141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem síðustu tveir hv. þingmenn enduðu og set spurningarmerki við það sem er kallað rökræða.

Það er margt athyglisvert í tillögum ungra sjálfstæðismanna. Þar er klárlega mjög margt sem maður setur spurningarmerki við en ég held hins vegar að þegar við stöndum í þessum sporum varðandi ríkissjóð sem skuldar yfir 1.915 milljarða og varðandi þær vaxtagreiðslur sem við erum með þurfum við að taka umræðuna alveg sama hvernig hún er, við þurfum að taka umræðuna með kostum hennar og göllum með þeim hugmyndum sem þar koma fram.

Ég hugsaði á meðan hv. þingmenn áttu orðaskipti áðan: Af hverju er rökræðan með þessum hætti á þinginu? Af hverju hafa einungis örfáir stjórnarliðar talað í þessari umræðu? Hv. þm. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, hefur verið á vaktinni alla umræðuna og komið í andsvör og fylgst með. Það hefur enginn hæstv. ráðherra tekið til máls, ekki einn einasti. Það er hægt að telja þá stjórnarþingmenn á fingrum annarrar handar sem talað hafa í þessu máli. Það er bara þannig, þeir eru örfáir. Reyndar hafa tveir hv. þingmenn, Jón Bjarnason og Þór Saari, tekið til máls sem ég reyndar átta mig ekki alveg á hvort eru í stjórnarmeirihlutanum eða í stjórnarandstöðunni. En hinir hafa ekki séð tilefni til að tjá sig.

Ég kallaði t.d. eftir viðhorfum frá hv. þingmönnum Norðvesturkjördæmis vegna ýmissa mála sem ég hef komið inn á í ræðum mínum. Ég skil ekki af hverju menn vilja ekki taka rökræðuna. Mun einhver hv. þingmaður eða hæstv. ráðherra hér inni treysta sér til að leggja fram hin einu sönnu og réttu fjárlög? Ég mundi ekki treysta mér til þess, alls ekki. Ég mundi vilja hlusta á skoðanir annarra. Mér finnst því að við getum ekki talað með þessum hætti og sagt að einhver geti komið fram með hin fullkomnu fjárlög. Fjárlög ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans eru ekki öll slæm, það eru ekki allar tillögur slæmar þar en þær eru heldur ekki allar góðar.

Mér finnst að við þurfum að fara í rökræður og ræða kosti og galla þess að fara ákveðnar leiðir. Ég segi það í fullri alvöru að okkur ber skylda til að miða við þá stöðu sem nú er, ekki nema við ætlum að sigla aftur inn í það tímabil sem hér var þegar menn neituðu að sjá öll þau óveðursský sem á lofti voru. Það var því miður þannig. Það væri athyglisvert að taka umræðu um tillögur, alveg sama hvaðan þær koma.

Setjum það í aðeins víðara samhengi. Hér hafa örfáir stjórnarliðar tekið þátt í umræðunum og má eiginlega segja að einungis einn þeirra, formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, hafi tekið þátt í þeim en enginn hæstv. ráðherra, enginn. Hver er þá staða Alþingis? Er hún þannig að ríkisstjórnin kemur sér saman um hvernig hlutirnir eigi að vera, svo er frumvarpið lagt fram og síðan þarf bara að samþykkja það án þess að taka um það efnislega og gagnrýna umræðu? Það er slæmt. Við eigum að taka dýpri umræðu um hlutina, hlusta á rökin og varnaðarorðin hvert hjá öðru til að fá skilning á hlutunum og taka þá upplýsta ákvörðun um hvað gera á. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég hef kallað eftir því að þingmenn Norðvesturkjördæmis ræði hér ákveðna hluti. Þeir hafa ekki einu sinni séð sér fært að koma hingað í andsvar þó að þeir hafi verið að sniglast hérna frammi í eldhúsi, þ.e. stjórnarliðarnir sem eru að verja tillögurnar, ég er ekki að tala um stjórnarandstöðuna sem búin er að tala hér. Ég velti því bara fyrir mér: Í hvaða stöðu er Alþingi? Eigum við að rifja upp hvað gerðist fyrir örfáum dögum?

Ég á sæti í hv. fjárlaganefnd og er búinn að vera þar þetta kjörtímabil. Ég sit heima og hlusta á fréttir og heyri þá seðlabankastjóra segja að skuldabréfin milli gamla og nýja bankans ógni hugsanlega fjármálastöðugleika landsins vegna þess að greiðslubyrðin sé það þung af því, það þurfi að lengja í henni og minnka byrðina. Sá seðlabankastjóri einhverja ástæðu til þess að láta hv. fjárlaganefnd vita? Aldrei hefur verið minnst á það í hv. fjárlaganefnd, aldrei.

Hvert er samspil seðlabankastjórans við svokallaðan ríkisfjármálahóp ráðherranna? Ég veit það ekki. Er það kannski þannig að ríkisfjármálahópurinn hittist og segi: Nú sér Seðlabankinn um þessi mál, og þar með fara þau yfir til Seðlabankans? Síðan fer kannski ríkisfjármálahópurinn að spila matador. Hver er upplýsingaskyldan gagnvart þinginu? Til hvers er ætlast? Ég hefði haldið að skynsamlegra hefði verið að nýta krafta hv. fjárlaganefndar meira og þann samstarfsanda sem þar hefur verið allt þetta kjörtímabil. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, það hefur verið mjög gott samkomulag og samstarfsvilji milli meiri hluta og minni hluta í hv. fjárlaganefnd allt kjörtímabilið. (ÁI: Jæja?) Síðan getur hv. þingmaður reynt að vera með einhver frammíköll og gera lítið úr því sem ég segi. En staðreyndin er hins vegar sú … (ÁI: Það er gott …) Já, það er gott og það er þannig. Maður veltir því auðvitað fyrir sér í ljósi þess hvernig umræðan er að þróast, hversu mikilvægt það er að menn ræði um hlutina og taki tillit hver til annars.

Ég man eftir einni umræðu, fyrst hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kallar fram í, sem snerist um svokölluð Árna Páls-lög, en þá var hv. þingmaður varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar. Ég man alveg eftir þeirri umræðu sem stóð hér langt fram á nótt. Þá var sagt að menn væru með einhverjar tafir. En hver varð reynslan? Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur hvar í flokki sem við stöndum, sama hver ríkisstjórnin er á hverjum tíma, að sýna aðeins meiri þolinmæði og hlusta á gagnrýnisraddir. Við þurfum að breyta starfsvenjunum þannig að þingið komi á hverjum tíma miklu meira inn í fjárlagagerð og hvað sem er. Sú er auðvitað raunin í mörgum málum en það er ekki hægt að gera hlutina eins og núna þegar langstærsti hluti breytingartillagnanna sem kemur til útgjalda kemur í gegnum ríkisstjórnarpakkann og það sem kemur til viðbótar mun væntanlega koma að hluta til í gegnum ríkisstjórnina. Það er spurning um sjálfstæði þingsins eða öllu heldur breytt vinnubrögð. Það þarf að breyta vinnubrögðunum.

Ég vil vekja athygli á því að hv. fjárlaganefnd var að skila áliti um skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2010. Hvað kemur þar fram? Þar var verið að ræða þá innspýtingu sem setja þarf inn í Íbúðalánasjóð. Hvað kemur í ljós? Í ljós kemur að Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu um málið árið 2005 þar sem mjög ítarlega er farið yfir allar þær brotalamir sem þar voru. Var nægjanlega fljótt gripið til ráðstafana? Að mínu mati nei. En það merkilega var að þegar við unnum að málinu kom í ljós að skýrsla Ríkisendurskoðunar 2005 var aldrei rædd í þinginu, ekki eina einustu mínútu. Ef þingið hefði á þeim tíma tekið skýrsluna til umræðu og kafað ofan í hana eins og á að gera hefði kannski, ég ætla að nota það orð, verið hægt að minnka það fjárhagslega tjón sem við urðum fyrir.

Þess vegna segi ég: Við eigum hlusta meira á gagnrýni hvers annars og taka tillit til hennar því að ég held að í raun telji enginn hv. þingmaður eða hæstv. ráðherra sig alltaf vita betur en hinir. Við megum ekki nálgast verkefnið með þeim hætti, við eigum að hlusta á gagnrýni hvers annars. Þannig fáum við yfirleitt bestu og skynsamlegustu niðurstöðuna.