141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil svar hv. þingmanns svo að ekki eigi að taka tillögur ungra sjálfstæðismanna alvarlega, þetta sé eitthvert grín, en ég er ekki viss um að þeir séu sammála því mati hv. þingmanns. En hv. þingmaður hefur hins vegar verið sammála mér um eitt og annað. Ég hef verið almennt frekar ánægður með málflutning hv. þingmanns í kvöld, m.a. er varðar stöðu Byggðastofnunar og aðkomu hennar og ríkisins að atvinnuuppbyggingu.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um þau fjárlög sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og þau áhrif sem þeim er ætlað að hafa inn í næsta kjörtímabil get ég tekið undir með hv. þingmanni að það er afskaplega undarleg og óeðlileg nálgun að rétt fyrir kosningar skuli menn leggja fram eitthvað sem þeir kalla fjárfestingaráætlun sem að hluta til er lýsing á því sem ætti að vera eðlilegir liðir í fjárfestingu ríkisins og ætti að færa í fjárlög eins og hverja aðra fyrirhugaða fjárfestingu, m.a. samgöngubætur, en að hluta til eru sérstök gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þingmaður orðaði það réttilega, sem hún ætlar næstu ríkisstjórn að fjármagna og sjá um. Hún ætlar að lofa einhverjum tilteknum hópum ákveðnum hlutum, væntanlega í von um að fá í staðinn stuðning í kosningum, en svo eiga einhverjir aðrir að sjá um að fjármagna það og framkvæma.

Þó að ég hafi lagt mikla áherslu á það í fyrri ræðu minni í kvöld að mikilvægt væri að menn gerðu áætlanir til langs tíma er þetta mjög undarleg nálgun að vera í endalausu biksi fram og til baka í fjögur ár en ætla svo að gera langtímaáætlun fyrir næstu ríkisstjórn. Þetta er allt hið undarlegasta mál þótt það sé kannski ekki alveg jafnundarlegt og tillögur ungra sjálfstæðismanna, en undarlegt engu að síður.