141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það hefði verið þannig að Íbúðalánasjóður hefði dregið saman seglin þegar hann fann að hann þurfti ekki að fjármagna öll íbúðakaup á Íslandi vegna þess að aðrir aðilar voru komnir inn á markaðinn með hagstæðari kjör þá værum við ekki hér milli 2. og 3. umr. fjárlaga að fara að tala um að setja 13 milljarða inn í sjóðinn. Þá hefðum við ekki þurft að setja 33 milljarða af nýju eigin fé í sjóðinn fyrir ári og þá værum við einfaldlega í allt annarri stöðu en við erum í í dag með þennan sjóð. Þannig er það nú bara.

Ég er ánægð með að við séum sammála um að það eigi að vera meginhlutverk sjóðsins að sinna sínu félagslega hlutverki. Þá höfum við um eitthvað að tala og þá eigum við að fara að vinda okkur í að skoða það hvernig við getum náð saman um tillögur um að stýra Íbúðalánasjóði í þá átt sem hann á að vera. Hvar annars staðar í heiminum erum við með ríkistryggðan sjóð sem stendur undir jafnhárri prósentu á markaðnum og við gerum hér með Íbúðalánasjóð á Íslandi? Hvar er það? Hvernig erum við í samanburði við Norðurlöndin?

Ég tel að við þurfum að skoða þær tölur og sjá það og viðurkenna það, þegar við höfum verið að gera eitthvað sem var ekki nógu sniðugt. Við eigum þá að vera menn til þess að segja: Já, sama hver hefur sagt hvað í fortíðinni og hverjum er um að kenna, við þurfum að hafa hugrekki til þess að horfast í augu við vandann og halda áfram. Ég er ánægð með að við séum þó alla vega sammála um að það eigi að vera meginhlutverk Íbúðalánasjóðs að vera félagslegur sjóður. Förum að spjalla um það hvernig við útfærum þá tillögu.