141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að leggja dóm á það hvers vegna málefni Íbúðalánasjóðs voru ekki inni í frumvarpinu. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að hér sé tekin umræða um Íbúðalánasjóð og hvernig eigi að bregðast við. Ef það á einhvers staðar heima er það í umræðunni sem við erum í akkúrat núna.

Ég ætla ekki að leggja mat á það hvers vegna þetta var ekki inni í frumvarpinu á sínum tíma en maður veltir því óneitanlega fyrir sér sem kemur fram hjá hv. þingmanni, hvort ástæðan kunni að vera að menn vildu láta fjárlagafrumvarpið líta vel út. Það er kosningaár og ríkisstjórnin vildi láta fjárlagafrumvarpið líta vel út þannig að menn gætu einmitt slegið sér upp á þeim fyrirsögnum að við værum komin á lygnan sjó. Nú væri bjart fram undan o.s.frv. og núverandi ríkisstjórn búin að vinna bug á öllum þeim vandamálum sem íslenska þjóðin glímdi við.

Ég átti eftir að koma inn á umræðuna um safnliðina. Eitt af því sem notað var sem rök á sínum tíma fyrir því að ekki var hægt að taka á stórum málum inni í fjárlaganefnd var að fjárlaganefnd væri yfirfull vegna vinnu í litlu málunum, safnliðum, litlu fjárveitingunum hingað og þangað og því væri ekki hægt að einbeita sér að stóru verkefnunum. Það voru meðal annars rökin fyrir því að ákveðið var að taka safnliðina út úr fjárlagagerðinni og setja þá inn í menningarsamninga o.s.frv. Þess vegna er svo skrýtið að skoða þessar breytingartillögur, og ég var að koma inn á það í máli mínu þegar tíminn kláraðist, því ef maður fer í gegnum breytingartillögur meiri hlutans virðast, þrátt fyrir að búið sé að taka alla litlu liðina út, meirihlutatillögur fullar af einhverjum gæluverkefnum hingað og þangað. Það vekur ekki hjá manni bjartsýni um að taka eigi á stórum málum eins og Íbúðalánasjóði, (Forseti hringir.) jöfnunarsjóðnum og málefnum sveitarfélaganna, líkt og ég kom inn á í ræðu minni áðan.