna, og eftir atvikum gengisþróun krónu og helstu gjaldmiðla, og (c) kostnaði og skuldbindingum sem kunna að leiða af dómsniðurstöðu EFTA-dómstólsins.“

Það er c-liðurinn sem ég tel ástæðu til að gera sérstaka athugasemd við, svo það birtist í þingtíðindum, c-liðurinn um kostnað og skuldbindingar sem kunna að leiða af dómsniðurstöðu EFTA-dómstólsins.

Niðurstaða EFTA-dómstólsins mun ekki hafa í för með sér kostnað fyrir ríkið. Það þarf niðurstöðu íslenskra dómstóla til að ríkið verði dæmt til að greiða skaðabætur í Icesave-málinu og þá þarf að sýna fram á eitthvert tjón. Það verður ekki hlaupið að því vegna þess að fyrir liggur að bæði breska og hollenska ríkið hafa hagnast gríðarlega á setningu neyðarlaganna og á margan hátt hefur staða innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi verið miklu betur tryggð en staða íslenskra innstæðueigenda. Hinir erlendu innstæðueigendur fengu allt sitt bætt í erlendri mynt sem hélt verðgildi sínu á meðan íslenskir innstæðueigendur hafa eingöngu fengið sitt bætt í íslenskum krónum, að sjálfsögðu, og krónan á sama tíma fallið verulega í verði. Tjón, hvort heldur sem er innstæðueigenda í Bretlandi eða Hollandi eða innstæðutryggingarsjóða þessara landa eða ríkjanna, er ekkert. Þvert á móti hafa bæði Bretar og Hollendingar haft verulegan hag af setningu neyðarlaganna. Jafnvel þótt menn gætu komist að þeirri niðurstöðu fyrir EFTA-dómstólnum af einhverjum pólitískum ástæðum að menn hefðu átt að haga málum öðruvísi varðandi Icesave er ekki hlaupið að því að sýna fram á að Bretar og Hollendingar hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af því. Því er algerlega fráleitt að vísa í það í fjárlögum að niðurstaða EFTA-dómstólsins geti leitt til aukinna útgjalda. Það er sérstaklega sérkennilegt í ljósi þess að þegar ríkisstjórnin áformaði að greiða yfir 40 milljarða á ári gat hún ekkert um það í fjárlögum.

Ég læt þetta nægja af umræðu um þennan Icesave-lið. Ég vildi bara gera grein fyrir þessu svo það lægi fyrir síðar að þessi skýring sem fylgir í fjárlögum er mér ekki að skapi og væntanlega ekki stórum hluta þingmanna.

Þá að ýmsum liðum fjárlaganna. Það stingur auðvitað mjög í augu að sjá að vaxtakostnaður ríkisins heldur áfram að vaxa til mikilla muna og er orðinn óheyrilega hár miðað við þessi fjárlög. Hann er 84 milljarðar kr. á árinu 2013. Það væri hægt að hafa langa upptalningu á því hvað hægt væri að gera fyrir þessa 84 milljarða miðað við aðra liði í fjárlögunum. Sá samanburður sýnir okkur að ef ekki væri þörf á að greiða 84 milljarða í vexti hefðum við í fyrsta lagi getað komist hjá öllum niðurskurði undanfarinna ára en við gætum líka ráðist í verulega kjarabætur fyrir þær stéttir sem hafa dregist aftur úr á undanförnum árum og ráðist í heilmikla fjárfestingu, en skortur á fjárfestingu er sérstakt vandamál sem ég ætla að fjalla um hér á eftir. 84 milljarðar á árinu 2013, nettóvaxtakostnaður ríkisins 63,3 milljarðar. Einhverjar vaxtatekjur koma á móti en nettókostnaður vegna vaxta er 63,3 milljarðar.

Hvernig var þessi kostnaður á undanförnum árum? Á árinu 2009 eftir efnahagshrunið nam nettóvaxtakostnaður ríkisins rúmum 40 milljörðum. Svo reyndu menn að taka á þeirri stöðu eða héldu því að minnsta kosti fram og gátu fært dálítil rök fyrir því í fjárlögum ársins 2010 þar sem kom fram að nettóvaxtakostnaður yrði 38,8 milljarðar, ívið minni en 2009. En svo fór heldur að halla undan fæti 2011. Þá var nettóvaxtakostnaðurinn yfir 46 milljarðar, 2012 55,7 milljarðar og núna 2013 63,3 milljarðar kr.

Þetta minnir okkur á að þau útgjöld sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu eru að verulegu leyti peningar sem teknir eru að láni. Á meðan menn halda áfram að safna skuldum og ég tala nú ekki um ef vaxtakostnaðurinn heldur áfram að stíga svona hratt verðum við að líta svo á að þau útgjöld sem við ráðumst í séu tekin að láni og muni bera vexti og því miður töluvert háa vexti langt fram í tímann. Það er nefnilega svo að þó að hæstv. ríkisstjórn hafi gert töluvert af því að undanförnu að státa sig af meintum árangri í efnahagsmálum og meðal annars við stjórn ríkisins hafa skuldir ríkisins haldið áfram að vaxa ár frá ári. Þær hafa ekki vaxið jafnhratt og fyrstu árin, sérstaklega fyrsta árið eftir hrun þegar töluverður kostnaður af efnahagshruninu lenti á ríkinu, en engu að síður haldið áfram að vaxa ár frá ári. Menn eru ekki byrjaðir að greiða niður skuldir heldur eru þeir að auka við þær enn þá og enn í þessum fjárlögum, síðustu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Þar er enn verið að auka á skuldirnar, ekki jafnhratt og í byrjun en samt er aukning ár frá ári. Það er ekki í samræmi við þær áætlanir sem gerðar voru á árinu 2009 þar sem gert var ráð fyrir töluvert meiri hagvexti en raunin hefur sýnt, töluvert hraðari niðurgreiðslu skulda og að ríkissjóður yrði rekinn með afgangi miklu fyrr en ljóst er að verður.

Það er verulegt áhyggjuefni að þessar áætlanir skuli ekki hafa gengið eftir vegna þess að forsendur til þess voru allar til staðar. Eins og svo oft verður eftir efnahagshrun og kreppu kom töluverð uppsveifla í löndunum í kringum okkur. En þessi uppsveifla fór algerlega fram hjá Íslandi, sú uppsveifla sem mátti gera ráð fyrir í ljósi sögunnar og gert var ráð fyrir í spám, m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrir vikið erum við enn að safna skuldum.

Af hverju fór þessi uppsveifla fram hjá okkur og setur okkur í þá stöðu að vera enn við lok þessa kjörtímabils að bæta við skuldir ríkisins í stað þess að greiða niður? Fyrst og fremst vegna þess að hér hefur fjárfesting verið í sögulegu lágmarki. Frá því að mælingar hófust hefur fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu ekki verið jafnlítil og undanfarin ár. Og fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu segir okkur til um atvinnusköpun, sköpun starfa, enda hefur störfum nánast ekkert fjölgað. Það hefur að vísu dregið úr skráðu atvinnuleysi en þegar rýnt er í ástæðurnar fyrir því er það ekki vegna þess að orðið hafa til ný störf heldur vegna þess að fólk hefur flutt úr landi til að leita sér að vinnu annars staðar eða verið skilgreint á nýjan hátt, ýmist farið í einhvers konar starfsþjálfunarprógrömm, farið á framfærslu hjá sveitarfélögum eða verið endurskilgreint með öðrum hætti.

Þetta er meginástæða þess að staðan er ekki betri en raun ber vitni og hún mun ekki lagast fyrr en fjárfesting fer af stað og ný atvinnutækifæri skapast. Hvað þarf til þess? Fyrst og fremst þarf stöðugleika. Stjórnvöld þurfa að skapa efnahagslegan stöðugleika vegna þess að ekkert fælir fjárfesta meira frá, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, en pólitísk óvissa. Þegar menn hafa breytt skattkerfinu að minnsta kosti 170 sinnum á einu kjörtímabili blikka rauð ljós sem vara við því að of mikil pólitísk áhætta sé að fjárfesta í landinu enda er Ísland komið á lista yfir lönd þar sem fjárfestar þurfa að óttast pólitíska áhættu og reikna sérstakt álag vegna hennar. Ísland er komið á lista með löndum á borð við Rússland, Egyptaland, ýmis Afríkuríki og Suður-Ameríkuríki þar sem pólitísk áhætta telst sérstakur áhættuliður. En því miður hefur ekkert verið gert til að draga úr óvissunni. Það er stöðugt bætt í hana.

En svo státa menn sig engu að síður af hagvexti. Það er alveg rétt að mælst hefur dálítill hagvöxtur, t.d. á síðasta ári, en hvernig varð sá hagvöxtur til? Hann varð til með makrílveiðum, vegna þess að íslenska krónan féll það mikið að ferðaþjónusta hefur vaxið umtalsvert og annar útflutningur og vegna þess að fólk var hvatt til og nánast neytt til þess sumt hvert að nota séreignarsparnað sinn. Meðal annars þurftu margir að grípa til þess ráðs að nota séreignarsparnað til að borga af lánum.

Nú er áfram gert ráð fyrir hagvexti í fjárlögum ársins 2013, en á hverju byggist hann? Ekki á fjárfestingu eða nýjum störfum heldur fyrst og fremst á einkaneyslu, sem væntanlega verður því miður fjármögnuð að miklu leyti með lántökum. Meðan ekki er hugað að þessari frumforsendu sjálfbærs hagvaxtar, fjárfestingu, snýst þróunin ekki við. Og þörfin er orðin býsna knýjandi að fara að framleiða meira og skapa fleiri störf, í fyrsta lagi til að heimilin hafi nægar tekjur til að standa undir skuldum og eðlilegri neyslu en líka vegna þess að staða þjóðarbúsins út á við er komin á verulegt hættustig eins og töluvert hefur verið rætt á síðustu vikum. Og það er ekki fjallað nógu ítarlega um þau mál í þessu fjárlagafrumvarpi, þau risavöxnu úrlausnarefni sem felast í svokallaðri snjóhengju og skakkri stöðu íslenska þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Við framleiðum ekki nægan gjaldeyri til að standa undir fyrirsjáanlegu útflæði gjaldeyris á næstu árum og ef fram heldur sem horfir á næstu áratugum, svo það er mjög brýnt að snúa því við. Vöruskiptajöfnuður fyrir fyrstu níu mánuði þessa árs var að vísu jákvæður um 49 milljarða en það er 40% minna en í fyrra. Viðskiptajöfnuðurinn, svo við lítum á heildarmyndina, er neikvæður. Það syrtir því enn í álinn hvað varðar stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum og það er mjög hættuleg staða. Þess vegna er afar brýnt og hefur verið lengi að koma fjárfestingu af stað og auka útflutning.

Það er reyndar gert ráð fyrir í fjárlögunum, eina ferðina enn, töluverðri uppbyggingu stóriðju. Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við miðað við hvernig málflutningur hæstv. ráðherra og ýmissa stjórnarliða hefur verið á undanförnum árum varðandi stóriðjuna. Engu að síður hafa menn ár eftir ár gert ráð fyrir töluverðum hagvexti og tekjum ríkisins vegna fjárfestingar í stóriðju sem hefur svo ekki gengið eftir, m.a. vegna þess að stjórnvöld hafa beinlínis þvælst fyrir í stað þess að liðka fyrir henni. Eina ferðina enn gera menn nú ráð fyrir töluverðum tekjum af fjárfestingu í stóriðju, en ef reynslan er eitthvað til að miða við er hættan sú að lítið verði um það, a.m.k. á fyrri hluta næsta árs. Sem betur fer verða kosningar í apríl og þá getur ýmislegt breyst til hins betra.

Virðulegur forseti. Ég hafði hugsað mér að fara yfir ýmsa liði fjárlaganna, en af því að tíminn er orðinn naumur ætla ég að bíða með það og fara þess í stað aðeins yfir hvernig menn vinna fjárlög almennt. Það er svo sem ekkert nýtt í þessum fjárlögum 2013, þetta er sú aðferð sem menn hafa notað við fjárlagagerð mjög lengi en þyrfti að breytast til mikilla muna að mínu mati. Þar er ég einkum að tala um þrennt.

Í fyrsta lagi þurfa menn að gera fjárlög eða tiltölulega nákvæmar áætlanir til lengri tíma en eins árs í senn. Þegar menn gera eingöngu áætlun til eins árs geta þeir ekki metið hvað er skynsamleg fjárfesting, hvar er skynsamlegast að skera niður og spara, hvar má jafnvel auka útgjöld en ná þeim mun meiri tekjum til baka til lengri tíma litið. Það að líta einungis á eitt ár í senn leiðir til rangrar eða óhagstæðrar ákvarðanatöku. Við höfum séð mjög mörg dæmi um það á undanförnum árum og meðal annars í þessum fjárlögum að verið sé að skera niður og spara til skamms tíma, til eins árs, en valda með því þeim mun meiri útgjöldum til lengri tíma litið. Eða það er skorið niður og sparað til eins árs og þar með komið í veg fyrir að til verði þeim mun meiri tekjur til lengri tíma litið. Á meðan menn eru ekki með lengra tímabil undir geta þeir ekki tekið skynsamlegustu og hagstæðustu ákvarðanirnar.

Í öðru lagi vantar meiri heildarsýn. Það þarf að meta betur heildaráhrif þeirra ákvarðana um útgjöld og tekjur sem fjárlögin lýsa. Sem dæmi um það má nefna þann niðurskurð sem hefur verið gert ráð fyrir í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Í fjárlögum hefur verið gert ráð fyrir svo og svo miklum sparnaði á hverjum stað, en ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði á móti annars staðar. Menn hafa gert ráð fyrir að spara jafnvel nokkur hundruð milljónir á hverjum stað með því að fækka starfsfólki, segja t.d. upp hjúkrunarfræðingum, fækka rúmum á sjúkrahúsum og draga úr þjónustu, en ekki gert ráð fyrir því að samdráttur sem verður í þjónustu á einum stað leiði til aukins kostnaðar annars staðar og jafnvel nýs kostnaðar eins og ferðakostnaðar sem fylgir því þegar nægileg heilbrigðisþjónusta er ekki í boði í hverjum landshluta. Það er bara litið fram hjá kostnaðinum sem verður til annars staðar. Það vantar með öðrum orðum annan hluta jöfnunnar. Þetta er verulegur galli á fjárlögum og leiðir til oft og tíðum, eins og í fyrra dæminu með tímarammann, til óhagstæðrar ákvarðanatöku, jafnvel rangrar.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna sem er mjög mikilvægt að huga að við gerð fjárlaga og þarf að huga að við gerð fjárlaga ársins 2014, að það er ekki sama hvort peningarnir renna í eitthvað þannig að þeir veltist áfram innan íslenska hagkerfisins eða fari úr landi. Menn hafa nefnilega lagt að jöfnu það sem varið er til dæmis í innfluttar vörur eða það sem fer í að greiða til að mynda laun hjúkrunarfræðinga, af því að staða þeirra hefur mikið verið í umræðu á síðustu dögum og vikum, en það er ekki rétt að leggja þetta að jöfnu. Það sem varið er í innflutta vöru eða önnur útgjöld sem renna úr landinu eru peningar sem eru farnir að öllu leyti. En þeir peningar sem notaðir eru til að greiða íslenskum hjúkrunarfræðingi laun hér heima koma að talsverðu leyti strax til baka vegna tekjuskatts en restin fer í að kaupa ýmsar vörur og þjónustu hér innan lands, skattur er líka lagður á það eða það er borgað af íslenskum lánum. Þannig veltast peningarnir áfram innan íslenska hagkerfisins og skila sér smátt og smátt að miklu leyti til baka til ríkisins aftur eða til að skapa verðmæti innan lands.

Menn hafa ekki gert neinn greinarmun á þessu. Þetta er atriði sem ég benti oft á í tengslum við það þegar verið var að leggja mat á það hvort Íslendingar gætu staðið undir vaxtabyrðinni af Icesave-samningunum sem ég nefndi í byrjun. Það var aldrei hugað að því af hálfu stjórnvalda að þeir rúmlega 40 milljarðar sem átti að greiða í vexti árlega væru peningar sem rynnu úr landi og kæmu ekki aftur, mundu ekkert nýtast innan lands, það kæmi ekkert á móti. Þessir rúmu 40 milljarðar sem hefðu farið úr landinu í formi vaxtagreiðslna jafngiltu því að ríkið hefði ráðist í útgjöld sem hefðu getað numið að minnsta kosti tvöfaldri þeirri upphæð innan lands, 80 milljarða útgjöld innan lands, vegna þess að þeir hefðu skilað sér til baka að svo miklu leyti og leitt til verðmætasköpunar hér. Það er því ekki sama hvort við erum að tala um útgjöld innan Íslands eða eitthvað sem rennur úr landi. Það er löngu orðið tímabært að menn fari að gera greinarmun þar á og líta á fjárlög ríkisins meira eins og heimilisbókhald, skoða hvað kemur inn og hvað fer út.

Ég hef gert miklar athugasemdir við hvernig fjárlög eru unnin og reynsluna af fjárlagagerð ríkisstjórnarinnar. Til stóð samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að gera heilmiklar úrbætur á því hvernig menn ynnu fjárlög. Í því samhengi er rétt að rifja upp að samhliða kynningu á fjárlögum ársins 2010 gaf ríkisstjórnin skriflegt fyrirheit sem ég ætla að fá að lesa hér í lok ræðu minnar, með leyfi virðulegs forseta. Yfirskriftin var: „Aukinn trúverðugleiki fjárlaga.“ Þar segir:

„Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að tryggja trúverðugleika fjárlaga nú þegar fram undan er árabil mikils og nauðsynlegs aðhalds í útgjöldum ríkissjóðs. Trúverðugleikinn er meðal annars kominn undir vilja og getu ríkisstjórnar,“ — athugaðu, virðulegi forseti, vilja og getu ríkisstjórnar — „ráðuneyta og stofnana til að halda útgjöldum ríkissjóðs innan heimilda fjárlaga. Því mun fjármálaráðherra á haustdögum leggja fyrir ríkisstjórn til afgreiðslu verklagsreglur og viðmiðanir sem auka á trúverðugleika fjárlaga og styrkja framkvæmd þeirra.“

Hvernig gekk þetta nú eftir? Þetta fyrirheit var gefið þegar fjárlagafrumvarp ársins 2010 var lagt fram. Ég rakti það í upphafi máls míns hvernig fjárlög ársins 2010 hefðu gengið eftir og fjárlög ársins 2011 og við sjáum í hvað stefnir með fjárlögum ársins 2012. Því miður hefur ekkert breyst við vinnslu fjárlaga ársins 2013, þannig að það má segja að ríkisstjórnin dæmi sjálfa sig með yfirlýsingunni frá árinu 2009 þar sem hún segir að trúverðugleikinn sé meðal annars kominn undir vilja og getu ríkisstjórnarinnar. Vilji og geta ríkisstjórnarinnar hefur því miður bara ekki verið nógu mikil. Getan til að rétta af rekstur ríkisins hefur ekki verið til staðar. Það er enn verið að safna skuldum á síðasta ári þessa kjörtímabils og teknar hafa verið allt of margar rangar ákvarðanir, m.a. vegna þess að ekki var unnið að fjárlögum á skynsamlegan hátt og að sjálfsögðu nánast ekkert tillit tekið til ábendinga, hvort heldur sem er stjórnarandstöðunnar eða sérfræðinga í risastórum málum eins og veiðigjaldamálinu. Það var kannski ekki við öðru að búast en að við yrðum enn í þeirri stöðu sem við erum í nú en vonandi verður veruleg breyting á þegar fjárlög ársins 2014 verða kynnt af nýrri ríkisstjórn.