141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með honum þegar hann talar um löggæslumál, heilbrigðismál og aðrar grunnstoðir samfélagsins sem við höfum horft upp á sæta gríðarlegum niðurskurði undanfarin ár. Hv. þingmaður nefnir löggæsluna, heilbrigðisþjónustu á Vesturlandi og heilsugæslu. Hvernig þeim málum er háttað og að við skulum þurfa að horfa upp á að á sama tíma og verið er að skera niður í þeim málaflokkum sjáum við fjárveitingar til ýmissa gæluverkefna, þ.e. verkefna sem maður mundi alla jafna telja að væru ekki þau allra mikilvægustu þegar menn ná ekki endum saman, eins og ríkissjóður Íslands gerir ekki.

Hv. þingmaður nefndi ákveðin verkefni. Þau eru fleiri þarna eins og verkefnið um íslenska upplýsingasamfélagið, Netríkið Ísland o.s.frv. Breytingartillögurnar virðast vera yfirfullar af verkefnum sem manni finnst ekki skipta öllu máli miðað við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu. Það skiptir öllu máli að verja menntakerfið, heilbrigðiskerfið, löggæsluna, þessar grunnstoðir samfélagsins.

Það var eitt sem hv. þingmaður kom inn á í máli sínu en hafði þó ekki tíma til að ræða. Það snýr að IPA-styrkjunum sem við sjáum bæði inni í fjárlagafrumvarpinu sjálfu og aftur núna í breytingartillögunum. Hv. þingmaður kom lítillega inn á það í máli sínu. Mig langaði að spyrja hann að því hvað honum fyndist um að IPA-styrkirnir væru aftur að koma inn milli 1. og 2. umr., milli umræðna, að verið sé að veita aukna IPA-styrki. Hvað finnst honum um að við skulum ekki fá að sjá hver mótframlögin af hálfu ríkissjóðs eru til einstakra verkefna, að það sé ekki listað upp á einhverjum einum stað?