141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi niðurgreiðslur á húshitun kom mjög skýrt fram í máli mínu að ég styð þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til um niðurgreiðslur upp á 175 milljónir. Það sem ég benti hins vegar á var að rökstuðningurinn fyrir þeim tillögum var sá að verið væri að bregðast við skýrslu þess starfshóps sem gerði ráð fyrir því að koma upp sérstökum jöfnunarsjóði sem mundi sjálfkrafa jafna húshitunarkostnaðinn víðs vegar um landið, en sveitarstjórnir þyrftu ekki að koma ár hvert til fjárlaganefndar betlandi til að ná fram niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, sem að mínu viti á að vera einn af grunnum samfélagsins, það sem kostar að koma upp húsi og reka það. Þannig mundi þetta ganga fyrir sig. Það sem ég skil ekki er af hverju ekki er hægt að bregðast við þessum tillögum núna. Það er ekkert því til fyrirstöðu að bregðast við þeim og koma upp slíkum sjóði. Það er ekkert því til fyrirstöðu og ég kalla eftir því að það verði gert þannig að þetta þurfi ekki að vera með þeim hætti sem við horfum nú upp á. En að sjálfsögðu styð ég þetta og kom aldrei neitt annað fram í máli mínu.

Þegar kemur að sjúkrahúsinu í Stykkishólmi, sem ég vitnaði til, þá var samhengið í þeirri umræðu að nýbúið var að ráðast í miklar framkvæmdir til endurbóta á heilli álmu við sjúkrahúsið á Akranesi og þeim var nýlokið þegar þeirri deild var skyndilega lokað. Að sjálfsögðu styð ég framkvæmdir við sjúkrahúsið í Stykkishólmi, en það sem ég var að benda á var að núverandi ríkisstjórn og núverandi velferðarráðherra lokuðu deild á sjúkrahúsinu á Akranesi með einu pennastriki þegar nýbúið var að ráðast í framkvæmdir þar og taka alla deildina í gegn. Það er það sem ég benti á í máli mínu og þess vegna hræðist ég það að núverandi ríkisstjórn ætli að setja fjármagn til breytinga á (Forseti hringir.) fasteignum því að reynslan hjá akkúrat þessari stofnun sýnir að strax á eftir verður lokað með einu pennastriki. (Forseti hringir.) Það er reynslan á Akranesi.