141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom mjög vel inn á það í máli mínu hér áðan að Samband sveitarfélaga, eftirlitsnefndin, fulltrúar fjármálaráðuneytis og innanríkisráðuneytis voru á fundi umhverfis- og samgöngunefndar til að fara yfir fjárhagsstöðu sveitarfélaga og þá sérstaklega þeirra sem verst standa. Í framhaldi af þessum fundi lýstu margir nefndarmenn miklum áhyggjum af stöðu mála hvað þetta snertir.

Það sem ég kom inn á í máli mínu snýr sérstaklega að þeim sveitarfélögum sem nutu þessa aukaframlags jöfnunarsjóðs sem var lagt fram á sínum tíma til að koma til móts við þau sveitarfélög sem höfðu glímt við fólksfækkun, sveitarfélög úti á landi, fámenn sveitarfélög í hinum dreifðu byggðum, á þeim svæðum sem standa hvað veikast. Þau fengu úthlutað af þessu aukaframlagi en það var bara brot af þeim 3 milljörðum sem ríkisstjórnin hefur sett í jöfnunarsjóð á þessu kjörtímabili. Ákveðið var að taka það aukaframlag allt af þessum sveitarfélögum og flytja til Álftaness. (Gripið fram í: 3 milljarða?) — Nei, aukaframlagið, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) aukaframlag jöfnunarsjóðs. Það var trappað niður og fór síðan inn til sveitarfélaga sem máttu glíma við skuldavanda eins og Álftanes. Í dag er staðan sú að 12 af 16 sveitarfélögum sem eftirlitsnefndin hefur áhyggjur af eru þessi fámennu litlu sveitarfélög sem nutu fjárveitinga úr aukaframlaginu.

Ég kalla eftir því og skora á fjárlaganefnd að skoða þetta mál sérstaklega milli 2. og 3. umr. og hvet nefndarmenn til að fá á fund sömu aðila og umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) fundaði með í síðustu viku.