141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nú löngum verið ánægður með ræður hv. þingmanns en þessi ræða var afskaplega vond. Þetta er ræða sem ekki er hægt að taka undir vegna þeirra ótrúlegu staðhæfinga sem þingmaður hefur uppi hér varðandi Íbúðalánasjóð og húsnæðiskerfið.

Ætli íslenska ríkið og ætli íslenskir skattborgarar séu ekki búnir að setja töluvert miklu fleiri aura og krónur inn í hina endurreistu banka eða inn í bankakerfið heldur en nokkurn tímann í Íbúðalánasjóð, heldur en Íbúðalánasjóður mun nokkurn tímann þurfa? Ég segi þetta líka vegna þess að eins og kom fram hér áðan þá hafa bankarnir í dag í raun ríkisábyrgð á sínum peningum sem þeir eru að lána út. Og viti menn, hvað eru bankarnir að gera í dag? Þeir eru aftur að fara gegn Íbúðalánasjóði. Nú eru þeir að bjóða lága vexti á óverðtryggðum lánum sem er (Gripið fram í.) beinlínis beint gegn Íbúðalánasjóði. Það er með ólíkindum að hv. þingmaður skuli ekki sjá þetta.

Hv. þingmaður talar um félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs. Ég spyr nú bara, af því að ég bý úti á landi: Á þá að flokka okkur norður í landi sem félagslega þurfandi eða eitthvað svoleiðis? Við viljum geta keypt hús á markaði eins og aðrir en við þurfum lán til þess. Bankarnir vilja ekki lána okkur þannig að við hljótum að þurfa að fá lán einhvers staðar annars staðar og það er þá Íbúðalánasjóður.

Annað sem menn verða líka að hafa í huga, að Íbúðalánasjóði var gert að fjármagna sig á markaði frá 2004 eins og allir vita. Jú, það er ákveðið vandamál í því vegna þess að bankarnir réðust gegn sjóðnum. Það er nú bara svoleiðis. Þeir lækkuðu, niðurgreiddu vexti sína með jú, innlánum sem þeir höfðu fengið að sjálfsögðu. En hvernig er staðan í dag eins og ég sagði áðan? Það sama er að endurtaka sig núna.

Annað sem við þurfum að hafa í huga. Á meðan bankarnir lánuðu óheft, jusu út peningum í kannski 100% veðsetningu eða þar yfir, sem er að sjálfsögðu hluti af því að þeir fóru á hausinn á endanum — hvað var Íbúðalánasjóður að gera? Hann var með þak á sínum lánum, hámark kannski 20 millj. kr. Menn gátu hins vegar farið í einhvern bankann og fengið kannski 100 millj. kr. en ekki hjá Íbúðalánasjóði.

Þannig að þetta er algjörlega rangt. Íbúðalánasjóður verður að sjálfsögðu að vera bæði með félagslegt hlutverk og á markaði að einhverju leyti að minnsta kosti vegna þess að hann þarf að geta lánað út fyrir 101. Við skulum vona að við séum ekki farin að festast hér.