141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þurfti nú hv. þingmaður að fara að ergja mig með því að tala um hina svokölluðu fjárfestingaráætlun? Maður vill helst komast hjá því að ræða um fjárfestingaráætlunina þó að auðvitað verði ekki hjá því komist vegna þess að þetta er svo vitlaus framsetning; að kynna eðlilega fjárfestingu ríkisins sem einhverja sérstaka fjárfestingaráætlun eftir að fjárfesting er búin að vera í sögulegu lágmarki ár eftir ár. Þessi fjárfestingaráætlun á ekki einu sinni að taka gildi fyrr en á næsta kjörtímabili ef frá eru taldir nokkrir mánuðir. Ástæðan fyrir því að allt tal um þessa fjárfestingaráætlun ergir mig svo er að þetta er svo mikil sýndarmennska, þetta er umfram allt sýndarmennska. Það er alveg skiljanlegt að hv. þingmaður skuli hafa notað umræðuna um fjárfestingaráætlunina sem inngang til að tala um mikilvægi þess að menn setji sér skýrari reglur um hvernig á fjárlögum er haldið. Ég held að það sé full ástæða til þess.

Menn hafa jafnvel velt upp hugmyndum um að setja í lög að ekki megi reka ríkið með halla nema í sérstökum undantekningartilvikum sem þurfi þá samþykki þingsins fyrir, að sjálfsögðu. Það má hugleiða að setja einhverja slíka reglu. Reynslan frá Bandaríkjunum hefur kannski ekki gefið nógu góða raun vegna þess að þar eru þeir með lög sem banna að halli ríkisins eða skuldir ríkisins fari yfir ákveðin mörk, en svo færa þeir bara mörkin jafnt og þétt eftir því sem þeir nálgast þau, ég held að þeir hafi fært þau fjórtán sinnum. Það vantar því agann til að fylgja reglunum eftir. Það þarf að haldast í hendur.

Já, skýrari reglur en aginn þarf líka að vera til staðar til að fylgja reglunum.