141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert að sjá hversu margir eru í salnum til að fylgjast með þessari umræðu. Mér telst svo til að hér séu engir samfylkingarmenn úr fjárlaganefnd til að taka þátt í umræðunni eða fylgjast með. Það er athugunarefni hvers vegna það er.

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn á umræðuna um Íbúðalánasjóð sem átti sér stað á undan í andsvörum. Auðvitað er það þannig að engum dylst vandi sjóðsins en ég er einfaldlega að kalla eftir svörum við því hvers vegna menn hafa ekki notað tímann betur til að leggja fram einhver framtíðaráform um hvernig starfsemi sjóðsins á að fara fram. Er það svo að umræðan sem við áttum um sjóðinn í þinginu síðastliðið vor, í kjölfar breytinga á húsnæðislögunum þar sem verið var að þrengja lítillega að honum vegna athugasemda ESA, hefur ekki skilað neinu? Í þeirri umræðu kom fram af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að verið væri að vinna að því að endurskoða starfsemi sjóðsins en maður gat samt ekki heyrt á umræðunni að það ætti að gera neinar breytingar.

Ég er á þeirri skoðun að það sé ekki heppilegt að Íbúðalánasjóður sé starfræktur á þann hátt sem verið hefur undanfarin ár. Ég tel ekki rétt að Íbúðalánasjóður sé í harðri samkeppni við aðra. Það er vegna þess að Íbúðalánasjóður nýtur ríkisábyrgðar sem þýðir að hann hefur ákveðna sérstöðu. Ég tel að Íbúðalánasjóður eigi að hafa það hlutverk að vera félagslegur sjóður sem er til staðar fyrir fólk sem ekki getur fengið fjármögnun hjá einkabönkunum eða öðrum á markaðnum. Sjóðurinn er kominn langt frá því hlutverki og það má eiginlega segja að hann sé að reyna eftir fremsta megni að vera í harðri samkeppni við aðra aðila á þessum markaði. Ég tel að sjóðurinn hafi misst sjónar á hlutverki sínu í fasteignabólunni sem átti sér stað hér fyrir hrun og í rauninni hafi gleymst til hvers þessi ríkisábyrgð var sett í upphafi. Það er eitthvað sem eigum að horfast í augu við. Við getum ekki lagað það sem fer út af sporinu nema við horfumst í augu við það sem er að.

Ég sé ekki að þetta kjörtímabil hafi verið nýtt sem skyldi til að takast á við það stóra verkefni. Þess vegna kalla ég eftir því nú þegar rúmt hálft ár er liðið frá því að við áttum miklar umræður um starfsemi sjóðsins en sú umræða átti sér ekki síst stað vegna afstöðu okkar sjálfstæðismanna til málsins. Í rauninni má segja að það séu helst tvær ástæður fyrir því að Íbúðalánasjóður hafi ríkisábyrgð. Auðvitað var það þannig að Íbúðalánasjóði var ætlað að sinna félagslegu hlutverki og hjálpa fólki við sín íbúðakaup sem átti ekki möguleika á því annars staðar frá. Sú ríkisábyrgð var í rauninni hugsuð sem niðurgreiðsla á húsnæði handa þeim hópum og hér erum við að tala um þetta félagslega hlutverk Íbúðalánasjóðs sem ég tel að við séum svo sem öll sammála um að eigi að vera grundvallarmarkmið sjóðsins.

Síðan var ríkisábyrgðin forsenda þess að hægt væri að gefa út skuldabréf íslenska húsnæðismarkaðarins og þau skuldabréf voru verðtryggð og til allt að 40 ára án uppgreiðsluheimilda. Því fylgir vaxtaáhætta og inn í það allt saman bætast lífeyrissjóðirnir. Við sjáum af því hvernig staða sjóðsins er í dag að eitthvað þarf að gera. Það dugir ekki að koma inn með breytingar á fjárlagafrumvarpi milli umræðna, rétt áður en 3. umr. á sér stað, til þess að takast á við vandamálið. Þá tökumst við ekki á við vandann heldur erum bara að segja: Þetta er það sem við þorum að gera núna rétt áður en fjárlögin verða samþykkt svo að allt stefni ekki í óefni.

Ég tel að tími sé kominn til að horfa á það með raunsæjum augum og taka til hendinni við að gera breytingar. Ég held að Íbúðalánasjóður hafi misst sjónar á sínu grunnhlutverki og sé í rauninni farinn að einbeita sér að öðru í þessari bólu. Ég skildi það þannig að Íbúðalánasjóður hefði átt að vera feginn því þegar einkabankarnir komu inn á fasteignamarkaðinn og að það væru aðrir sem væru tilbúnir til að veita lán á þeim markaði. Auðvitað væri best ef Íbúðalánasjóður þyrfti ekki að vera til af því að allir ættu jafnan og greiðan aðgang að því að fjármagna sín húsnæðiskaup hjá öðrum en sjóði sem væri ætlað að vera félagslegur og væri með ríkisábyrgð.

Þess vegna hefði sjóðurinn átt, að mínu viti, að reyna að draga saman seglin við slíkar aðstæður. Það var ekki gert. Auðvitað var það svo að þegar bankarnir komu fyrst inn á markaðinn náðu þeir til sín töluverðu af fasteignalánamarkaðnum en viðbrögð stjórnmálamanna og sjóðsins voru þau að fara í harða keppni við bankana um viðskiptavini. Þarna tel ég að sjóðurinn hafi farið út fyrir það upphaflega markmið sitt og tilgang að vera félagslegur sjóður. Þá erum við í þeirri stöðu að þeir sem leituðu til Íbúðalánasjóðs til að fá lán á þeim árum, rétt fyrir hrun 2006–2008, sumir segja 2004–2008, eru þeir einstaklingar sem hafa komið verst út úr fasteignaviðskiptum. Það eru þeir sem hafa jafnframt fengið minnst afskrifað og fengið minnsta aðstoð frá sínum lánveitanda eftir hrun.

Það má segja að þau lán, sem sumir hverjir hafa kallað Jóhönnulánin, séu verstu lánin sem veitt voru til fjölskyldnanna í landinu fyrir hrun. Hvað erum við þá með? Við erum með sjóð sem var í upphafi ætlað að vera félagslegur sjóður til að aðstoða fólk við að öðlast húsnæði en er þvert á móti búinn að taka til sín markað, eða stóran hluta af markaði, í samkeppni við einkabanka sem að öðru leyti hefðu getað fjármagnað kaupin. Við sjáum nú að Íbúðalánasjóður hefur ekki komið til móts við sína lántakendur á sama hátt og einkabankar.

Ríkið hefur þegar lagt sjóðnum til 33 milljarða kr. í nýtt eigið fé en það dugar ekki til. Nú stendur til að koma með 13 milljarða á fjárlögunum sem við ræðum hér og umræða eða deila er um hvort það vanti svo 33 í viðbót eða jafnvel allt upp í 200. Það liggur ekki fyrir, þær tillögur liggja ekki fyrir, en þetta er það sem hefur verið í umræðunni í fjölmiðlum. Ég tel að við þurfum að fara í viðamikla umræðu í þinginu um það hvort, og þá hvernig, við ætlum að viðhafa ríkisábyrgð í lánaviðskiptum. Sú umræða hefur ekki farið fram heldur erum við á síðustu stundu að fá fram einhverja tillögu frá ríkisstjórninni um það hvernig eigi að redda sjóðnum fyrir horn í bili.

Frú forseti. Það eru ekki fullnægjandi vinnubrögð að mínu mati. Ég kalla eftir því að menn úr stjórnarliðinu blandi sér í umræðuna og útskýri fyrir mér hvers vegna þeir stjórna málum svona. Það hefur vissulega farið fram umræða um Íbúðalánasjóð í þingsalnum, aðallega um hvaða flokkur það hafi nú verið sem bar ábyrgð á því að lánsfjárhlutfallið var hækkað. Hverjir voru það? Það væri nú kannski ágætt að ræða. Hins vegar hefur lítil sem engin umræða farið fram um hvernig við umgengumst þessa ríkisábyrgð á íbúðalánunum. Þegar Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemdir við að við værum með sjóð sem nyti ríkisaðstoðar vegna þeirrar ríkisábyrgðar og við því þyrfti að bregðast vegna þess að það bryti í bága við reglur Evrópska efnahagssvæðisins, fóru í gegnum þingið minni háttar breytingar á lögunum um húsnæðismál í þá veru að reyna að koma að mjög litlu leyti til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA í staðinn fyrir að taka á vandanum.

Höfum við ekkert lært? Ekki einu sinni þegar við fáum athugasemdir, þá reynum að sleppa frá þeim á þægilegan hátt í staðinn fyrir að segja: Það er verið að benda okkur á ákveðið vandamál, eigum við ekki í ljósi fenginnar reynslu aðeins að hlusta á það og kannski setjast yfir það og athuga hvernig við ætlum að taka á vandanum? Ég minnist þess að síðasta vor vorum við sjálfstæðismenn þeir einu í þinginu sem vildum taka það til alvarlegrar athugunar og skoða hvernig við ætluðum að breyta Íbúðalánasjóði til framtíðar og reyna að takmarka áhættu skattgreiðenda við að reka sjóðinn með þessari miklu ríkisábyrgð.

Ég tel að ganga þurfi miklu lengra en frumvarpið gekk sem lagt var fram og samþykkt í þinginu síðastliðið vor, miklu lengra. Auðvitað verður það erfitt. Það er erfitt að taka slíkar ákvarðanir og erfitt að breyta en þegar við erum með bleikan fíl í stofunni sem veldur miklum vandræðum og enginn þorir að tala um eða nálgast er eitthvað mikið að. Sérstaklega í ljósi þess að við höfum lent í miklum hremmingum og ég hélt að við ætluðum okkur að læra af reynslunni. Ég tel að málið varðandi Íbúðalánasjóð sýni okkur að stjórnvöld hafi ekki dregið réttar ályktanir af vandanum sem við komumst í í hruninu og fyrir hrunið. Þvert á móti. Ég tel að menn séu enn í því að reyna að horfast ekki í augu við vandamálin og vilji ekki læra af reynslunni vegna þess að það er óþægilegt. Ég hef miklar áhyggjur af því. Við eigum eftir að svara þeirri spurningu hvort við ætlum okkur að vera með sjóð sem nýtur ríkisábyrgðar og er með stærstan hluta af fasteignalánamarkaði Íslands. Við eigum eftir að taka þá umræðu og svara þeirri spurningu.

Ég vil meina að það sé stóra spurningin sem við eigum að vera að tala um. Það hefur mikið verið rætt um verðtryggingu og vandamál tengd henni í þessum sal, mjög mikið. Í umræðunni úti í samfélaginu virðist manni stundum sem búið sé að sannfæra stóran hluta þjóðarinnar um að verðtryggingin sé stærsti óvinur íslensku þjóðarinnar. Auðvitað er ég enginn sérstakur áhugamaður um verðtryggingu og finnst hún ekkert sérlega skemmtileg en verðtryggingin er birtingarmynd þess sem gerðist hér. Verðtryggingin er ekki orsök vandans sem íslensk heimili eru í heldur er hún birtingarmyndin. Við þurfum að taka á vandanum og takast á við þá spurningu hvort við teljum rétt að það sé ríkisábyrgð á íslenskum fasteignalánamarkaði og að hve miklu leyti hún eigi að vera til staðar.

Ætlum við að hafa áfram áfram 40 ára lán, jafngreiðslulán? Ætlum við enn að hafa það sem okkar meginnorm í fasteignaviðskiptum? Eða ætlum við að hafa það þannig að ríkið dragi sig út af þessum markaði? Nema þá í þeim tilvikum sem geta talist félagsleg og þeir sem þar eiga undir og teljast vera í þeim aðstæðum að til þurfi að koma ríkisaðstoð og réttlætanlegt sé að beita henni, þar sé búið að forma þröngar reglur þar sem heimilt er að nota ríkisaðstoð. Ég kalla eftir því að umræðan fari fram vegna þess að ég tel að við eigum að vera að rökræða. Ekki um að reyna að gera einhverjar minni háttar breytingar á sjóðnum til að uppfylla tímabundið eða friða tímabundið Eftirlitsstofnun EFTA. Ég tel að við séum á rangri leið með því að haga málum þannig.

Frú forseti. Ég ætlaði nú ekki að eyða öllum mínum tíma í Íbúðalánasjóð. Ég spurði að því í umræðunni á föstudagskvöldið, þar sem ég hélt mína fyrstu ræðu í þessu máli, af hverju við værum ekki búin að fá svar við því í umræðunni hvers vegna ekki er staðið við þá forsendu kjarasamninga að tryggingagjaldið sé lækkað. Á föstudagskvöldið fóru menn í ýmsa útúrsnúninga og voru með framkomu sem ekki er rétt að vera mikið að ræða hér. Ég kallaði á þeim tímapunkti eftir umræðu frá stjórnarliðum og rökstuðningi fyrir því að ekki hefur verið staðið við samningana. Hvers vegna lækkar tryggingagjaldið ekki? Ég vonast til þess að hæstv. fjármálaráðherra, sem nú er kominn hingað til að hlýða á mál mitt og ég þakka ráðherranum fyrir það, svari nú þeirri spurningu í umræðunni.

Mig langar jafnframt að taka upp einn punkt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur verið duglegur að benda á. Til stendur að fara að byggja hús íslenskra fræða sem kostar 3,4 milljarða og dreifist, að því er mér skilst, á þrjú ár. Í rauninni er verið að gefa kosningaloforð og síðan að binda hendur komandi þinga varðandi fjárlagagerðina. Engar upplýsingar hafa borist eða verið lagðar fram inn í fjárlaganefnd um hvað það kostar að reka batteríið þegar húsið hefur verið byggt.

Hér er nú annað dæmi. Kannast menn ekki við hús sem heitir Harpa? Þetta var einmitt gert. Húsið var byggt og síðan eru allir afskaplega undrandi yfir því hver rekstrarkostnaður hússins er. Hefði nú ekki verið gott að reyna að læra af reynslunni varðandi þá byggingu og þá framkvæmd alla og leggja að minnsta kosti fram einhvers konar áætlun inni í fjárlaganefndinni um það hvernig sá pakki allur mun enda? Ef þær upplýsingar hafa verið lagðar fram frá því að ég heyrði fyrstu ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um málið óska ég eftir því að upplýst verði í umræðunni hvernig þær upplýsingar voru unnar og hvernig menn sjá fyrir sér að rekstur á húsi íslenskra fræða verði.

Í hnotskurn er þetta fjárlagafrumvarp einfaldlega þannig að hallarekstur ríkissjóðs er mikill. Það virðist vera sem þær áætlanir sem hafa verið gerðar um bata á rekstri ríkissjóðs hafi ekki gengið eftir. Við þessar umræður eru lagðar fram útgjaldatillögur, miklar útgjaldatillögur, sem ekki voru inni í upphaflega frumvarpinu og það vekur óneitanlega athygli að allar þær tillögur sem koma frá ríkisstjórninni eru samþykktar af meiri hluta fjárlaganefndar en þeim tillögum sem fram koma af hálfu Alþingis er frestað til 3. umr. Mig langar að spyrja hvers vegna þau vinnubrögð eru viðhöfð varðandi tillögurnar sem koma frá Alþingi? Hver eru rökin fyrir því að samþykkja allt sem kemur frá ríkisstjórninni en geyma það sem kemur frá Alþingi? Er eitthvað að þeim tillögum sem koma frá Alþingi? Eru tillögur ríkisstjórnarinnar algjörlega skotheldar? Hvernig getur það farið svona inni í nefndinni og hver var umræðan um það inni í nefndinni? Nú sé ég engan fjárlaganefndarmann hér svo það er væntanlega enginn sem kemur til með að svara þeim spurningum. Það er miður og sýnir kannski í hnotskurn áhuga ríkisstjórnarflokkanna á málinu. (Forseti hringir.)