141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um þetta vil ég segja: Jú, vissulega sé ég eftir peningunum sem farið hafa í þetta, en ég hef hins vegar meiri áhyggjur af alls konar kostnaði sem ekki er beinlínis tilgreindur í þessu sambandi. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að frekar verði greint hvaða kostnaður fellur á bæði ráðuneyti og ýmsar opinberar stofnanir og raunar aðra aðila vegna aðildarumsóknarinnar sem ekki er beinn kostnaður við rekstur samninganefndarinnar eða beinn kostnaður við ferðalög sem tengjast umsóknarferlinu heldur ýmiss konar innri kostnaður í ráðuneytum og stofnunum. Ég held að hann sé umtalsverður. Það má auðvitað lesa um það í sambandi við hin og þessi og ólíklegustu mál sem koma hingað inn í þingið, alls konar mál sem kalla á aukna vinnu og aukinn kostnað hér og þar í kerfinu, þó að ekki sé hægt að færa það beinlínis sem beinan útlagðan kostnað vegna aðildarumsóknarinnar.

Þær tölur sem hv. þingmaður nefnir eru vissulega háar en þær eru aðeins brot af þeim kostnaði sem fellur raunverulega til. En til að festa hönd á því hvað nákvæmlega er um að ræða í því sambandi held ég að fara þurfi að fram mun betri greining. Ég minni á að um það hafa verið fluttar tillögur í þinginu, m.a. af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að Ríkisendurskoðun verði falið að meta með sérstökum hætti þann kostnað sem til fellur vegna aðildarumsóknarinnar. Ég held að það væri vel til fundið að stíga það skref þannig að hinn raunverulegi kostnaður kæmi fram en ekki bara lágmarkskostnaðurinn sem stafar annars vegar af rekstri samninganefndar og hins vegar beinlínis vegna ferðalaga sem þjóna samningaferlinu.