141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Taka má undir margt í gagnrýni hv. þingmanns á húsbréfakerfi fyrrverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, nú hæstv. forsætisráðherra, en sjálfstæðismenn verða að fara að láta af þessari andúð sinni á Íbúðalánasjóði og algjörum rangtúlkunum og útúrsnúningi á þeirri atburðarás sem leiddi til hækkunar fasteignaverðs og bólu á fasteignamarkaði hér.

Engin rök hníga að því að svokölluð 90% lán Íbúðalánasjóðs hafi valdið bólu á fasteignamarkaði. Það er alveg ljóst þegar menn skoða tölurnar, skoða þróun verðs á íbúðarhúsnæði, að það var innkoma bankanna, einkabankanna, á markaðinn sem bjó til þessa bólu. Nánast daginn sem Kaupþing tilkynnti um innkomu á markaðinn og lán sem fóru upp í 100% lán, og má jafnvel halda því fram að þau hafi farið yfir 100% í sumum tilvikum, þá byrjar fasteignabólan.

Þessi 90% lán svokölluðu hjá Íbúðalánasjóði höfðu nánast engin áhrif þar á enda voru þetta engin 90% lán. Það voru takmarkanir á því hversu há lánin gátu verið enda var þetta fyrst og fremst hugsað fyrir fólk sem var að byrja að koma sér þaki yfir höfuðið eða kaupa fyrstu íbúðina, litla íbúð. Svoleiðis að það var hámark fyrst, ef ég man rétt, 15 millj. kr. og svo 18 millj. kr. lán. Þannig að í mjög fáum tilvikum var um raunveruleg 90% lán að ræða. Enda höfum við nú bara séð það af reynslunni að það eru ekki þessi lán sem hafa valdið Íbúðalánasjóði vandræðum. Það sem hefur valdið Íbúðalánasjóði vandræðum er að menn hafa verið að greiða lán upp hraðar en Íbúðalánasjóður er í aðstöðu til að taka við, þ.e. að taka við uppgreiðslu lána, vegna þess (Forseti hringir.) að bankar hafa verið að undirbjóða sjóðinn.